Annað kvöld stendur leikkonan og grínistinn Saga Garðarsdóttir fyrir uppistandi í Þjóðleikhúskjallaranum þar sem hún ætlar að prófa nýtt efni og að eigin sögn, tala um tilfinningar sína. Á viðburðinum fá áhorfendur tækifæri til að skyggnast inn í frekar óritskoðaðan huga Sögu áður en hún nær að slípa efnið og smyrja fyrir allar árshátíðirnar og aðra viðburði sem fram undan eru.

Góð stemning og hlýja

„Ég verð að prófa nýtt efni svo ég get ekki lofað að það verði fyndið en það verður pottþétt góð stemning og hlýja,“ segir Saga.

Hún segist ekki hafa lent í neinu hræðilegu óhappi á uppistandi.

„Það versta sem ég hef lent í er að gleyma að ég eigi að vera einhvers staðar. Og nokkrum sinnum hef ég gleymt að mæta en verið búin að lofa mér í að koma fram,“ segir hún.

Saga segist vera að koma af fullum krafti aftur í uppistandið með nóg af nýju efni.

„Mér finnst skemmtilegast að vera með uppistand. Og mig langar að endurnýja efnið mitt. Það er kvalafullt ferli. Já, ég ætla að fara á fullt í uppistandið núna,“ segir Saga.

Mótunarárin og kynórar

Á hvaða málefnum snertir þú í sýningunni?

„Núna er enn allt svo opið. Ástin, vináttan og mótunarárin eru til umræðu. Og kynórar.“

Saga segist ekki bara ætla að grínast annað kvöld, heldur mun hún líka snerta á tilfinningum og fá til sín hjónabandsráðgjafann Kristínu Tómasdóttir. Hún mun vafalaust gefa gestum góð ráð í makavali.

„Ég er orðin svo viðkvæm eftir að ég varð mamma svo ég reikna með að bresta nokkrum sinnum í grát. Hvað hjónabandsráðgjöfina varðar þá þekki ég mjög marga sem ætla að mæta sem eru rangparaðir og ég vona að þeir muni átta sig á því þetta kvöld,“ segir Saga,

Pabbi fyndnastur

Hvað finnst þér sjálfri fyndnast?

„Pabbi minn að segja brandara.“

Að uppistandi loknu tekur Saga nokkur lög með Mána Arnarsyni.

„Mig langar að segja að þetta séu töffaralög en einhver töffari myndi kannski kalla þetta lúðalög,“ segir hún og bætir við: „Máni er svo góður, þannig að samstarfið gekk mjög vel.“

Leikritið Veisla

Það er nóg að gera hjá Sögu fyrir utan uppstandið og veislustjórn.

„Ég er í leikritinu Veislu í Borgarleikhúsinu, en það er sketsasýning um veislumenningu. Það verður allavega hittari ef uppistandið klikkar,“ segir hún og hlær.

Saga á sér líka draumahlutverk.

„Mig langar að leika lögreglukonu í sakamálaþætti. Konuna sem er alltaf að senda sýni til Noregs.“

Uppselt er á uppistandið svo lesendur verða einfaldlega að hafa augun opin eftir næsta uppistandi frá Sögu.