Ökumaður og hjólreiðamaður sem misstu stjórn á skapi sínu eftir atvik í umferðinni í gær náðu sáttum eftir að hafa rekist á hvorn annan á samfélagsmiðlum.

Axel Kaaber, sem var á hjóli í gær, tók fram úr ökumanni hægra megin við biðreið á gatnamótum Skipholts og Nóatúns. Ökumaðurinn, Eiríkur Barkarson, missti stjórn á skapi sínu og missti Axel stjórn á skapi sínu í kjölfarið.

Eiríkur setti færslu inn í Facebook-hópinn Samgönguhjólreiðar í gær þar sem hann spurði hvort það væri í lagi að hjólreiðamaður tæki fram úr með þeim hætti sem Axel gerði. Tók hann fram að aðeins var ein akrein í hvora átt og engin hjólarein.

„Ég vona að við mætumst léttari á brún í framtíðinni“

Samkvæmt 23. grein umferðarlaga sem tóku gildi í byrjun árs 2020 má hjólreiðamaður og ökumaður létts bifhjóls aka hægra megin fram úr öðru ökutæki en reiðhjóli og léttu bifhjóli nema ökutækið á undan beygi til hægri eða undirbúi greinilega hægri beygju.

Axel þakkaði honum fyrir að leita sér aukinnar þekkingar á umferðalögum. „Ég vona að við mætumst léttari á brún í framtíðinni,“ sagði hann við ökumanninn.

Eiríkur baðst í kjölfarið afsökunar á hegðun sinni. Flautið hafi ekki átt að vera ógnandi heldur hafi honum einfaldlega brugðið að sjá hann hægra megin. Axel svaraði að það væri allt fyrirgefið. „Ég biðst líka afsökunar á minni hegðun við Hlemm. Mér var orðið heitt í hamsi. Ég óska þér velfarnaðar í umferðinni og annars staðar.“

Glaður að hægt sé að græða sár

Axel segir í samtali við Fréttablaðið að hann sé glaður að hægt sé að græða sár sem þessi. Hann fagnar umræðu um nýju umferðarlögin, hafi rætt þetta á kaffistofunni í vinnunni í gær þar enginn kannaðist við að hjólreiðamaður mætti taka fram úr hægra megin. Eiríkur kvaðst einnig ánægður með málalyktir.