Bækur

Ilmreyr – móðurminning

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Vaka Helgafell

Fjöldi síðna: 278

Bókin Ilmreyr fjallar um nokkrar kynslóðir forfeðra höfundar og er farið nokkuð fram og aftur tíma, en sagan flæðir þó vel. Ólína byrjar á að minnast móður sinnar á mjög fallegan hátt og segir frá því þegar hún kvaddi þennan heim og hvernig andlát hennar hafi leitt til þess að hún fór að hugsa um uppruna sinn og sögu.

Síðan víkur sögunni á ættarslóðir vestur á fjörðum, þar sem Ólína dvaldi mörg sumur sem barn og það er greinilegt að sveitavistin og líf ættingja hennar þar hefur haft mjög mótandi áhrif á hana sem manneskju. Við fáum að kynnast persónulegum brotum úr lífi forfeðra Ólínu, sem heillandi er að lesa. Sumt hefur líklega varðveist í munnlegri geymd, en margt er líka fengið úr kvæðum, bréfum, bókum, annálum og öðrum heimildum. En höfundur tekur fram að í sögunni vefjist saman sjálfsævisöguleg efnistök, sagnfræði, þjóðfræði, skáldskapur og skemmtun.

Ólína skrifar mjög skilmerkilegan stíl sem þægilegt er að lesa. Textinn er einnig þannig að lesandinn lifir sig mjög sterkt inn í aðstæður, og upplifir mannlegar tilfinningar, hvort sem um er að ræða sorgir, gleði eða hetjudáðir, t.d. þá sem ættmenni Ólínu og fleiri frömdu við Látrabjarg þegar togarinn Dhoon strandaði þar í myrkri og kafaldsbyl með 15 manna áhöfn árið 1947. Höfundur lýsir einnig dýrum sem miklum tilfinningaverum á fleiri en einum stað sem snertir hjarta lesandans.

Sögurnar af Eyjajarlinum, Eyjólfi Einarssyni, útvegsbónda í Svefneyjum, sem þurfti að ræna brúði sinni við altarið vegna þess að það átti að gefa hana öðrum manni, og margar fleiri slíkar frásagnir, um gleði og harma, eru bæði skemmtilegar og fræðandi. Þegar líður á bókina nálgumst við nútímann á ný og höfundur segir okkur frá æsku sinni og uppvexti, hjónabandi foreldra sinna og erfiðleikum sem þau upplifðu á hreinskilinn hátt.

Bækur sem fjalla um það sem ég kalla „gamla Ísland“ eru í miklu uppáhaldi hjá mér, en Ilmreyr er einmitt slík bók. Líf, störf, ástir, sorgir, gleði, fátækt og umkomuleysi í samfélagi sem gaf þeim lítinn grið sem veikir voru fyrir. Lifnaðarhættir þessara kynslóða eru mér hugleiknir: hvernig var hægt að lifa svo erfiðu lífi en geta samt sýnt metnað, þrautseigju, góðmennsku og stundum meira að segja að upplifa hamingju. Öllu þessu fáum við að kynnast í Ilmreyr.

Það er einn af kostum þessarar bókar hvað hún er hispurslaus, en samt skrifuð af skilningi og næmni gagnvart aðstæðum í einkalífi fólks á ólíkum tímum. Ég mæli hiklaust með bókinni, sérstaklega fyrir þá sem eru áhugasamir um „gamla Ísland“, eins og ég. Það eina sem ég sakna er ég hefði gjarnan viljað að bókinni fylgdi ættartré svo lesandinn gæti glöggvað sig betur á kynslóðum og skyldleika.

Niðurstaða: Fróðleg og heillandi saga, skrifuð af næmni og hispursleysi.