Eftir langa og stranga þrautagöngu síðustu tvö leikár virtust bjartari tímar vera fram undan í sviðslistum síðastliðið haust. Leikhúsin tóku við sér af krafti eftir stöðugar lokanir í heimsfaraldri en dyrnar stóðu ekki opnar lengi. Öllu var skellt í lás fyrir jól, jólasýningunum var frestað og ástandið ískyggilegt um tíma. Langtímaáhrifin eiga eftir að koma betur í ljós en ljóst er að sjálfstæða sviðslistasenan kom verst undan vetri. Meira um það síðar.
Barnasýningar og erlent listafólk
Hefjum leik á jákvæðu nótunum. Barnaleikhúsið á landinu er í blóma. Hver vandaða og skemmtilega leiksýningin fyrir yngstu áhorfendurna rak aðra á liðnu leikári. Emil í Kattholti í leikstjórn Þórunnar Örnu Kristjánsdóttur var frábær í Borgarleikhúsinu og Kjarval sömuleiðis, Kardemommubærinn hélt áfram að fylla hús í Þjóðleikhúsinu og Manndýr eftir Aude Busson í Tjarnarbíó leyfði litlu áhorfendunum að búa til sína eigin list í krafti hópsins.
Eftir nærri fjörutíu ára fjarveru var loksins hægt að sjá leikrit Caryl Churchill á landinu: Ein komst undan í leikstjórn Kristínar Jóhannesdóttur í Borgarleikhúsinu og Ást og upplýsingar í leikstjórn Unu Þorleifsdóttur í Þjóðleikhúsinu. Sömuleiðis komst Framúrskarandi vinkona í leikstjórn Yael Farber loksins á svið. Því miður varð sýningartíminn á þessum sýningum fremur stuttur, en vonandi er þetta forsmekkurinn að framtíðinni.

Skuggi stórra sýninga
Faraldurinn varð til þess að stærri leikhúsin skulduðu stórar sýningar langt fram í tímann og yfirtóku þær Þjóðleikhúsið og Borgarleikhúsið á kostnað þeirra smærri. Ein af afleiðingunum var örtröð á Stóra sviði Þjóðleikhússins sem skapaði ófremdarástand þar sem geymsluaðstaða hússins er óviðunandi. Borgarleikhúsið kom sömuleiðis mjög fjárhagslega laskað út úr faraldrinum.
Skugga-Sveinn í leikstjórn Mörtu Nordal á Akureyri vakti töluverða athygli og gekk fyrir fullu húsi í Samkomuhúsinu fram á vor. Leikhúsgagnrýnandi Fréttablaðsins fékk ekki boð og sá hana því ekki.
Leiksýningarnar Ein komst undan og Ást og upplýsingar eftir Caryl Churhill stóðu upp úr á þessu leikári. Tilraunasýningin Á vísum stað eftir leikhópinn Slembilukku var eftirminnileg, fjárfesting í ungu sviðslistafólki margborgar sig.
Gísli Örn Garðarsson hljóp inn í hjörtu áhorfenda í danska einleiknum Ég hleyp og Sjö ævintýri um skömm eftir Tyrfing Tyrfingsson í leikstjórn Stefáns Jónssonar kom eins og skrattinn úr sauðarleggnum á vormánuðum. Sérstakt hrós fær Tjarnarbíó, starfsfólk þess og listafólk fyrir elju, baráttuanda og þrautseigju á þessum síðustu og verstu tímum.

Íslensk leikritun
Leikgerðin lifir enn þá góðu lífi á Íslandi en Ásta var sýnd fyrir fullu húsi og færði sig fljótlega upp á Stóra sviðið í Þjóðleikhúsinu, sömuleiðis Vertu úlfur en báðar sýningarnar eru byggðar á bókum.
Þrátt fyrir töluverðan uppgang þegar kemur að kvenkyns leikstjórum og erlendum leikskáldum virðist eitthvað halla á þeirra hlut þegar kemur að íslenskri leikritun.
Blóðuga kanínan eftir Elísabetu Jökulsdóttur í Tjarnarbíó var þó undantekningin en nokkra furðu vakti að Sigrún Eldjárn þurfti leikritakeppni til að koma sínum fantagóða Umskiptingi á svið.
Hvað karlkyns leikskáldin varðar þá var framboðið meira en fátt markvert. Þétting hryggðar eftir Halldór Laxness Halldórsson í Borgarleikhúsinu var þó forvitnileg frumraun.
Sjö ævintýri um skömm eftir Tyrfing Tyrfingsson er í sýningum fyrir nánast fullu húsi öll kvöld sem sýnir að greinilega er eftirspurn eftir íslenskum gæðum.

