Kristín Hjartardóttir geðhjúkrunarfræðingur og Elín Agla, þjóðmenningarbóndi og heimspekingur, standa fyrir hópfjármögnun á Karolinafund.com til þess að geta reist hirðingjatjald á höfuðborgarsvæðinu.

„Hjálpið okkur að reisa tjaldið til að hlúa að menningu og skapa samhljóm. Tjaldið er skjól til að rækta tengsl við hvert annað og tengsl við náttúruna,“ segir Elín Agla en tveir dagar eru eftir af söfnuninni og enn vantar nokkuð upp á.

„Við erum að safna fyrir undirstöðupalli fyrir hirðingjatjaldið og því fleiri sem styðja verkefnið, þeim mun styrkari stoðum mun það standa á, bókstaflega,“ heldur Elín áfram um tjaldið og verkefnið, sem þær kalla Þetta Gimli – þjóðmenningarbýli, og felur í sér ákall um menningarbyltingu og veisluhöld.

Tjaldið sjálft er handgert, mongólskt hirðingjatjald sem bíður í öruggri geymslu eftir undirstöðu og hentugum stað í útjaðri höfuðstaðarins þar sem þær stöllur ætla því að veita viðburðum og veisluhöldum skjól. „Þar sem við getum komið saman og nært tengslin við hvert annað, staðinn okkar og náttúruna,“ eins og þær orða það á söfnunarsíðunni þar sem Þetta Gimli er einnig sagt vera „staður fyrir okkur til að iðka þorpsvitund. Skjól fyrir ímyndunaraflið svo hægt sé að sjá sér fyrir hugskotssjónum aðrar leiðir til að vera í heiminum. Iðkun og viðburðir sem næra bæði okkar sál sem og sál heimsins.“

Söfnunin stendur út föstudaginn 24. júní. „Sum sé á miðnætti á töfranóttinni, Jónsmessunótt,“ segir Elín sem vill geta heiðrað fegurðina í öllum sínum birtingarmyndum í hjarta og miðju tjaldsins.