Fréttirnar líkjast helst ástar­sögum hvíta tjaldsins þessa dagana, þegar eitt frægasta par Hollywood hefur gengið í hjóna­band tuttugu árum eftir að það hittist fyrst. Jenni­fer Lopez og Ben Af­f­leck tóku saman í fyrra eftir sau­tján ára að­skilnað. Þau bættu svo um betur og giftu sig um ný­liðna helgi.

Giftingin fór fram í Las Vegas og eins og siður er vestra tók Jenni­fer Lopez upp nafn eigin­mannsins og ber í dag nafnið Jenni­fer Lynn Af­f­leck.

„Í gær­kvöldi flugum við til Vegas, stóðum í bið­röð eftir leyfi með fjórum öðrum pörum sem lagt höfðu í sömu ferðina til brúð­kaups­höfuð­borgarinnar,“ skrifaði Lopez.

„Við rétt náðum að litlu hvítu brúð­kaup­s­kapellunni um mið­nætti. Þeir voru svo vin­sam­legir að halda opnu nokkrum mínútum lengur og leyfðu okkur að taka myndir í bleika kádiljáknum,“ skrifar Jenni­fer á Insta­gram-síðu sinni.

Parið mætti með stæl á kvikmyndahátíðina í Feneyjum í september í fyrra.
Fréttablaðið/Getty

Lopez skrifaði að hún hefði klæðst kjól úr gamalli kvik­mynd og Af­f­leck hefði skellt sér í gamlan jakka sem hann átti til í skápnum.

„Við lásum heitin okkar í litlu kapellunni og gáfum hvort öðru hringana sem við munum bera það sem eftir er ævinnar,“ skrifaði hún. „Á endanum var þetta besta mögu­lega brúð­kaup sem við gátum í­myndað okkur.“

Jenni­fer og Ben, eða Benni­fer eins og gárungarnir kalla þau, hittust fyrst á töku­stað kvik­myndarinnar Gigli árið 2002. Myndin kom út ári seinna. Á þeim tíma var Jenni­fer gift leikaranum Cris Judd og var það annað hjóna­band leik- og söng­konunnar. Cris og Jenni­fer giftu sig árið 2001 og voru saman í níu mánuði eftir það.

Parið fyrir utan myndver Jimmy Kimmel Live spjallþáttarins í desember.
Fréttablaðið/Getty

Slúðurpressan parinu erfið

Jenni­fer og Ben trú­lofuðu sig fyrst í nóvember 2002 en heimildir banda­ríska tíma­ritsins Peop­le herma að hún hafi skilið form­lega við Cris Judd árið 2003.

Lífið undir linsu slúður­pressunnar var ekki dans á rósum. Leikaraparið var hund­elt að því marki að það rataði í tón­listar­mynd­bönd söng­konunnar, til að mynda mynd­bandið við lagið Jenny from the Block, þar sem Ben og Jenni­fer sjást á flótta undan ljós­myndurum.

Óskarsverðlaunahátíðinni í mars 2003. Sama ár sögðu fjölmiðlar frá því að lögreglan í Norður-Karólínu hefði gefið út handtökuskipun á hendur Affleck vegna morðhótana í garð Töru Ray, en Ray sagðist hafa átt í leynilegu ástarsambandi við leikarann. Affleck
Fréttablaðið/Getty

„Við vorum ekki að reyna að koma sam­bandinu í sviðs­ljósið, heldur vorum við ein­fald­lega saman á þeim tíma sem slúður­pressan var að fæðast og á­lagið var bara gríðar­legt,“ sagði Jenni­fer í sam­tali við Peop­le tíma­ritið árið 2016.

Í septem­ber 2003 til­kynnti parið um frestun á fyrir­huguðu brúð­kaupi með fjögurra daga fyrir­vara og sagði á­stæðuna að baki þeirri á­kvörðun á­reiti af hálfu fjöl­miðla. Í yfir­lýsingunni sögðust þau hafa í­hugað að ráða þrjár mis­munandi blekkingar­brúðir á þremur mis­munandi stöðum, til að villa um fyrir ljós­myndurum. „Okkur leið eins og það, sem átti að vera skemmti­legur og helgur dagur, hefði verið eyði­lagt fyrir okkur, fjöl­skyldum okkar og vinum.“

Parið sleit sam­bandinu í janúar 2004. Í júní 2004 giftist Lopez söngvaranum Marc Ant­hony, sem þá var ný­skilinn við Dany­öru Tor­res, sem krýnd var ung­frú heimur árið 1993. Marc Ant­hony og Jenni­fer Lopez eignuðust saman tví­bura árið 2008. Þau skildu árið 2011, eftir sjö ára hjóna­band.

Ben Af­f­leck tók saman við leik­konuna Jenni­fer Garner árið 2004. Þau giftu sig í júní 2005 og eignuðust þrjú börn. Þau skildu árið 2015.

Parið í gönguferð í Los Angeles nokkrum dögum áður en þau kynntu um trúlofun sína í apríl.
Fréttablaðið/Getty

Fóru að stinga saman nefnum á ný

Í fyrra hófu Jenni­fer Lopez og Ben Af­f­leck að stinga aftur saman nefjum, að­dá­endum og slúður­pressunni til mikillar undrunar og gleði.

Í júlí í fyrra stað­festi parið sam­bandið á Insta­gram, í kringum 52 ára af­mælis­dag Ben Af­f­leck. Þar birtu þau myndir af sér saman á sund­fötum í báts­ferðum og loka­myndin í mynda­seríunni var kossa­­mynd af parinu.

Þau mættu saman á rauða dregilinn í septem­ber sama ár og hafa síðan mætt saman á fjölda frum­sýninga og við­burða.

Þau trú­lofuðu sig síðan aftur í apríl. Brúð­kaupsins var ekki langt að bíða, sem fór fram við lát­lausa at­höfn í Las Vegas á laugar­dag.