For­seti Ís­lands, Guðni Th. Jóhannes­son, sendi á dögunum frá sér bókina Stund milli stríða: Saga land­helgis­málsins, 1961–1971. Í bókinni fjallar Guðni um sögu land­helgis­málsins, út­færslu fisk­veiði­lög­sögunnar og fyrsta þorska­stríðið en hún byggir að hluta á doktors­rann­sókn for­setans í sagn­fræði á Eng­landi undir lok síðustu aldar.

„Ég hófst handa við öflun heimilda hér og þar og alls staðar, á skjala­söfnum og ræddi við sjónar­votta og þá sem komu við sögu, og lagði drög að því með­fram öðru að skrá þessa sögu. Ég skrifaði bókina Þorska­stríðin þrjú, yfir­lit um land­helgis­mál á síðustu öld, sem kom út árið 2006. Svo var ég kominn á fullt fyrir all­nokkrum árum en þá tóku ör­lögin í taumana og ég fór í for­seta­kjör,“ segir Guðni um að­draganda bókarinnar.

Hann bætir því við að á for­seta­stóli hafi hann fundið fyrir nauð­syn þess að hafa eitt­hvað til að sleppa frá amstri dagsins og hafi því haldið skrifunum á­fram.

„Svo var það auð­vitað þannig þegar að heims­far­aldurinn skall á að það snar­fækkaði ferðum, við­burðum og fundum. Þótt það væri enn þá nóg að gera þá fann ég stundir til þess að ljúka við þetta rit. Hafði satt að segja mjög gaman af því að setja það saman og vona að það verði við­bót við það sem þegar hefur verið skráð og skrifað um þessa merku sögu. Saga land­helgis­málsins er þjóðar­saga.“

Guðni segist ætla að klára að segja sögu landhelgismálsins og þorskastríðanna í síðari bindum.
Kápa/Sögufélag

Merkur þáttur sam­tíma­sögu

Guðni hóf rann­sóknir sínar á land­helgis­málinu fyrir um aldar­fjórðungi. Spurður hvaðan á­huginn á þessu tíma­bili þjóðar­sögunnar komi kveðst for­setinn alltaf hafa haft mikinn á­huga á sagn­fræði auk þess sem nokkrir í hans frænd­garði hafi verið í Land­helgis­gæslunni á tímum þorska­stríðanna.

„Þetta er bara það merkur þáttur í sam­tíma­sögunni að þegar ég var að leita mér að efni til þess að takast á við í doktors­námi þá staldraði ég við þessa sögu. Vildi segja hana eins og ég tel að svona sögu eigi að segja. Með því að leita heimilda sem víðast, horfa á söguna frá ó­líkum sjónar­hornum, ekki búa til ein­hverja glans­mynd. Okkur Ís­lendingum hefur stundum hætt til að segja sem svo að við höfum alltaf staðið saman öll sem eitt í gegnum þessi átök öll en sú var alls ekki raunin.“

Ertu með bókinni að reyna að leið­rétta ein­hverjar mýtur um þennan kafla Ís­lands­sögunnar?

„Ég er að minnsta kosti að segja söguna eins og ég tel að hún verði best sögð. Ég hef notið þess að lesa frá­sagnir þeirra sem voru á vett­vangi, spjalla við þá og ber ítrustu virðingu fyrir þeim öllum, en ég tel hins vegar að með því að fjar­lægjast þessa á­taka­sömu tíma þá öðluðumst við kannski annan skilning á því hvers vegna fór sem fór. Það er alltaf þannig að þeir sem voru í eld­línunni hverju sinni sjá við­burði, þróun, alla at­burða­rás frá sínum sjónar­hóli, eða jafn­vel stjórn­palli. Svo koma aðrir síðar og fá annað sjónar­horn. Ég held því aldrei fram að ég sé ein­hver hand­hafi sann­leikans, en ég reyni þarna að segja þessa sögu af sann­girni og hlut­lægni og án þess að sagan sé notuð eins og ein­hvers konar vopn í bar­áttu okkar við er­lenda and­stæðinga.“

Ég held því aldrei fram að ég sé ein­hver hand­hafi sann­leikans, en ég reyni þarna að segja þessa sögu af sann­girni og hlut­lægni og án þess að sagan sé notuð eins og ein­hvers konar vopn í bar­áttu okkar við er­lenda and­stæðinga.

