Íslenski knattspyrnumaðurinn Ingólfur Sigurðsson verður umfjöllunarefnið í öðrum þætti í þriðju seríu af bandarísku heimildaþáttaseríunni Religion of Sports en sjá má kitlu úr umræddri seríu hér fyrir neðan.

Þáttaröðin er meðal annars framleidd af Tom Brady, leikstjórnanda bandaríska ruðningsliðsins New England Patriots og er meginumfjöllunarefni seríunnar íþróttir og það fjölbreytta fólk sem stundar þær. Fylgist er með þeim og hvernig íþróttir sameina fólk, líkt og um trúarbrögð væri að ræða.

Ingólfur hefur vakið mikla athygli undanfarin ár fyrir að ræða á opinskáan hátt um baráttu sína gegn kvíða og þunglyndi og hvernig veikindin höfðu áhrif á atvinnumannaferil hans en Ingólfur fór ungur að aldri til hollenska félagsins SC Heerenveen. Þá lék hann einnig með Lyngby BK í Danmörku en Ingólfur lék með KH í 3. deildinni í sumar.

Í samtali við Fréttablaðið segir Ingólfur að framleiðendur þáttanna hafi verið mjög áhugasamir um að segja sögu hans.  

„Þeir tóku upp mörg viðtöl við mig og upplifun mína af því að vera upprennandi knattspyrnumaður og vera í atvinnumennsku og upplifunina af því að fá svo allt í einu allt annað verkefni í hendurnar, það er að segja að glíma við geðsjúkdóm.“

Segir Ingólfur að tökudagarnir hafi verið nokkuð margir en að þeir hafi haft áhuga á að sjá þá staði sem tengjast ferli hans.

„Upptökur fóru fram hér á Íslandi í sumar og tók teymið upp í tíu daga, frá morgni til kvölds. Þeir vildu kynnast þeim stöðum sem tengjast mér og minni sögu og var meðal annars tekið upp myndefni á Hásteinsvelli í Vestmannaeyjum. Þeir í raun vildu bara kynnast mér. “

Ekki algengt að íþróttamenn tali opinskátt um kvíða og þunglyndi


Ingólfur segir að framleiðendur þáttanna hafi verið spenntir fyrir því að segja frá sögu hans, þar sem ekki er algengt að íþróttamenn tali með jafn opinskáum hætti um hluti eins og kvíða og þunglyndi, og hann hefur gert.

„Sú barátta er auðvitað mjög fyrirferðarmikil í minni sögu og gerir þetta kannski frábrugðið öðrum sögum. Það er því miður ekki oft sem íþróttamenn tala opinskátt um þessi mál.“

Þátturinn verður sýndur í sjónvarpi nú í nóvember og kemur á Netflix á næsta ári. Ingólfur segir að framleiðendur geti ekki beðið eftir að sýna þáttinn, sem hann segir nokkuð stærri í umfangi en hann hafi búist við í fyrstu. 

„Ég vissi auðvitað fyrst eiginlega ekkert um þetta en þetta virðist vera enn stærra en maður ímyndaði sér. Til dæmis var stikla fyrir þáttinn sýnd í hálfleik á BT sports í gær á leik Juventus og Manchester United. Svo það er bara vonandi að þetta komi ágætlega út, aðstoðarframleiðandi sagði mér einmit að hún geti ekki beðið eftir því að þátturinn fari í loftið. “