Ný pilla frá sænskum framleiðanda sem hlotið hefur nafnið Myrkl getur hugsanlega leyst partípinna undan timburmönnum.
Pillan er sögð brjóta niður allt að 70 prósent af alkóhóli í líkamanum á aðeins einni klukkustund. Þá má draga upp dæmi um mann sem drekkur 50 millilítra af áfengi, sem innihaldi 20 millilítra af hreinu alkóhóli. Þá muni aðeins sex millilítrar af þessu áfengi ná í blóðið.
Framleiðandi pillunnar mælir með að notandi taki tvær pillur með góðum fyrirvara áður en áfengisins er neytt. Virku efnin brjóti síðan niður áfengið í þörmunum áður en það berst í lifur og blóð.

Um er að ræða góðgerlana Bacillus subtilis og Bacillus coagulans, sem framleiddir eru með gerjuðu hrísgrjónaklíði. Gerlarnir brjóta áfengi niður í vatn og koltvísýring.
Jørgen Gustav Bramness, vísindamaður við Norsku lýðheilsustofnunina, hefur litla trú á kraftaverkapillum en segir í samtali við Norska ríkissjónvarpið að þessi vara komi vissulega í veg fyrir timburmenn.
„Það er alveg rétt að efnið kemur í veg fyrir timburmenn. En í huga flestra áfengisneytenda fylgir pillunni viss ókostur. Hylkið kemur í veg fyrir að þú verðir fullur vegna þess að þú færð minna áfengi út í blóðið. Flestir vilja lækna timburmennina eftir að þeir hafa náð ákveðnu prómilli. En ef þú tekur pilluna færðu ekki áhrifin og því ekki timburmennina,“ segir hann.
Á vefsíðu framleiðandans kemur fram að pillan sé uppseld sem stendur.