Í dágóðan tíma hefur flogið sú fiskisaga að hjónabandi stjörnuhjónanna Kim Kardashian-West og Kanye West sé líklega lokið. Orðrómurinn fékk byr undir báða vængi í síðustu viku og herma slúðurveldin ytra að hjónin stefni nú hvort í sína átt. Talsmenn stjarnanna vilja lítið segja. Rísandi frægðarsól Kim

Kim segir þau Kanye hafa kynnst árið 2003, þar sem hann var í hljóðveri að taka upp tónlist. Hann hafði þá þegar komið sér á kortið sem vinsæll tónlistarmaður. Kim mætti með tónlistar- og vinkonu sinni, Brandy. Sú er systir söngvarans og leikarans Ray J sem hafði ásamt Kim tekið upp heimagert myndband sem fór síðar eins og eldur um sinu um netheima. Myndbandið var tekið upp árið 2002 en féll í hendur óprúttinna aðila í upphafi 2007 sem láku því á vefinn undir fyrirsögninni: Kim Kardashian, Superstar. Kardashian-fjölskyldan vill í það minnsta meina að svona hafi þetta allt farið fram, en kenningar eru um að móðir Kim, Kris Jenner, hafi komið mynbandinu í dreifingu. Hvað sem öðru líður fór bolti Kim á fleygiferð, en fyrir mynbandið hafði hún það helst til brunns að bera að vera vinkona hótelprinsessunnar Paris Hilton. Hálfu ári eftir óumbeðna frumsýningu myndbandsins hófu þættirnir Keeping up with the Karadashians göngu sína.

Allar mættar á sýninu Yeezy 3 árið 2016, klæddar og stíliseraðar af Kanye. mynd/Getty Images

Ást við fyrstu sýn

Kanye vill meina að hann hafi kolfallið fyrir Kim við fyrstu kynni, en hún var á þeim tíma gift tónlistarmanninum Damon Thomas. Vinátta spratt þó upp á milli Kim og Kanye þótt þau hafi lítið umgengist hvort annað. Hún sást þó á tónleikum með honum árið 2008. Vinsældir Keeping up the Kardashians uxu gríðarlega með árunum, enda þykir fjölskyldan einstaklega opinská og hnyttin. Ferill Kanye var líka í veldisvexti og nafn hans orðið eitt það stærsta í tónlistarheiminum á þeim tíma sem Kim giftist körfuboltamanninum og nafna móður hennar, Kris Humphries. Öllu var tilkostað og brúðkaupið sýnt á E!-sjónvarpsstöðinni. Hjónabandið við Humphries varð þó skammlíft þar sem Kim sótti um skilnað aðeins 72 dögum seinna.

Kanye og Kim með barnaskarann á jólakorti fjölskyldunnar 2019. Mynd/Instagram

Örlagaríkt símtal

Kanye hefur haldið því fram að hann hafi hringt í Kim þegar hann sá að hún væri trúlofuð og beðið hana um að giftast ekki Kris. Máli sínu til stuðnings sendi hann henni myndir af körfuboltamönnum sem hann taldi eldast illa. Langþráður draumur Kanye rættist svo þegar hann og Kim fóru fyrst að stinga saman nefjum í apríl 2012, þegar Kim var enn gift Humphries á blaði.

Stimpla sig inn

Frumburður Kim og Kanye fæddist árið 2013, 15. júní, einungis viku eftir formlegum endalokum hjónabandsins við Humphries. Litlu munaði að þegar stúlkan fæddist að Kris yrði því skráður faðir á fæðingarvottorðinu. Nafngift stúlkunnar, North West, vakti heimsathygli og var þá mörgum ljóst að Kimye væru búin að skrá sig rækilega inn í raðir Hollýwood-elítunnar. Kanye lagðist svo á skeljarnar og bað Kim í 33 ára afmæli hennar.

Brúðkaup Kim og Kanye í Flórens þótti hið allra glæsilegasta.

