Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, sendi á dögunum frá sér bókina Stund milli stríða: Saga landhelgismálsins, 1961–1971. Í bókinni fjallar Guðni um sögu landhelgismálsins, útfærslu fiskveiðilögsögunnar og fyrsta þorskastríðið en hún byggir að hluta á doktorsrannsókn forsetans í sagnfræði á Englandi undir lok síðustu aldar.
„Ég hófst handa við öflun heimilda hér og þar og alls staðar, á skjalasöfnum og ræddi við sjónarvotta og þá sem komu við sögu, og lagði drög að því meðfram öðru að skrá þessa sögu. Ég skrifaði bókina Þorskastríðin þrjú, yfirlit um landhelgismál á síðustu öld, sem kom út árið 2006. Svo var ég kominn á fullt fyrir allnokkrum árum en þá tóku örlögin í taumana og ég fór í forsetakjör,“ segir Guðni um aðdraganda bókarinnar.
Hann bætir því við að á forsetastóli hafi hann fundið fyrir nauðsyn þess að hafa eitthvað til að sleppa frá amstri dagsins og hafi því haldið skrifunum áfram.
„Svo var það auðvitað þannig þegar að heimsfaraldurinn skall á að það snarfækkaði ferðum, viðburðum og fundum. Þótt það væri enn þá nóg að gera þá fann ég stundir til þess að ljúka við þetta rit. Hafði satt að segja mjög gaman af því að setja það saman og vona að það verði viðbót við það sem þegar hefur verið skráð og skrifað um þessa merku sögu. Saga landhelgismálsins er þjóðarsaga.“

Merkur þáttur samtímasögu
Guðni hóf rannsóknir sínar á landhelgismálinu fyrir um aldarfjórðungi. Spurður hvaðan áhuginn á þessu tímabili þjóðarsögunnar komi kveðst forsetinn alltaf hafa haft mikinn áhuga á sagnfræði auk þess sem nokkrir í hans frændgarði hafi verið í Landhelgisgæslunni á tímum þorskastríðanna.
„Þetta er bara það merkur þáttur í samtímasögunni að þegar ég var að leita mér að efni til þess að takast á við í doktorsnámi þá staldraði ég við þessa sögu. Vildi segja hana eins og ég tel að svona sögu eigi að segja. Með því að leita heimilda sem víðast, horfa á söguna frá ólíkum sjónarhornum, ekki búa til einhverja glansmynd. Okkur Íslendingum hefur stundum hætt til að segja sem svo að við höfum alltaf staðið saman öll sem eitt í gegnum þessi átök öll en sú var alls ekki raunin.“
Ertu með bókinni að reyna að leiðrétta einhverjar mýtur um þennan kafla Íslandssögunnar?
„Ég er að minnsta kosti að segja söguna eins og ég tel að hún verði best sögð. Ég hef notið þess að lesa frásagnir þeirra sem voru á vettvangi, spjalla við þá og ber ítrustu virðingu fyrir þeim öllum, en ég tel hins vegar að með því að fjarlægjast þessa átakasömu tíma þá öðluðumst við kannski annan skilning á því hvers vegna fór sem fór. Það er alltaf þannig að þeir sem voru í eldlínunni hverju sinni sjá viðburði, þróun, alla atburðarás frá sínum sjónarhóli, eða jafnvel stjórnpalli. Svo koma aðrir síðar og fá annað sjónarhorn. Ég held því aldrei fram að ég sé einhver handhafi sannleikans, en ég reyni þarna að segja þessa sögu af sanngirni og hlutlægni og án þess að sagan sé notuð eins og einhvers konar vopn í baráttu okkar við erlenda andstæðinga.“
Ég held því aldrei fram að ég sé einhver handhafi sannleikans, en ég reyni þarna að segja þessa sögu af sanngirni og hlutlægni og án þess að sagan sé notuð eins og einhvers konar vopn í baráttu okkar við erlenda andstæðinga.
Mannslíf voru í húfi
Voru þorskastríðin eiginlegt stríð?
„Þorskastríðin voru ekki stríð í þeim skilningi að mannfall hafi verið mikið og stöðugt, geysilegt tjón, almenningur beðið beinan skaða. Þau voru ekki heldur stríð í þeim skilningi að lýst hafi verið yfir stríði, svo við horfum til ýmissa skilgreininga á styrjöld. Hins vegar voru mannslíf í húfi, þegar árekstrar urðu, það er viðfangsefni næstu binda í þessari sögu að segja frá því þegar ásiglingar áttu sér stað og minnstu mátti muna að varðskip beinlínis sykkju.
Guðni bætir því við að orðið stríð sé oft notað þótt ekki sé um eiginlegt stríð með mannfalli að ræða eins og þegar rætt er um viðskiptastríð.
„Þannig við skulum halda í orðið þorskastríð, það er öflugt orð sem breskir blaðamenn fundu upp á. Fyrst þegar þetta orð var notað haustið 1958 voru Íslendingar ekkert ánægðir með það, fannst að það væri verið að gera lítið úr alvöru átakanna. Það var notað svona í gríni og háði úti að þetta væri „Cod War“. En við tókum þetta orð upp á okkar arma seint og um síðir og nú væri fáránlegt að reyna að berjast eitthvað gegn því.“

Finnur eigin stund milli stríða
Spurður um hvernig það fari saman að vera í senn forseti Íslands og sagnfræðingur viðurkennir Guðni að það geti að vissu leyti verið snúið enda sé nánast skrifað inn í verklýsingu þjóðhöfðingja að vera jákvæður og blása þjóð sinni eldmóði í brjóst.
„En ég er sannfærður um það að við högnumst aldrei á því til lengri tíma að búa til einhverja glansmynd af afrekum þjóðarinnar í bráð og lengd því það kemur okkur bara í koll. Við eigum að horfa raunsæjum augum á liðna tíð. Við eigum að viðurkenna og horfast í augu við það sem miður fór. Við eigum að sætta okkur við það að hér er stundum hver höndin uppi á móti annarri, jafnvel þegar mikilvægir þjóðarhagsmunir eru í húfi. Við eigum að kappkosta að segja söguna í öllum sínum blæbrigðum. Við eigum ekki að hafa auðar síður í þjóðarsögunni og ef ég get lagt mitt lóð á vogarskálarnar í þeim efnum þá er það kannski jafnvel bara betra að ég sé í þeirri stöðu sem ég er í núna um stundir.
Saga landhelgismálsins og þorskastríðanna þriggja er umfangsmikil saga sem teygir sig yfir nokkra áratugi. Guðni heitir því að klára söguna og mun næsta bindi fjalla um átökin á 8. áratugnum þegar fiskveiðilögsagan var færð út í 50 mílur og að lokum út í 200 mílur.
„Ég er í launalausu leyfi við Háskóla Íslands og allt tekur enda, líka minn ferill á forsetastóli, en þá held ég bara áfram að skrifa þessa sögu,“ segir hann og bætir því við að stefnan sé að næsta bindi komi út eftir tvö ár. „Svo tek ég upp þráðinn þar sem frá var horfið í þessu bindi og held áfram að finna mína eigin stund milli stríða á forsetastóli.“