Athafnamaðurinn Helgi Ómarsson hefur á einum degi tekist að safna yfir fjögur hundruð þúsund krónum fyrir Sönnum gjöfum Unicef. „Það er alveg klikkað hvernig þetta hefur þróast í dag og ég sver að ég fari að grenja ef þetta næst,“ segir Helgi spenntur í samtali við Fréttablaðið.
Núna eða aldrei
„Ég er pínu fyndin týpa annaðhvort geri ég hlutina strax eða aldrei.“ Hugmyndin af söfnuninni kviknaði í gær og var síðan hrundið af stað í dag. Upphaflegt markmið Helga var að safna fyrir neyðtjaldi sem veitir börnum skjól í erfiðum aðstæðum. Tjaldið kostar 158 þúsund krónur en Helgi hafði að eigin sögn alls ekki gert ráð fyrir að hann næði því markmiði.
„Ég var búin að leggja pening til hliðar og gera ráð fyrir að borga upp í tjaldið.“ Þá hafði hann einnig haft samband við foreldra sína til að athuga hvort þau gætu brúað mögulegt bil til að festa kaup í neyðartjaldi. „Ég spurði þau hvort það gæti talist sem mín jólagjöf í ár.“

Endaði skælandi á aðfangadag
Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Sannar gjafir eru á jólaóskalista Helga en hann fékk nánast eingöngu slíkar gjafir í fyrra. „Ég endaði bara skælandi á aðfangadag og svo ótrúlega glaður með að þetta hafði undið svona upp á sig.“
Helgi lýsir því að hann hafi lent í ákveðinni jólakrísu árið áður þar sem hann varð jólakvíðanum að bráð og það reyndist honum erfitt að ákveða hverjum ætti að gefa gjafir og hvað þau áttu að fá. „Ég held að margir kannist við að svona áhyggjur heltaki mann fyrir jólin.“
Þetta leiddi til þess að síðustu jól gaf hann öðruvísi gjafir. „Ég gaf öllum börnum vina minna sannar gjafir, þannig að þau fengu öll gjafir í sínu nafni á borð við hreint vatn og hlý föt.“ Þessi jólin breyttist sýn Helga á jólagjafir. „Ég fann bara þarna að allt í einu fóru gjafir að hafa einhverja þýðingu fyrir mér.“

Biðlaði til fylgjenda sinna
Í ár datt Helga síðan í hug að ganga skrefinu lengra og fá stóran fylgjendahóp sinn í lið með sér. „Ég reiknaði að ef 158 manns gæfu þúsund krónur þá myndi þetta nást.“ Það hafi verið mjög tilfinningaþrungið að sjá hversu margir hafi síðan lagt málstaðnum lið. „Ég held að við höfum endað á því að ná takmarkinu á tveimur tímum.“
Söfnunin er núna komin upp í 418 þúsund og hefur Helgi ákveðið að restin af peningunum fari í þær gjafir sem mikil þörf er á. „Það er mest þörf á hlýjum fötum, jarðhnetumauki og vatnshreinsitöflum, ef að við myndum nota afganginn í vatnhreinsunartöflur þá myndum við ná að hreinsa tvo milljón lítra af vatni,“ segir Helgi hreykin.
„Ég er búin að skrifa lista af öllum þeim sem hafa lögðu til peninga fyrir þessu og þau fá öll sérstakar þakkir frá Unicef.“ Helgi heldur úti bloggi á Trendnet.is þar sem hann hyggst einnig birta lista með nöfnum á öllum þeim sem tóku þátt í að styrkja málefnið til að sýna þakklæti sitt.
„Ég er í smá svona losti út af þessi og ef ég þekki sjálfan mig rétt þá er ég að fara að grenja í kvöld,“ bætir hann snortin við.

Ákall til fyrirtækja
Helgi segir hópinn sem er að gefa að mestu leiti samanstanda af ungmennum og fólki í láglaunastörfum. „Það er auðvitað yndislegt en ég myndi vilja sjá þau sem hafa meira á milli handanna hjálpa þeim sem minni mega sín.“ Þar eigi hann sérstaklega við fyrirtæki.
„Það er bara eitt pínulítið fyrirtæki á Seyðisfirði búið að taka þátt svo ég kallaði eftir því í dag að fleiri tækju þátt.“ Hann vonar að á síðustu metrunum muni einhver fyrirtæki taka við sér. „Það væri alveg frábær ef að þeir sem eru að selja í jólatrafíkinni myndu aðstoða okkur að gefa til baka.“
Það kom honum sjálfum á óvart hvað það veitti honum mikla gleði að geta gert svona. „Maður á alltaf að fylgja hjartanu, það er það sem getur okkur innilega ánægju. Það á jafnvel enn meira við þegar maður hjálpar öðrum.“ Helgi mælir eindregið með að allir kynni sér söfnunina á Instagram reikningi hans, helgiomarsson, og leggi honum og Unicef lið.
Reikningur: 0123 26 001064
Kennitala: 030691-3189