Glæsilegt brúðkaup

Kim og Kanye gengu í hjónaband í maí á Ítalíu árið 2014. Kim klæddist kjól frá Martin Margiela og Kanye var í jakkafötum frá Givenchy. Um 600 manns var boðið til kvöldverðar í höllinni í Versölum daginn fyrir brúðkaupið, 23. maí sem vakti mikla athygli. Gestunum var svo flogið til Flórens í einkaflugvélum, þar sem brúðkaupið sjálft fór fram. Þau eignuðust síðan soninn Saint í desember árið eftir. Síðan þá hafa þau eignast dótturina Chicago, árið 2018, og soninn Psalm, árið 2019. Þau fæddust bæði með hjálp staðgöngumóður, en Kim hafði tjáð sig opinberlega um lífshættulega fylgikvilla tveggja fyrri meðganga.

Ósættið við Jay-Z

Kanye og rapparinn Jay-Z höfðu átt farsælt samstarf en á tónleikum árið 2016 lýsti Kanye því yfir að þeir væru ekki lengur í samskiptum. Bað hann Jay-Z að hafa samband við sig og sakaði hann um að hafa sent menn á eftir sér. Í kjölfarið var Kanye lagður inn á UCLA-spítalann með ofskynjanir, ranghugmyndir og kvíða. Hann hefur lýst því yfir að hann sé haldinn geðhvarfasýki, kvíða og þunglyndi. Síðustu ár hefur það gerst með reglulegu millibili að hann fer mikinn á Twitter. Kim hefur alltaf staðið föst á því að þetta leysi þau í sameiningu og hún muni standa með eiginmanni sínum.

Kanye valdi kjólinn sem Kim klæddist á MET-galanu 2012, þá langt gengin með North West. Kjóllinn vakti mikla athygli á sínum tíma og gengu slúðurmiðlar svo langt að líkja ófrískri Kim við blómóttan sófa. Mynd/Getty Images

Vill láta gott af sér leiða

Kim hefur slegið í gegn með snyrtivöruveldi sitt, KKW, og er þá spurning hvort að W. hverfi úr nafni fyrirtækisins ákveði þau að skilja. Hún rekur einnig fyrirtækið SKIMS sem selur nærfatnað og náttföt fyrir konur og börn. Upp kom nokkuð hneyksli á sínum tíma þegar í ljós kom að Kim ætlaði að nefna fyrirtækið Kimono, en það þótti taktlaus tilraun til að eigna sér annan menningarheim og reyna að græða á honum. Í dag stundar Kim lögfræðinám af miklu móð, hún segir að sig hafi alltaf dreymt um að verða lögfræðingur eins og pabbi hennar Robert Kardashian. Hún beitir sér nú af kappi fyrir endurupptöku mála hjá föngum sem ýmist hafa hlotið óvæginn dóm fyrir minniháttar brot eða eru á dauðadeild. Hún hefur leitað nokkrum sinnum með þessi mál til Donalds Trump, víkjandi Bandaríkja-forseta, með ágætum árangri.

Framboð til forseta

Síðasta ár virðist heilsa Kanye ekki vera upp á sitt besta og fór hann í framboð til forseta. Margir töldu það vera síðasta hálmstráið og Kim myndi nú fara frá Kanye, enda þótti hann sýna af sér nokkuð furðulega hegðun. Það er þó ekki fyrr en núna í janúar sem orðrómurinn kemst á feykilegt skrið og margir virtari miðlar hafa einnig kynt undir sögusögnunum. Þau þykja ein þekktustu hjón heims og því verður það nú að teljast fréttnæmt haldi þau í sitthvora áttina, þótt ferill Kim í það minnsta hafi verið tengdur við einhvers konar lágmenningu í gegnum tíðina. Þrátt fyrir að um opinberar persónur sé að ræða og mörgum þyki eflaust ekki smart að velta sér upp úr lífi þeirra og örlögum, þá vekja tíðindin vafalaust forvitni margra. Það verður áhugavert að sjá hvernig hlutirnir þróast og óskandi að allt fari vel, hvort sem það þýðir þá endalok hjónabandsins eða ekki.