Manns­líf voru í húfi

Voru þorska­stríðin eigin­legt stríð?

„Þorska­stríðin voru ekki stríð í þeim skilningi að mann­fall hafi verið mikið og stöðugt, geysi­legt tjón, al­menningur beðið beinan skaða. Þau voru ekki heldur stríð í þeim skilningi að lýst hafi verið yfir stríði, svo við horfum til ýmissa skil­greininga á styrj­öld. Hins vegar voru manns­líf í húfi, þegar á­rekstrar urðu, það er við­fangs­efni næstu binda í þessari sögu að segja frá því þegar á­siglingar áttu sér stað og minnstu mátti muna að varð­skip bein­línis sykkju.

Guðni bætir því við að orðið stríð sé oft notað þótt ekki sé um eigin­legt stríð með mann­falli að ræða eins og þegar rætt er um við­skipta­stríð.

„Þannig við skulum halda í orðið þorska­stríð, það er öflugt orð sem breskir blaða­menn fundu upp á. Fyrst þegar þetta orð var notað haustið 1958 voru Ís­lendingar ekkert á­nægðir með það, fannst að það væri verið að gera lítið úr al­vöru á­takanna. Það var notað svona í gríni og háði úti að þetta væri „Cod War“. En við tókum þetta orð upp á okkar arma seint og um síðir og nú væri fá­rán­legt að reyna að berjast eitt­hvað gegn því.“

Guðni Th. Jóhannesson hefur rannsakað sögu landhelgismálsins og þorskastríðanna í hartnær aldarfjórðung.
Fréttablaðið/Eyþór Árnason

Finnur eigin stund milli stríða

Spurður um hvernig það fari saman að vera í senn for­seti Ís­lands og sagn­fræðingur viður­kennir Guðni að það geti að vissu leyti verið snúið enda sé nánast skrifað inn í verk­lýsingu þjóð­höfðingja að vera já­kvæður og blása þjóð sinni eld­móði í brjóst.

„En ég er sann­færður um það að við högnumst aldrei á því til lengri tíma að búa til ein­hverja glans­mynd af af­rekum þjóðarinnar í bráð og lengd því það kemur okkur bara í koll. Við eigum að horfa raun­sæjum augum á liðna tíð. Við eigum að viður­kenna og horfast í augu við það sem miður fór. Við eigum að sætta okkur við það að hér er stundum hver höndin uppi á móti annarri, jafn­vel þegar mikil­vægir þjóðar­hags­munir eru í húfi. Við eigum að kapp­kosta að segja söguna í öllum sínum blæ­brigðum. Við eigum ekki að hafa auðar síður í þjóðar­sögunni og ef ég get lagt mitt lóð á vogar­skálarnar í þeim efnum þá er það kannski jafn­vel bara betra að ég sé í þeirri stöðu sem ég er í núna um stundir.

Saga land­helgis­málsins og þorska­stríðanna þriggja er um­fangs­mikil saga sem teygir sig yfir nokkra ára­tugi. Guðni heitir því að klára söguna og mun næsta bindi fjalla um á­tökin á 8. ára­tugnum þegar fisk­veiði­lög­sagan var færð út í 50 mílur og að lokum út í 200 mílur.

„Ég er í launa­lausu leyfi við Há­skóla Ís­lands og allt tekur enda, líka minn ferill á for­seta­stóli, en þá held ég bara á­fram að skrifa þessa sögu,“ segir hann og bætir því við að stefnan sé að næsta bindi komi út eftir tvö ár. „Svo tek ég upp þráðinn þar sem frá var horfið í þessu bindi og held á­fram að finna mína eigin stund milli stríða á for­seta­stóli.“