Jóhanna María segir að þær systur séu mikil jólabörn sem elski allt sem tengist jólunum, en Kristín systir hennar átti hugmyndina að jóladagatalinu.

„Það var þannig að fyrir tveimur til þremur árum bað ég systur mína að kaupa jóladagatal fyrir mig úti. En af því það tók svo mikið pláss í ferðatöskunni hennar ákvað hún að opna það til að spara plássið. Hún endurpakkaði því svo öllu fyrir mig þegar hún kom heim, í sæta poka og efnisbúta. Það gerði dagatalið miklu fallegra og sérstakara fyrir mig,“ segir Jóhanna María.

Um síðustu jól stakk Kristín upp á því að þær keyptu eitthvað lítið og sætt eða föndruðu eitthvað fyrir hvor aðra þessi jól og gæfu hvor annarri heimatilbúið dagatal.

„Mér fannst það bara svo tilvalið að ég ákvað að slá til. Þetta eru bara 24 litlir pakkar og það eru 12 mánuðir á ári svo þetta er ekki mikið í hverjum mánuði,“ segir Jóhanna María sem er búin að safna í dagatalið fyrir systur sína síðan í janúar.

„Í pökkunum er bæði eitthvað heimagert en líka keypt. Stundum sé ég eitthvað lítið og sætt, kannski jólaskraut, og hugsa til Kristínar, og þá kaupi ég það. En svo bý ég til eitthvað fallegt á móti.“

Jóladagatalið samanstendur af númeruðum pökkum, einn fyrir hvern dag fram að jólum. Jóhanna endurnýtir pappír og gjafapoka undir pakkana.

Skemmtilegt verkefni

Þegar Jóhanna María og Kristín byrjuðu að búa til dagatölin þá leist mömmu þeirra og mágkonu svo vel á hugmyndina að þær ákváðu að gera líka dagatöl hvor fyrir aðra.

„Við hugsuðum þá að ef við viljum slá til og halda þessu áfram á næsta ári þá gætum við kannski skipt, svo við séum ekki alltaf að gera dagatal fyrir þau sömu. Þetta gæti orðið skemmtilegt verkefni. Það hjálpar manni að hressa upp á venjulega daga að búa til dagatalið,“ segir Jóhanna María.

„Ég útfæri dagatalið þannig að ég pakka gjöfunum ýmist inn í taubúta, endurnýttan pappír eða dagblöð sem ég skreyti síðan. Ég reyni að gera þetta svolítið sætt svo hún fái sætan pakka á hverjum degi.“

Jóhanna María kemur úr stórri fjölskyldu sem elskar allt sem tengist jólunum og reynir að vera eins mikið saman og hægt er yfir hátíðirnar.

„Við höfum það líka alltaf fyrir hefð að fara í jólakaupstað,“ segir Jóhanna María, en hún starfar sem verkefnastjóri hjá Dalabyggð og heldur jólin á Hólmavík.

„En í ár verður brugðið út af vananum og farið til útlanda. Við ætlum í jólaferð til Dublin í lok nóvember og versla jólagjafir. Þegar við komum heim aftur þá ætlum við að skiptast á dagatölunum,“ segir hún og bætir við að dagatalið sem hún er að gera sé næstum tilbúið.

„Ég á eftir síðustu gjöfina, það eru sérstakar pælingar í kringum hana sem ég er aðeins að velta fyrir mér, svo það er bara einn pakki eftir mín megin.“