Ónýtt launa- og styrkjakerfi
Biðin eftir sérstöku ráðuneyti fyrir menningu og listir lengist. Eftir síðustu kosningar varð þó til nýtt ráðuneyti, menningar- og viðskiptaráðuneytið. Hættan er sú að menningarmálin týnist í peningafrumskóginum.
Mikil gleði braust út þegar viðspyrnustyrkur var tilkynntur en svo kom annað hljóð í strokkinn. Í stað þess að nýta tækifærið til að stokka upp í kerfinu var enn og aftur settur plástur á opið svöðusár. Plásturinn var líka lengi á leiðinni en tilkynningin um aðgerðirnar kom ekki fyrr en í lok mars.
Launa- og styrkjakerfi listafólks er fyrir löngu úrelt. Kerfinu verður að henda á haugana og byggja nýtt frá grunni, þessar endalausu lagfæringar gera engum gagn. Einnig verður að samræma sjóði þannig að þeir gagnist listafólki.
Sviðlistasjóður, Launasjóður listamanna og Reykjavíkurborg gera allir sama hlutinn en hópar verða yfirleitt að treysta á úthlutun frá fleiri en einum sjóðanna til að geta borgað listafólki mannsæmandi laun. Umsóknarfrestir og úthlutanir þurfa einnig að vera fleiri.
Leiksýningarnar Ein komst undan og Ást og upplýsingar eftir Caryl Churhill stóðu upp úr á þessu leikári.
Það er engin ástæða til að finna upp hjólið, norrænu nágrannar okkar búa yfir ýmiss konar þekkingu. Þróunarstyrkir verða að vera í boði, sýningarskylda fjarlægð sem forsenda fjármögnunar og þrepakerfi launa sett inn. Þannig skapast öruggt vinnuumhverfi fyrir sjálfstæða hópa og langlífi þeirra er tryggt.
Sömuleiðis eru leikskáld á hrakhólum. Þeir sem vilja skrifa fyrir leiksvið verða yfirleitt að tengja vinnu sína við stærri leikhús sem er afar sjaldgæft, föst verkefni eða leikhópa. Úthlutanir úr ritlaunasjóði til leikskálda síðastliðin ár eru til háborinnar skammar.
Sumt breytist, annað ekki
Listaháskóli Íslands er loksins kominn með framtíðarhúsnæði fyrir alla sína starfsemi undir sama þaki í Tollhúsinu við Tryggvagötu. En viðvarandi húsnæðisskortur er vandamál þvert á allar sviðslistir. Frambjóðendur í Reykjavík héldu nýlega fund með sjálfstæðu sviðslistafólki og þar kom bersýnilega í ljós hörð lífsbarátta.
Jafnvel ef fjárveiting fæst í gegnum launakerfin er ekkert pláss til að sýna verkin, Tjarnarbíó er til dæmis fyrir löngu búið að sprengja utan af sér. Sviðslistamiðstöð er þó loksins komin á legg en Friðrik Friðriksson kvaddi Tjarnarbíó til að taka við stofnuninni og Sara Martí Guðmundsdóttir tók við sem framkvæmdastjóri.

Sól, sjór og stjórnsýslusull
Listahátíð í Reykjavík er handan við hornið en sviðslistaunnendur eru hvattir til að skoða dagskrána enda fjölmargt spennandi í boði. Þar má helst nefna bandaríska listamanninn Taylor Mac og litáísku innsetninguna Sun & Sea sem hreppti Gullna ljónið á Feneyjatvíæringnum 2019, báðir viðburðirnir eru á heimsmælikvarða.
Ísland er menningarþjóð. Þetta er setning sem stjórnmálafólk tönglast reglulega á en er ekki tilbúið til að sýna í verki, hvað þá fjárstuðningi. Sviðslistirnar hafa gleymst í gegnum tíðina og málaflokkurinn virðist alltaf mæta afgangi. Við eigum stórkostlegt sviðslistafólk sem á miklu betra skilið. Leikhúsið mun lifa en önnur spurning er hvort listafólkið geti lifað á leiklistinni.
Allir í leikhús!