Það fer engum vel að vera hor­tugum. Allra síst full­orðnum manni sem van­metur erfið­leika­stig plat­form tölvu­leiksins Sack­boy: A Big Adventure.

Þarna er ég að lýsa sjálfum mér. Mér til varnar hafði ég fyrir þó nokkrum árum síðan spilað allra fyrsta leikinn þar sem Sack­boy er í aðal­hlut­verki. Það var tölvu­leikurinn Litt­le Big Planet á PlaySta­tion 3.

Síðan hafa bæst við að minnsta kosti tveir fram­halds­leikir, Litt­leBig­Pla­net 2 og 3 auk annarra svo­kallaðra „spin-off“ leikja á ferða­tölvurnar PSP og PlaySta­tion Vita eins og Litt­leBig­Pla­net Karting.

Í Sack­boy: A Big Adventure sem fram­leiddur er af Sumo Digi­tal gerir PlaySta­tion veldið enn eina at­löguna að krúnu ítalska píparans Súper Maríó og Nin­tendo á sviði plat­form tölvu­leikja.

Spilunin skemmti­leg en stundum pirrandi

Það verður að segjast eins og er að leikurinn kom mér á ó­vart. Fjórum til fimm Sack­boy tölvu­leikjum síðar bjóst ég við að þessi yrði eins­konar út­vötnuð 3D út­gáfa af upp­runa­lega Litt­leBig­Pla­net leiknum sem ég elskaði.

Þetta reyndist að lang­flestu leyti ekki vera raunin. Mér þykir leikurinn eigin­lega bara fá­rán­lega skemmti­legur. Að sleppa við hið al­ræmda 2,5D plat­form út­lit, þar sem maður horfði á Sack­boy frá hlið og spilaði þannig, er kær­komið.

Litli Elvis pokamaðurinn minn. Ég gat ekki fundið síðasta kallinn.
Fréttablaðið/Skjáskot

Hver man ekki eftir því hvað stýringarnar voru oft á tíðum klaufa­legar og hve pirrandi leikurinn gat orðið þegar maður leysti hinar ýmsu þrautir?

Hefð­bundin plat­form spilunar­vand­ræði eru enn til staðar, maður mis­reiknar sig stundum á fjar­lægðum og þau geta verið lúmskt pirrandi. Ég eyddi ein­mitt til dæmis öllum auka­lífum utan eins við að hoppa á milli palla til að næla mér í eina leyndar­dóm­s­kúlu.

Í byrjun leiksins hélt ég að hann hefði aðal­lega verið hugsaður fyrir krakka en áður en ég vissi af var ég farinn að gúggla það hvernig ég gæti klárað borðin, sem fyllt eru af ýmsum mis­á­huga­verðum þrautum.

Pokamennið kynnist ýmsum furðuverum á leið sinni til Vex.
Fréttablaðið/Skjáskot

Fá­rán­lega skemmti­legur

Í leiknum er að finna klassíska sögu plat­form tölvu­leikja sem við þekkjum flest. Hið dular­fulla ill­menni Vex, sem er reyndar merki­lega ó­hugna­legur í fasi, vill ná heims­yfir­ráðum yfir poka­mennunum.

Þá er að­eins einn maður til að stöðva Vex og það er okkar maður, Sack­boy sjálfur. Hann eltir Vex á röndum yfir kort sem spilarinn fylgir. Honum getum við svo breytt og klætt í alls­konar föt sem við ráðum sjálf líkt og var raunin í Litt­leBig­Pla­net leikjunum. Ég spila til dæmis sem mjög heiðar­legur Elvis Sack­boy, af því að af hverju ekki?

Líkt og í for­verunum geta einnig allt að fjórir spilað saman í leiknum. Sum borðin eru auk þess sér­stak­lega hönnuð fyrir tvo eða fleiri spilara. Þau hef ég ekki prófað en miðað við hin borðin trúi ég ekki öðru en að þau séu stór­skemmti­leg.

Í upp­hafi leiksins hafði ég á­hyggjur af því að leikurinn yrði of endur­tekningar­samur. Maður klárar ýmsar þrautir, safnar kúlum, lyklum og alls­konar. Ég hef ekki klárað leikinn en er kominn nokkuð langt og ég get glatt les­endur með þeirri vit­neskju að leikurinn er furðu­lega fjöl­breyttur og merki­lega metnaðar­fullur.

Dual­Sen­se stýri­pinni PlaySta­tion 5 leikja­tölvunnar er til að mynda vel nýttur í þessum leik. Hin al­ræmda hreyfi­skynjara­tækni sem eitt sinn átti að vera það eina til að fylgja DualS­hock 3 á tímum PlaySta­tion 3 er vel nýtt í leiknum.

Ég myndi reyndar ganga svo langt að full­yrða að þetta sé í fyrsta skiptið sem mér hefur þótt raun­veru­legt pláss fyrir tæknina í tölvu­leik, oft er eins og henni hafi verið troðið inn í leikinn eftir á.

Talandi um PlaySta­tion 5 að þá nýtur leikurinn sín gríðar­lega vel þökk sé krafti vélarinnar. Grafíkin er ein­fald­lega upp á sitt besta og tón­listin í leiknum er fá­rán­lega við­eig­andi. Þetta er skemmti­legur leikur og hentar vel fyrir börn og full­orðna.

Niður­staða: Sack­Boy: A Big Adventure er 3D ævin­týri poka­mannsins sem við vissum ekki að við þyrftum á að halda en þurfum á að halda. Leikurinn er skemmti­legur og vel heppnaður en fylgja hefð­bundnir en smá­vægi­legir ann­markar á spilun sem getur af og til reynst pirrandi. Frá­bær fyrir börn og full­orðna.

*** af ***** mögu­legum