Menning

Saga um karl­mennsku­heim

Hjörtur Marteinsson er höfundur skáldsögunnar Meistararnir. Hann styðst að hluta til við raunverulega atburði í sögu sinni.

„Þessi bók er mjög ólík fyrri bókum mínum,“ segir Hjörtur um Meistarana sem hann tileinkar föður sínum. Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Meistararnir er ný skáldsaga eftir Hjört Marteinsson. Þar segir frá hinum tíu ára gamla Rósant sem árið 1972 fer með afa sínum á Evrópumót öldunga í frjálsum íþróttum í Finnlandi.

Ein af aukapersónum bókarinnar er kringlukastarinn Rikki brúskur sem á sér raunverulega fyrirmynd. „Árið 1972 kom til Íslands hinn ágæti sænski kringlukastari Ricky Bruch, sem ég kalla Rikka brúsk í bókinni. Hann tók þátt í móti á Laugardalsvellinum. Pabbi sem hafði löngum starfað sem kastdómari á frjálsíþróttamótum af miklum og fórnfúsum vilja var þar yfirdómari. Þarna kastaði Ricky í góðum vindi og setti heimsmet sem stóð þó ekki nema í nokkrar sekúndur. Hann steig yfir hringinn og það sá gamli maðurinn og dæmdi kastið ógilt og þar með fauk heimsmetið,“ segir Hjörtur.

„Þótt hann hafi ekki lifað það að sjá bókina koma út var ég búinn að lesa upp úr sumu fyrir hann og hann hafði gaman af,“ segir Hjörtur um föður sinn. Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

„Ricky var skemmtileg týpa og lék í nokkrum kvikmyndum. Þegar hann dó árið 2011 var hann búinn að fara gríðarlega illa með sig á steraáti. Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á honum sem einstaklingi og þolanda í lífinu. Ég hafði stundum verið að hugsa um að skrifa um hann, en um leið langaði mig til að minnast föður míns. Á efri árum fór pabbi að taka þátt í öldungakeppni í kringlu- og sleggjukasti. Hann sagði mér frá heimi þessara öldunga og ég hafði óskaplega gaman af þeim sögum. Þar var margt í finnskum anda, dálítið stórkarlalegt og með ofurkappi. Pabbi ól löngum með sér þann draum að fara utan að keppa á öldungamótum en aldrei varð af þeim draumi. Þannig að ég ákvað að búa til svið eins og í sögunni þar sem hann gæti hafa verið þátttakandi. Þannig má segja að mér hafi tekist að senda hann í anda á ímyndað mót í þakklætisskyni fyrir allt sem hann og mamma heitin gerðu fyrir okkur konuna mína og syni þrjá.“

Heimur öldunga

Hjörtur styðst því að nokkru við raunverulega atburði í þessari skáldsögu sinni. „Bókin byggir á þessu raunverulega atviki um heimsmetið sem pabbi dæmdi af þegar ég var á fimmtánda ári. Allt hitt er hrein fabúlasjón. Ég fylgdi pabba mjög oft á mót þar sem hann var að dæma í öllum veðrum. Þá sá ég keppendur af öllu tagi og hreifst mjög af. Sú upplifun ratar í söguna og síðan smíðaði ég afbrigði af þessum heimi öldunga sem pabbi hafði sagt mér frá. Drengurinn Rósant er tíu ára gamall og afi hans heitir einnig Rósant. Svo undarlega vill til að langafi minn af Ströndum hét einmitt Rósant en hann tók ekki þátt í neinum íþróttum svo ég best viti en varð að lokum hringjari í kirkjunni á Sauðárkróki.“

Gróteskur og ýktur heimur

Meistararnir er fimmta bók Hjartar, en meðal fyrri bóka hans eru AM 00 og Alzheimertilbrigðin. „Þessi bók er mjög ólík fyrri bókum mínum,“ segir Hjörtur. „Í AM 00 svífur talsvert meiri alvara yfir vötnum. Þessi bók er í allt öðrum anda og tón. Þetta er saga um karlmennskuheim sem er dálítið kjánalegur á köflum. Ég geri hann viljandi dálítið grót­eskan og ýktan af því að kappsemi þessara manna er oft svo óskapleg. Ég sá þetta hjá pabba sem skrapp oft niður á völl þar sem var búið að slá í innanfélagsmót. Þá sveiflaði gamli maðurinn sér úr jakkanum og stóð þá á blankskónum gljápússuðum inni í kasthringnum sveiflandi sleggjunni.“

„Þetta er saga um karlmennskuheim sem er dálítið kjánalegur á köflum.“ Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Faðir Hjartar lést fyrr á þessu ári og bókin er tileinkuð honum. „Þótt hann hafi ekki lifað það að sjá bókina koma út var ég búinn að lesa upp úr sumu fyrir hann og hann hafði gaman af,“ segir Hjörtur.

Dýrmætasta tilfinningin

Spurður hvort hann sé farinn að huga að öðru verki segir Hjörtur: 

„Ég er með hugmynd að sögu sem gerist úti í löndum. Ég hef einnig verið að dunda við eldri texta með hléum. Þar er ég kominn með handrit sem er orðið ansi langt og er að reyna að skera niður. Það hendir stundum höfunda að snúast gegn aðalpersónu sinni og þetta kom fyrir mig í þessum langhundi og nú er ég að reyna að ná fram meiri samúð og innlifun með þeirri persónu sem þar er á sviðinu enda stundum sagt að samúðin með sjálfum sér og lífinu öllu sé dýrmætasta tilfinningin.“

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing

Tengdar fréttir

Menning

Ó­­­rit­­skoðaður Þrándur með Tinna á Akur­eyri

Menning

Sól­veigar Ans­pach minnst á Frönsku há­tíðinni

Menning

Bíó­dómur: Æ sér gjöf til gjalda

Auglýsing

Nýjast

Þegar tungu­málið hljóp með Ís­lendinga í gönur

Chanel tilkynnir eftirmann Lagerfeld

Hóta að dreifa klám­mynd­bandi af Eddu: „Nú bíð ég spennt!!!!“

Ís­lands­svín vekja furðu og hroll með aug­lýsingu

Lagst­ur und­ir hníf­inn: „Aksturs­hæfn­in dvín“

Fann fljótt að þetta gerði mér gott

Auglýsing