Eftir langa og stranga þrauta­göngu síðustu tvö leik­ár virtust bjartari tímar vera fram undan í sviðs­listum síðast­liðið haust. Leik­húsin tóku við sér af krafti eftir stöðugar lokanir í heims­far­aldri en dyrnar stóðu ekki opnar lengi. Öllu var skellt í lás fyrir jól, jóla­sýningunum var frestað og á­standið í­skyggi­legt um tíma. Lang­tíma­á­hrifin eiga eftir að koma betur í ljós en ljóst er að sjálf­stæða sviðs­lista­senan kom verst undan vetri. Meira um það síðar.

Barna­sýningar og er­lent lista­fólk

Hefjum leik á já­kvæðu nótunum. Barna­leik­húsið á landinu er í blóma. Hver vandaða og skemmti­lega leik­sýningin fyrir yngstu á­horf­endurna rak aðra á liðnu leik­ári. Emil í Katt­holti í leik­stjórn Þórunnar Örnu Kristjáns­dóttur var frá­bær í Borgar­leik­húsinu og Kjarval sömu­leiðis, Karde­mommu­bærinn hélt á­fram að fylla hús í Þjóð­leik­húsinu og Mann­dýr eftir Aude Bus­son í Tjarnar­bíó leyfði litlu á­horf­endunum að búa til sína eigin list í krafti hópsins.

Eftir nærri fjöru­tíu ára fjar­veru var loksins hægt að sjá leik­rit Car­yl Churchill á landinu: Ein komst undan í leik­stjórn Kristínar Jóhannes­dóttur í Borgar­leik­húsinu og Ást og upp­lýsingar í leik­stjórn Unu Þor­leifs­dóttur í Þjóð­leik­húsinu. Sömu­leiðis komst Fram­úr­skarandi vin­kona í leik­stjórn Yael Far­ber loksins á svið. Því miður varð sýningar­tíminn á þessum sýningum fremur stuttur, en vonandi er þetta for­smekkurinn að fram­tíðinni.

Gísli Örn Garðarsson sló í gegn í Ég hleyp.
Mynd/Aðsend

Skuggi stórra sýninga

Far­aldurinn varð til þess að stærri leik­húsin skulduðu stórar sýningar langt fram í tímann og yfir­tóku þær Þjóð­leik­húsið og Borgar­leik­húsið á kostnað þeirra smærri. Ein af af­leiðingunum var ör­tröð á Stóra sviði Þjóð­leik­hússins sem skapaði ó­fremdar­á­stand þar sem geymslu­að­staða hússins er ó­við­unandi. Borgar­leik­húsið kom sömu­leiðis mjög fjár­hags­lega laskað út úr far­aldrinum.

Skugga-Sveinn í leik­stjórn Mörtu Nor­dal á Akur­eyri vakti tölu­verða at­hygli og gekk fyrir fullu húsi í Sam­komu­húsinu fram á vor. Leik­hús­gagn­rýnandi Frétta­blaðsins fékk ekki boð og sá hana því ekki.

Leik­sýningarnar Ein komst undan og Ást og upp­lýsingar eftir Car­yl Chur­hill stóðu upp úr á þessu leik­ári. Til­rauna­sýningin Á vísum stað eftir leik­hópinn Slembi­lukku var eftir­minni­leg, fjár­festing í ungu sviðs­lista­fólki marg­borgar sig.

Gísli Örn Garðars­son hljóp inn í hjörtu á­horf­enda í danska ein­leiknum Ég hleyp og Sjö ævin­týri um skömm eftir Tyrfing Tyrfings­son í leik­stjórn Stefáns Jóns­sonar kom eins og skrattinn úr sauðar­leggnum á vor­mánuðum. Sér­stakt hrós fær Tjarnar­bíó, starfs­fólk þess og lista­fólk fyrir elju, bar­áttu­anda og þraut­seigju á þessum síðustu og verstu tímum.

Blóðuga kanínan eftir Elísa­betu Jökuls­dóttur var sett upp í Tjarnar­bíó.
Mynd/Aðsend

Ís­lensk leik­ritun

Leik­gerðin lifir enn þá góðu lífi á Ís­landi en Ásta var sýnd fyrir fullu húsi og færði sig fljót­lega upp á Stóra sviðið í Þjóð­leik­húsinu, sömu­leiðis Vertu úlfur en báðar sýningarnar eru byggðar á bókum.

Þrátt fyrir tölu­verðan upp­gang þegar kemur að kven­kyns leik­stjórum og er­lendum leik­skáldum virðist eitt­hvað halla á þeirra hlut þegar kemur að ís­lenskri leik­ritun.

Blóðuga kanínan eftir Elísa­betu Jökuls­dóttur í Tjarnar­bíó var þó undan­tekningin en nokkra furðu vakti að Sig­rún Eld­járn þurfti leik­rita­keppni til að koma sínum fanta­góða Um­skiptingi á svið.

Hvað karl­kyns leik­skáldin varðar þá var fram­boðið meira en fátt mark­vert. Þétting hryggðar eftir Hall­dór Lax­ness Hall­dórs­son í Borgar­leik­húsinu var þó for­vitni­leg frum­raun.

