Tiramisù samanstendur af Lady fingers-kökum sem eru vættar í kaffi og mascarpone-osti. Eftir því sem BBC greindi frá, fann Ado réttinn upp fyrir tilviljun þegar kokkurinn hans gerði mistök í eldhúsinu við gerð vanilluíss. Kokkurinn Roberto Longuanotto setti mascarpone í skál með eggjum og sykri af slysni. Mascarpone átti ekki að vera í uppskriftinni af ísnum. Blandan bragðaðist vel þannig að þau settust yfir framhaldið á þessum nýja eftirrétti. Þau fullkomnuðu síðan réttinn með því að bæta Lady fingers sem dýft var í kaffi við blönduna ásamt kakódufti sem stráð var yfir. Þau nefndu réttinn tiramisù.

Það er almennt viðurkennt að tiramisù hafi orðið til á veitingastað Ado Campeol, sem nefnist La Beccherie og er staðsettur í Treviso. Staðurinn var opnaður árið 1939 og hefur alltaf verið í eigu sömu fjölskyldunnar. Eftir lok seinni heimsstyrjaldarinnar tók Ado við rekstrinum. Árið 1972 kom tiramisù fyrst á matseðilinn og er í dag einn þekktasti eftirréttur í heimi. Við ætlum að heiðra minningu Ados með því að birta uppskriftina bæði með og án áfengis.

Gott tiramisù hefur fullkomið jafnvægi á milli þess að vera sætt og beiskt. Flestir setja örlítinn Amaretto-líkjör út í kaffið sem gefur gott bragð. Þess má geta að tiramisù varð mjög vinsælt í Bandaríkjunum á 10. áratugnum. Ekki síst vegna þess að rétturinn kom fyrir í kvikmyndinni Sleepless in Seattle, frá árinu 1993 með Tom Hanks og Meg Ryan í aðalhlutverkum. Stærsta tiramisù sem gert hefur verið var þrjú tonn og var gert í borginni Gemona del Friuli á Ítalíu árið 2015.

Tiramisù hentar vel um jól og áramót sem eftirréttur. Það er hægt að gera hann í eina stóra skál eða nokkrar litlar.
Fréttablaðið/Getty

Albert Eiríksson ástríðukokkur hefur gert tvær mismunandi tegundir af tiramisù. Hann segist fyrst hafa verið upptekinn af því að nota Amaretto-líkjör en vera hættur því núna. „Mér finnst best að hafa bara sterkt kaffi og dýfi kökunum eldsnöggt í kaffið. Vil ekki hafa þær gegnblautar,“ segir hann.

„Tiramisù er mjög auðveldur réttur og það er hægt að útbúa hann með góðum fyrirvara, til dæmis að morgni ef von er á gestum í kvöldmat. Svo elska eiginlega allir þennan rétt,“ bætir hann við. „Þetta er einn af uppáhaldsréttunum hér á heimili og ég geri hann reglulega.“

Albert ætlar að uppljóstra einu leyndarmáli, sem hann hefur fundið út að er mjög gott þegar tíramisù er útbúið. „Ég strái salti yfir kökurnar þegar ég hef lagt þær í formið, um það bil 1/3 úr teskeið,“ segir hann.

Albert gefur hér uppskrift að tíramisù sem hann fékk í Róm og segir það eitt það besta sem hann hafi smakkað. Hann fékk uppskriftina, en rétturinn var borinn fram í litlum skálum.

Tiramisù frá Róm

Lady fingers

2 dl espresso-kaffi

4 eggjarauður

50 g sykur (ca 2 msk.)

1 dós mjúkur Mascarpone

ca 1 msk. kakó

Vætið Lady fingers upp úr espresso-kaffi (þær þurfa ekki að blotna í gegn) og leggið í form. Þeytið eggjarauðurnar ljósar og léttar með sykri. Bætið mascarpone út í og þeytið áfram. Hellið yfir kökurnar og sigtið kakó yfir. Best er að láta þetta standa í klukkkustund í ísskáp. Tilbúið. Og stendur fyrir sínu í öllum sínum einfaldleika. ■

Það er fallegt að setja réttinn í svona skál fyrir hvern og einn gest.