„Þetta er, svo ég orði það nú bara hreint út, alveg drulluskemmtilegt,“ segir Illugi Jökulsson, um þýðingu sína á bókinni Tólf keisarar eftir rómverska rithöfundinn og sagnaritarann Súetóníus.

„Þetta er náttúrlega grundvallarrit í Rómarfræðum þótt það sé talið svona frekar af léttara taginu, því Súetóníus hefur gaman af að segja skemmtilegar sögur af sínum viðfangsefnum.

En þetta er þó ein af helstu og traustustu heimildunum sem við höfum um þessar allra fyrstu aldir rómverska keisaradæmisins þegar keisararnir eru að kveða niður lýðveldið, taka öll völd og verða svo einráðir að þeir geta bara gert það sem þeim sýnist og drepið þá sem þeim sýnist.“

Ofbeldi og saurlífi

Aðspurður, segir Illugi að keisararnir hafi einnig haft ríka tilhneigingu til þess að verða drepnir sjálfir. „Já, það var ekki mikið atvinnuöryggi í þessu fagi. Vægast sagt. Þeir dóu fæstir á sóttarsæng. En þetta var bara ákveðin áhætta sem þeir tóku með því að sækjast eftir þessu embætti,“ heldur Illugi áfram og bætir við að þeir hafi líka getað sængað hjá hverjum sem er, svo það sé orðað á sem kurteislegastan hátt.

Illugi segir að Tólf keisarar séu náttúrlega aðallega 2000 ára „sex, drugs and rock n´roll“. „Já, þetta er það eiginlega í rauninni, svona inn á milli, en þetta er nokkuð pottþétt sagnfræði og alvöru heimild þótt Súetóníus þyki dálítið léttur á bárunni,“ segir Illugi og bendir á að ritið beri þess merki að um ævisögur sé að ræða frekar en beint sagnfræðirit.

„Hann er að segja ævisögur þessara manna og bæði kost og einkum og sér í lagi löst á hverjum fyrir sig. Þetta er sem sagt bara voða merkileg, skemmtileg og að sumu leyti fróðleg og lærdómsrík saga.

„Þetta eru bara skemmtisögur. Það er ekkert annað. En svo fær maður heilmikinn fróðleik í leiðinni,“ segir Illugi um Tólf keisara.
Myndir/Storytel

Það er til dæmis með hreinustu ólíkindum þegar maður er að lesa um þann alræmda skálk Neró, hvað hann er í sinni ótrúlegu hégómagirnd svipaður ákveðnum fyrrverandi Bandaríkjaforseta,“ segir Illugi og bætir við að þarna megi finna ýmsar aðrar hliðstæður við núverandi leiðtoga fyrr og síðar.

Góðar hugmyndir

Illugi hefur lengi haft hug á að koma Tólf keisurum út á íslensku og hafi endað með að ganga sjálfur í verkið. „Á meðan ég var viðriðinn bókaútgáfu átti ég mér alltaf draum um það að fá einhvern til að þýða þetta, en svo fékkst enginn til þess þannig að ég ákvað bara að gera þetta sjálfur.

Storytel tók þessari hugmynd minni vel og við fengum meira að segja þýðingarstyrk og þetta er í fyrsta sinn sem hljóðbók fær slíkan styrk, sem mér finnst líka dálítið merkilegt,“ segir Illugi og bætir við að bókin sé „ekki á leiðinni á pappír í fyrirsjáanlegri framtíð“.

Tólf keisarar er býsna mikið verk og verið er að mjatla sögum keisaranna inn á Storytel. Sesar og Ágústus riðu, eðli málsins samkvæmt, á vaðið, en Tíberíus, Kalígúla, Kládíus og Neró fylgdu í kjölfarið og þeir sex sem eru eftir eru minna þekktir og reka lestina á miðvikudaginn.

Vera Illugadóttir les sögurnar á móti Illuga, sem segist þó alveg hafa treyst sér í öll ósköpin einn. „Jú, jú, ég hefði svo sem alveg nennt því, en þetta var bara hugmynd hjá Storytel að fá okkur til að gera þetta saman. Vera er þrautþjálfaður og vinsæll lesari og mér fannst þetta bara mjög góð hugmynd.“

Vitfirringur og hégómatröll

Illuga rekur á gat þegar hann er spurður hvort hann eigi sér einhvern eftirlætiskeisara af þessum tólf. „Það er nú það. Í raun og veru ekki. Þeir áttu allir sínar vondu hliðar og fáeinir þeirra áttu nokkrar góðar hliðar líka. En það er eitthvað skemmtilegt við þá alla og ég hafði til dæmis í raun og veru ekkert síður gaman af þessum sem koma í lokin.

Þeir eru ekkert mjög þekktir en þeir eru alveg jafn skemmtilegir og stórkarlarnir; hinn vandlega vitfirrti Kalígúla, hégómatröllið Neró eða níðingurinn Tíberíus. Þeir hafa allir eitthvað merkilegt við sig.
En Sesar. Er hann ekki mesti töffarinn?

„Sesar var bara afreksmaður. Hvort sem manni líkar vel við hann eða ekki, þá vann hann ótrúleg afrek en þau voru náttúrlega fyrst og fremst í hans eigin þágu. Eins og gjarnan er nú með afreksmenn,“ segir Illugi og hlær.

Hann segir Ágústus einnig hafa verið afreksmann á sinn hátt. „Þótt hann væri ekki alveg jafn litskrúðugur karakter. Það var ekkert sjálfgefið að hnýta saman ríki sem átti eftir að standa í 500 ár þegar þeir voru að ryðja burt lýðveldinu. Að ég tali ekki um þegar fífl eins og Caligula og Neró koma á eftir þeim.“