Það er óhætt að segja að Alexandra Sharon Róbertsdóttir og fjölskylda hennar haldi fjölþjóðleg jól, en hún er búsett í Kanada með kærasta sínum Garrett Gordon og dóttur þeirra Ellu Sól Gordon. Garrett kærasti hennar ólst upp í Kanada en á foreldra frá Jamaíka sem hafa þó búið lengi í Kanada. Systir Alexöndru býr auk þess líka á sömu slóðum og á kanadískan eiginmann og svo er pabbi Alexöndru frá Argentínu og móðir hennar er hálf-færeysk og hálf-íslensk.

Þetta fjölþjóðlega ævintýri byrjaði í ársbyrjun 2015 þegar Alexandra heimsótti systur sína í Kanada. „Upphaflega ætlaði ég að stoppa í nokkra mánuði en ákvað svo að dvelja þar fram í desember. Í september kynntist ég svo Garrett og þá var ekki aftur snúið.“

Fjölskyldan var búin að skreyta vel síðustu helgina í nóvember.

Hún segir mjög gaman að eiga svona fjölþjóðlega fjölskyldu þar sem ólíkir siðir og mörg tungumál eru við lýði. „Svo er líka áhugavert að pabbi kemur frá lítilli eyju í Argentínu, mamma kemur frá Vestmannaeyjum þar sem ég er uppalin og svo eru tengdaforeldrarnir frá suðrænni eyju, þannig að það má segja að við eyjaskeggjarnir höldum hópinn vel saman.“

Fjölskyldan byggði jólaþorp fyrir íslensku jólasveinana. Litla prinsessan á heimilinu horfir hugfanginn á.

Fjölbreyttur matseðill

Hefðir frá Íslandi, Kanada og Jamaíka einkenna því jólahald fjölskyldunnar sem sést helst á matarborðinu, að sögn Alexöndru. „Á Þorláksmessu held ég kaffiboð um þrjúleytið þar sem m.a. er boðið upp á graflax (takk IKEA!), jólasmákökur og ýmislegt fleira. Ég tek alltaf frí úr vinnu 23. og 24. desember til þess að geta haldið íslensk jól, en við verjum aðfangadeginum hjá systur minni þar sem við höldum íslensk jól.“

Á jóladag er komið að kanadískum og jamaískum jólum með tilheyrandi matarhefðum. „Jóladagsmorgun hefst með bröns að jamaískum sið, þar sem við opnum pakkana og borðum svo eftirrétt. Um kvöldið er jólakvöldmatur og þá koma gjarnan vinir í heimsókn sem halda ekki sjálfir upp á jólin, enda ættaðir frá löndum sem halda ekki upp á jólin að okkar sið. Þá er skálað og yfirleitt spilað fram á kvöld.“

Dóttir Alexöndru fær í skóinn fyrir jólin..

Rétta tónlistin kyndir undir jólastemninguna

Tónlistin skipar líka helgan sess í jólahaldinu. „Það hefur verið ákveðin hefð í fjölskyldu minni að jólin komi ekki fyrr en jólaplata Barböru Streisand hefur verið spiluð 24. desember og hjá tengdafjölskyldu gegnir jólaplata Boney M sama hlutverki. Þannig að núna eru þær báðar spilaðar fyrir blandaða jólahaldið okkar.“ Inn í jólahaldið blandast líka argentísk sætindi ættuð frá föður hennar, auk þess sem Alexandra, Garrett og dóttir þeirra hafa tekið upp þann sið að vera í samstæðum náttfötum á jóladagsmorgun.

Fjölskyldan á góðri stundu síðustu jól.

Safnar jólasveinastyttum

Alexandra heldur fast í íslensku jólasveinahefðina og gefur dóttur sinni gjöf í skóinn. „Síðan hef ég verið að safna íslenskum jólasveinastyttum, en við byggðum heilt þorp fyrir þá fyrir tveimur árum þegar við vorum föst heima um Covid-jólin. Ég vildi að þorpið myndi líkjast Íslandi þannig að við settum upp fjöll, máluðum norðurljós með sjálflýsandi málningu, settum snjó yfir allt og lýstum upp með ljósaseríu. Þetta verða fyrstu jólin þar sem ég á allar stytturnar og mun ég setja út einn jólasveinn fyrir hvern dag sem þeir „koma í bæinn“.“

En þótt jólin í Kanada með stórfjölskyldunni séu ljúf og góð saknar hún enn íslensku jólanna. „Ég elska íslensk jól og ég sakna alls sem tengist þeim. Íslendingar taka jólin svoleiðis með trompi og allur desember er svo hátíðlegur finnst mér. En mest sakna ég þó fjölskyldunnar og vina á Íslandi og íslenska matarins.“

Meðal rétta á fjölþjóðlegum matseðli er argentínskur brauðbúðingur.