Sjö ævin­týri um skömm eftir Tyrfing Tyrfings­son er í sýningum fyrir nánast fullu húsi öll kvöld sem sýnir að greini­lega er eftir­spurn eftir ís­lenskum gæðum.

Sjö ævin­týri um skömm eftir Tyrfing Tyrfings­son er í sýningum fyrir nánast fullu húsi öll kvöld.
Mynd/Aðsend

Ó­nýtt launa- og styrkja­kerfi

Biðin eftir sér­stöku ráðu­neyti fyrir menningu og listir lengist. Eftir síðustu kosningar varð þó til nýtt ráðu­neyti, menningar- og við­skipta­ráðu­neytið. Hættan er sú að menningar­málin týnist í peninga­frum­skóginum.

Mikil gleði braust út þegar við­spyrnu­styrkur var til­kynntur en svo kom annað hljóð í strokkinn. Í stað þess að nýta tæki­færið til að stokka upp í kerfinu var enn og aftur settur plástur á opið svöðu­sár. Plásturinn var líka lengi á leiðinni en til­kynningin um að­gerðirnar kom ekki fyrr en í lok mars.

Launa- og styrkja­kerfi lista­fólks er fyrir löngu úr­elt. Kerfinu verður að henda á haugana og byggja nýtt frá grunni, þessar enda­lausu lag­færingar gera engum gagn. Einnig verður að sam­ræma sjóði þannig að þeir gagnist lista­fólki.

Svið­lista­sjóður, Launa­sjóður lista­manna og Reykja­víkur­borg gera allir sama hlutinn en hópar verða yfir­leitt að treysta á út­hlutun frá fleiri en einum sjóðanna til að geta borgað lista­fólki mann­sæmandi laun. Um­sóknar­frestir og út­hlutanir þurfa einnig að vera fleiri.

Leiksýningarnar Ein komst undan og Ást og upplýsingar eftir Caryl Churhill stóðu upp úr á þessu leikári.

Það er engin á­stæða til að finna upp hjólið, nor­rænu ná­grannar okkar búa yfir ýmiss konar þekkingu. Þróunar­styrkir verða að vera í boði, sýningar­skylda fjar­lægð sem for­senda fjár­mögnunar og þrepa­kerfi launa sett inn. Þannig skapast öruggt vinnu­um­hverfi fyrir sjálf­stæða hópa og lang­lífi þeirra er tryggt.

Sömu­leiðis eru leik­skáld á hrak­hólum. Þeir sem vilja skrifa fyrir leik­svið verða yfir­leitt að tengja vinnu sína við stærri leik­hús sem er afar sjald­gæft, föst verk­efni eða leik­hópa. Út­hlutanir úr rit­launa­sjóði til leik­skálda síðast­liðin ár eru til há­borinnar skammar.

Sumt breytist, annað ekki

Lista­há­skóli Ís­lands er loksins kominn með fram­tíðar­hús­næði fyrir alla sína starf­semi undir sama þaki í Toll­húsinu við Tryggva­götu. En við­varandi hús­næðis­skortur er vanda­mál þvert á allar sviðs­listir. Fram­bjóð­endur í Reykja­vík héldu ný­lega fund með sjálf­stæðu sviðs­lista­fólki og þar kom ber­sýni­lega í ljós hörð lífs­bar­átta.

Jafn­vel ef fjár­veiting fæst í gegnum launa­kerfin er ekkert pláss til að sýna verkin, Tjarnar­bíó er til dæmis fyrir löngu búið að sprengja utan af sér. Sviðs­lista­mið­stöð er þó loksins komin á legg en Frið­rik Frið­riks­son kvaddi Tjarnar­bíó til að taka við stofnuninni og Sara Martí Guð­munds­dóttir tók við sem fram­kvæmda­stjóri.

Sun & Sea sem hreppti Gullna ljónið á Fen­eyja­tví­æringnum 2019 er sýnt á Listahátíð í ár.
Mynd/Aðsend

Sól, sjór og stjórn­sýslu­sull

Lista­há­tíð í Reykja­vík er handan við hornið en sviðs­li­sta­unn­endur eru hvattir til að skoða dag­skrána enda fjöl­margt spennandi í boði. Þar má helst nefna banda­ríska lista­manninn Taylor Mac og litáísku inn­setninguna Sun & Sea sem hreppti Gullna ljónið á Fen­eyja­tví­æringnum 2019, báðir við­burðirnir eru á heims­mæli­kvarða.

Ís­land er menningar­þjóð. Þetta er setning sem stjórn­mála­fólk tönglast reglu­lega á en er ekki til­búið til að sýna í verki, hvað þá fjár­stuðningi. Sviðs­listirnar hafa gleymst í gegnum tíðina og mála­flokkurinn virðist alltaf mæta af­gangi. Við eigum stór­kost­legt sviðs­lista­fólk sem á miklu betra skilið. Leik­húsið mun lifa en önnur spurning er hvort lista­fólkið geti lifað á leik­listinni.

Allir í leik­hús!