Marteinn Sindri Jónsson leikur alþýðutónlist og popptónlist á píanó og gítar í kirkjunni á Hólum í Hjaltadal á sunnudaginn, og syngur með.

„Þetta er sjöunda árið sem tónleikar eru haldnir hér í Hóladómkirkju um verslunarmannahelgi. Fram að þessu hafa flytjendur verið handvaldir en nú var auglýst og ég sótti um. Mér fannst spennandi að fá að spila hér. Var einmitt að æfa í morgun. Þetta er sérstök kirkja og það er virkilega gaman að koma hingað,“ segir Marteinn Sindri, sem staddur er á Hólum með unnustu og tveimur börnum.

„Ég verð með sitt lítið af hverju, bæði eftir mig og aðra,“ segir Marteinn Sindri um lagavalið á tónleikunum og kveðst yrkja jöfnum höndum á íslensku og ensku. „Ég hef líka samið lög við ljóð íslenskra skálda. Það síðasta er við ljóðið Fagurt er í fjörðum eftir Látra-Björgu, ég sæki innblástur í ljóðmál 19. aldar skáldanna, meðal annars Jónas. Það er ein stoðin í tónlistinni. Svo fer ég mjög víða því ég er líka með popptónlist síðustu fjörutíu, fimmtíu ára undir, Leonard Cohen, Nick Cave og fleira.“

Sindri er úr Reykjavík en hefur búið í Hafnarfirði undanfarin ár. Hann kveðst hafa farið að læra heimspeki eftir að hafa verið í ströngu píanónámi, bæði klassík og djassi. „Ég lauk meistaraprófi í hitteðfyrra og hef starfað mest við fræðastörf undanfarin ár og dagskrárgerð en alltaf verið í músík með. Þegar ég var í hljómsveitum samdi ég stundum fyrir söngvara svo þegar ég fór út í mastersnám, fór ég að syngja sjálfur.“

Tónleikarnir byrja klukkan 16 í framhaldi af guðsþjónustu sem hefst klukkan 14, að sögn Marteins Sindra. „Ég vona að fólk staldri við eftir messuna,“ segir hann og tekur fram að ókeypis sé inn.