Hópfjáröflun stendur nú yfir á Karolinafund fyrir deilieldhúsið Eldstæðið. Þar er stefnt á að matarfrumkvöðlar og smáframleiðendur geti unnið vörur sínar í vottaðri aðstöðu.

„Þetta byrjaði eiginlega fyrir tíu árum þegar ég fór af stað með blogg sem heitir Kökudagbókin þar sem ég dundaði mér við að deila uppskriftum,“ segir Eva Michelsen matreiðslukona sem er frumkvöðullinn að baki verkefninu.

Fyrstu eldhústækin komu í hús í síðustu viku. Eldunarstöðvarnar sem verða til leigu eru alls fjórar.

Eva segir að lesendur Kökudagbókarinnar hafi fljótt fengið meiri áhuga á að fá að kaupa kökurnar beint frá henni en að fylgja uppskriftunum. „Það má náttúrulega ekki selja matvörur á opinberum markaði nema þú sért í vottuðu eldhúsi og með starfsleyfi frá Heilbrigðiseftirlitinu. Svo ég fór á stúfana og komst inn í tilraunaeldhúsið hjá Matís í Grafarholti“.

Síðar vann Eva í Sjávarklasanum og Lífsgæðasetri St. Jó þar sem hún fékk reynslu af deilirýmum. Á Íslandi eru nokkur tilraunaeldhús en Eldstæðið yrði fyrsta deilieldhúsið hér á landi. „Ef þú ert í stórframleiðslu er náttúrulega best að vera í eigin húsnæði, en Eldstæðið yrði til dæmis frábær vettvangur fyrir fólk sem vill sjá hvort að hugmyndir þess séu lífvænlegar án þess að skuldbinda sig um of.“

Eva segir að leiga á aðstöðu í Eldstæðinu gæti verið allt frá nokkrum klukkustundum yfir í daga og mánuði. „Fólk gæti fengið að nýta sér aðstöðu til að láta reyna á hugmyndir sínar án þess að þurfa að festa sig í húsnæði í marga mánuði og kaupa fokdýrar eldhúsgræjur.“

Aðspurð um hvernig matseld myndi henta í eldstæðinu segir Eva að möguleikarnir séu nánast endalausir. „Það er bara spurning um hugmyndaflug. Í dag eru fimmtán aðilar sem hafa áhuga á að vera með, og það er allt frá brauðmeti og yfir í fiskrétti og jafnvel drykki.“

Á Eldstæðinu verður líka skrifstofuaðstaða og fundaherbergi sem má nýta undir smökkun og námskeið.

Eldstæðið fékk sína fyrstu sendingu af eldhústækjum í síðustu viku og stefnt er á að eldunarstöðvarnar verði fjórar.

Tæp vika er eftir af fjáröfluninni en hægt er að heita á verkefnið á Karolinafund. Meðal hvata fyrir áheit eru matarpakkar og prufuaðgangur að Eldstæðinu. Auk þess verður hægt að styrkja sérstakan matarfrumkvöðul og veita viðkomandi prufuaðgang í Eldstæðinu.

„Svona hópfjáraflanir eru náttúrulega allt eða ekkert svo ég vona að þetta náist,“ segir Eva vongóð.