Þriðji póllinn er heimildar­mynd í leik­stjórn Andra Snæs Magna­sonar og Anníar Ólafs­dóttur sem frum­sýnd verður 24. septem­ber. Myndin segir sögu Högna Egils­sonar tón­listar­manns og Önnu Töru Edwards, ís­lenskrar konu sem ólst upp í frum­skógum Nepal.

„Þegar Högni steig fram með sögu sína af geð­hvörfum hafði Anna Tara sam­band við hann. Hún vildi efna til tón­leika í Nepal til vitundar­vakningar um geð­sjúk­dóma og fékk hann til að spila þar. Högni hringdi síðan í okkur Anní og spurði hvort við værum til­búin að koma til Nepal og gera verk­efninu skil,“ segir Andri Snær. „Þegar við komum til Nepal blasti við hálf­gerð Karen Blixe­n saga. Anna Tara, hálf­ís­lensk og hálf bresk, ólst upp í frum­skógum Nepal. Mamma hennar, gull­fal­leg kona, fór þangað um tví­tugt og ól upp börn sín innan um tígris­dýr og nas­hyrninga. Hún fékk síðan geð­hvörf og sjálf fékk Anna Tara geð­hvörf upp úr tví­tugu.“

Ferða- og vin­áttu­saga

„Þetta er ferða­saga Önnu Töru og Högna. Þetta er líka saga um fjar­lægar til­viljanir. Högni fer í við­tal á Ís­landi og vakning verður til í Nepal. Þetta er ferða­saga og vin­áttu­saga þar sem þau deila reynslu sinni af því að vera með geð­hvörf. Við erum þó engan veginn að skil­greina þau út frá læknis­fræði­legum hug­tökum,“ segir Anní. Við birtum þau fyrst og fremst sem mann­eskjur og við töldum það mikil­vægt, að manneskju­væða geð­sjúk­dóma. Eftir nána sam­vinnu í fjögur ár, þá myndi maður aldrei skil­greina þau sem „veik“. Þeir sem eru með geð­hvörf þurfa að passa sig og það geta komið mjög erfið tíma­bil,“ segir Andri. „Lífs­reynslan gefur þeim inn­sæi og skilning. Það mætti frekar segja að þau séu sterk and­lega, þótt þau geti stundum orðið veik.“

Andri Snær og Anní fóru tvær ferðir til Nepal. „Þetta var mikið ævin­týri. Við fórum inn í annan heim og sagan skapaðist jafn­óðum. Anna Tara og Högni eru flottar mann­eskjur og það var gaman að vera í fé­lags­skap þeirra,“ segir Anní.

Klassískt ævin­týraminni

„Sagan sjálf fylgir hinu klassíska ævin­týraminni,“ segir Andri Snær. „Sögu­hetja í vanda kallar til sín hetjuna úr norðri. Vandinn er þöggunin og eina leiðin til að kveða hana niður er að segja nafnið á þessari skömm svo hátt að allir í konungs­ríkinu heyri. Saman ganga Högni og Anna Tara í gegnum á­kveðnar þrautir áður en þau eru til­búin til að stíga á svið og kveða niður skömmina.

Myndin er að hluta til ævin­týri, við ferðumst um framandi lands­lag og Högni segir okkur fyndnar maníu­sögur. Síðan fær Högni sím­tal að heiman þar sem honum er sagt að kunningi hans hafi svipt sig lífi. Þá opin­berast að þessi sjúk­dómur er ekki bara hæðin og flippið heldur borga menn fyrir hæðina með lægðinni og það er á­stand sem getur orðið lífs­hættu­legt.“

Spurður hvernig hann kunni við sig í hlut­verki leik­stjóra segir Andri Snær: „Sem rit­höfundur vinn ég mikið í ein­rúmi en sam­vinnan í leik­húsi og kvik­myndum er nærandi. Ég lærði margt af Þor­finni heitnum Guðna­syni þegar við gerðum saman Drauma­landið. Það er á­kveðin á­skorun að segja sögur gegnum aðra miðla.“

Þau segja sam­vinnuna hafa verið mjög á­nægju­lega. „Þetta flæddi bara mjög eðli­lega. Það mætti segja að ég hugsi í myndum og til­finningum en Andri Snær í sögum og hug­myndum. Við náum að skarast í miðjunni í einum kjarna og bætum hvort annað upp. Sýn okkar beggja er í verkinu,“ segir Anní.