The Santa Beibís skipar leikkona með fræga nöfnu, Björk Guðmundsdóttir, og leik- og söngkonan Sigríður Ásta. Að sögn Bjarkar skilur sýningin engan eftir ósnertan.

Tvist á klassískt efni

„Ég útskrifaðist í fyrra úr leikaranum. Sigríður Ásta var að tala um að það vantaði jólatónleika sem væru aðeins öðruvísi en þessir klassísku jólatónleikar sem maður fer á,“ segir Björk. Aðspurð hvað einkenni þessa hefðbundnu tónleika svarar hún: „Þar sem eru öll þessi klassísku íslensku jólalög. Þetta er kósí og svolítið í dýrari kantinum. Við hugsuðum að okkur langaði að gera aðeins meira grín-tengt og taka nýtt tvist á þessi klassísku íslensku jólalög og útfæra þau í sexí fyndinn búning, en ég vil ekki spilla neinu,“ segir hún.

Björk segir sýninguna dansa á milli þess að vera grín og búrleska. „Kannski meira í kabarett-áttina. En þetta er á litla sviðinu í Tjarnarbíó og þetta er í fyrsta sinn sem þetta litla svið er vígt sem svona sexí fönní svið,“ segir hún. Sýningin er að sögn Bjarkar mjög djörf.

Glögg klukkan hálf sex

Í tilkynningu er sýningunni svo lýst: „Fullkomið fyrir fyrsta deit, lengra komna, einhleypa í leit að gleði og ást, vinahópinn á leið á djammið, eldri hjónin á leið út að borða eða happy hour og heim að sofa.“ Björk útskýrir enn fremur: „Þetta er ekki á hefðbundnum tíma heldur klukkan hálf sex. Það verður jólaglögg þarna og veitingar sem hægt er að kaupa á sérstöku verði á Tix, um leið og maður kaupir miðann.“

Að sögn Bjarkar verður dagskrá kvöldsins fjölbreytt. „Sigga er einhleyp og nær til einhleypra. Ég er í fjarsambandi frá manninum mínum. Við erum komnar með svona okkar sögu inn í þetta líka. Okkar tvist,“ segir hún. „Við skellum okkur í allra kvikinda líki á meðan við erum að syngja þessi jólalög. Og alls konar leikatriði, eins og Ég sá mömmu kyssa jólasvein, og svona.“

Gömul hjón sem ögra sér

Oft er rætt um jólin sem hátíð barnanna og jafnvel kaupmanna, en því liggur beint við að inna leikkonuna eftir því hvort jólin séu kannski líka hátíð elskenda og rómantíkur?

„Já, ég myndi segja það. Er það ekki? Ég myndi segja að þetta sé góður tími til að ná saman og krydda samböndin. Eða ef vinahópurinn vill fara á tónleikana og fara svo á djammið og næla sér í sjomla, jólakæró,“ segir Björk og hlær. „Eða bara fyrir gömul hjón sem vilja aðeins ögra sér.“

Spurð um ráðleggingar til einhleypra sem eru í leit að jólakæró, svarar Björk:

„Ég myndi alltaf byrja á að mæta á tónleikana okkar. Við getum kannski haft svona mashup í lokin þar sem við fáum fólk sem er einhleypt til að rétta upp hönd – og svo getum við parað fólk saman. Þetta gæti verið flott sem svona lokaviðburður á þessum tónleikum,“ segir Björk létt í bragði og það liggur á milli hluta hvort leikkonunni sé alvara.

Ríkisstjórnin girði sig í brók

Sala hefur gengið með eindæmum vel og uppselt er á fyrra kvöldið. „Það rokselst. Fyrst það er svona mikil eftirspurn er aldrei að vita nema að við bætum við tónleikum. En Tjarnarbíó er að springa, allir sjálfstæðu leikhópar landsins eru í Tjarnarbíó. Þannig að það væri frábært ef ríkisstjórnin myndi aðeins girða sig í brók og hjálpa þarna,“ segir Björk.

Talandi um hjálp þá njóta þær stöllur liðsinnis hljóðfæraleikarans Egils Andrasonar.

Þá segir Björk að áhorfendur eigi von á einu spunalagi. „Við spinnum það út frá jólareynslu einhvers. Við sækjum í spuna og grín og sexí búmm búmm,“ segir hún. „Ég myndi segja að þetta nái til allra, sérstaklega þeirra sem vilja láta ögra sér aðeins.“

Uppfært: Uppselt er á sýningarnar og því hefur aukasýningu verið bætt við þann 18. desember kl 20.00.