„Kveikjan að bókinni er sú að Alexía konan mín var send fyrir nokkrum árum til Tenerife af auglýsingastofu til að finna fólk í auglýsingu fyrir ferðaskrifstofu. Þetta máttu ekki vera fegurðardrottningar, súpermódel eða of fallegt fólk heldur venjulega fallegt fólk. Þetta verkefni tókst ekki,“ segir Guðmundur. „Ég var lengi vel með það í kollinum að láta þetta verða ramma að sögu. Í mínum meðförum eru karakterarnir allir skáldaðir og atburðarásin verður öll á annan veg en var í dæmi eiginkonu minnar. Anna Sól Magnúsdóttir dansari er send á Tenerife til að finna venjulegt fallegt fólk.

Þetta er saga sem fjallar um leitina að fegurðinni. Að mínu viti er fegurð viðfangsefni sem við erum að fást við dags daglega í okkar lífi. Margar okkar hatrömmustu deilur í samtímanum snúast um það hvað okkur finnst fallegt eða ekki fallegt. Þetta er undirliggjandi spurning sem er miklu stærri en við áttum okkur á.“

Í orðastað konu

Það er Anna sem segir söguna. Hvernig var að skrifa í orðastað konu? „Mér fannst mjög gaman og skemmtilegt að setja mig í spor ungrar konu. Ég lét konur lesa handritið yfir fyrir mig og fékk ráðleggingar um ýmislegt í reynsluheimi kvenna sem ég þekkti ekki. Ég hef samt lengi haft þá skoðun að kynjaþátturinn sé ekki endilega það sem aðskilur okkur, við erum einstaklingar og mismunandi sem slíkir.

Allar mínar bækur hafa verið fyrstu persónu frásögn. Þannig finnst mér sem höfundi gaman að reyna að skilja aðra og skilja heiminn. Ég vona að það hafi tekist.“

Uppörvandi saga

Spurður hvort bókin sé gamansaga segir Guðmundur: „Hún hefur að mörgu leyti það yfirbragð. Fólk segir mér að því finnist sagan skemmtileg. Fyrir mér er þetta ekki bara gamansaga heldur saga sem er skrifuð á tímum þar sem oft er erfitt að sjá hvað er fallegt og hvað ekki. Á undanförnum árum hafa verið erfiðleikar og myrkur yfir veröldinni og það var gott fyrir sjálfan mig að skrifa svona bók. Anna gerir lista yfir það sem henni finnst fallegt og drífur hana áfram. Það gaf mér mikið sem höfundi að spá í hvað er fallegt í veröldinni og það er hollt að minna sig á að það er ótal margt. Að því leytinu er þetta vonandi uppörvandi saga á tímum þegar þörf er á slíku.“

Guðmundur er byrjaður á næstu skáldsögu sem að sögn hans fjallar umumhverfismál og gamlan skarf. Vinnuheitið er Ástin og jörðin.