Sýningin fjallar í raun um það hvernig bók verður til – bók um fjöllistamanninn Örn Inga sem var ósmeykur við að vera öðruvísi en aðrir,“ segir Halldóra Arnardóttir listfræðingur um viðburðinn Lífið er LEIK-fimi// Life’s PLAY-fullness sem hefst í Listasafninu á Akureyri klukkan þrjú í dag. Þar er um gjörning að ræða sem felst í rannsóknum á því mikla og fjölbreytta framlagi til listarinnar sem Örn Ingi Gíslason lét eftir sig, bæði í föstu formi og frásögnum fólks. Úr þeim efniviði ætlar Halldóra að vinna bók á næstu vikum. Hún er bæði í hlutverki dóttur og sýningarstjóra og eiginmaður hennar, Javier Sánchez Merina arkitekt, er hönnuður sýningarinnar.

„Þessi sýning hefur verið í bígerð síðan 2016. Erni Inga var boðið að halda hana og dagsetningarnar standa. Hann ætlaði náttúrlega vera meðal okkar sem þátttakandi en dó fyrir rúmu ári þannig að við hjónin tökum við keflinu,“ segir Halldóra sem hefur búið á Spáni síðustu þrjá áratugi. „Pabbi vildi hafa Javier með í ráðum, var sjálfur ekki búinn að skipuleggja neitt eða gera lista yfir verk sín og það er Javier sem á hugmyndina að því að setja ekki upp venjulega sýningu heldur rannsóknarverkefni og búa til úr því bók, meðan á sýningu stendur, því Örn Ingi var þekktur fyrir gjörninga og ýmsar uppákomur. Þetta verður því þriggja mánaða gjörningur sem byrjar núna um helgina og endar 27. janúar með kynningu á bókinni,“ lýsir Halldóra sem kveðst verða á staðnum allan tímann, lokuð inni við sitt skrifborð!

Það sem gestir sjá í dag, 3. nóvember, er haugur af fjársjóðskössum sem smátt og smátt verður tínt upp úr, að sögn Halldóru. Hún ætlar að hefjast handa strax, ásamt fyrrverandi nemendum Arnar Inga, við að skrásetja myndir, sortéra og hengja upp. Net er á veggjum og fullt af krókum svo auðvelt er að breyta. „Safnið breytist í rannsóknarstofu, við verðum íklædd hvítum sloppum og með hanska. Einnig koma margir samferðamenn föður míns með innlegg,“ segir hún. „Þannig verður það af og til og engir tveir dagar verða eins.“

Halldóra segir einn gjörning föður síns verða endurvakinn nú á opnuninni. „Hann er innblásinn af gjörningi frá 1979-80, með fólki frá Reykjavík og Sviss og fyrrverandi nemendum. Svo verður gjörningahátíð eftir viku, þá frumflytur Þórarinn Stefánsson píanóleikari tónverk sem Kolbeinn Bjarnason samdi í tilefni sýningarinnar. Seinna verður námskeið í forvörslu, málþing um skólamál og myndlist og líka innlegg frá Hólmavík.“

Dagskráin verður síbreytileg enda um mikið púður að ræða, að sögn Halldóru. „Pabbi var oft í útvarpinu og hér verður sérstakur sími við hlið hægindastóls, þar getur fólk hlustað á pabba meðan það horfir á mig vinna,“ tekur hún sem dæmi og hlær. „Svo verður sjónvarpsefni og kvikmyndir á skjáum, bæði klippt og óklippt efni. Þetta er stór sýning, hún teygir sig um fimm sali safnsins.“

Sýningin er opin alla daga næstu þrjá mánuði milli klukkan 12 og 17 og Halldóra hvetur fólk til að líta við sem oftast.