„Ég hafði fengið nasasjón af framtíðinni,“ segir Sævar Helgi Bragason, vísindamiðlari og dagskrárgerðarmaður. Sævar skrifaði athyglisverðan pistil sem birtist á vef Vísis í morgun en þar segir hann frá ferð sinni til Vestmannaeyja í fyrra.
Sævari var boðið að heimsækja bókasafnið í Eyjum sem hann þáði með þökkum, enda bendir Sævar á að Vestmannaeyjar séu með fallegustu stöðum landsins. Þegar heim var komið rann það upp fyrir honum að í ferðinni fékk hann nasasjón af framtíðinni.
„Ég ók nefnilega rafbíl í Landeyjahöfn. Úr Landeyjahöfn flutti rafknúinn Herjólfur okkur farþegana til Vestmannaeyja. Í Vestmannaeyjum leigði ég svo Hopp-rafhlaupahjól við landganginn. Fimm mínútum eftir að rafferjan lagðist að bryggju var ég kominn á bóksafnið,“ segir Sævar.
Heildarkostnaður því 3400 kr en ekki 14.500 kr hefði fortíðar-ég orðið fórnarlamb eigin leti og tekið bensínbíl með í ferjuna.
Í grein sinni segir Sævar að fyrir fáeinum árum hefði hann losað nærri 50 kíló af gróðurhúsalofttegundum á sama ferðalagi, fram og til baka. Í þetta sinn var losunin engin enda allt ferðalagið knúið hreinni innlendri raforku.
Fyrir utan hreinna loft, minni mengun og minni hávaða sparaði Sævar sér einnig talsverðan pening.
„Aksturinn fram og til baka kostaði rétt rúmar 900 kr. Á bensínbíl hefði ferðin kostað mig tíu sinnum meira, rúmar 9000 kr. Hopp-leigan kostaði 300 kr. og fargjaldið í Herjólf 2200 kr. Heildarkostnaður því 3400 kr en ekki 14.500 kr hefði fortíðar-ég orðið fórnarlamb eigin leti og tekið bensínbíl með í ferjuna. Fjórfalt ódýrara. Býsna góður sparnaður það.“
Í lok greinar sinnar segir Sævar Helgi að þriðju orkuskiptin séu hafin. „Þvílíkt gæfuspor fyrir lungu okkar, eyru, andrúmsloft og fjárhag. Drífum þetta almennilega af stað. Framtíðin er núna.“