Nýtt ár er hafið. Á þeim tíma­mótum leiða margir hugann að því hvað má betur fara. Strengja heit um að verða betri manneskja og lifa betra lífi. Hjá mörgum rista heitin grunnt og fyrr en varir eru þau gleymd í ann­ríkinu. Sölvi Tryggva­son ætlar ekki að strengja ára­móta­heit. Hann ætlar ein­fald­lega að halda á­fram að veita réttum hlutum at­hygli og vera sjálfum sér nægur. Hann veit af eigin reynslu að það getur reynst dýr­keypt að gera það ekki. 

Ný bók hans, Á eigin skinni, kemur brátt út og hann segist ó­þreyju­fullur að kynna fólki efni hennar. Í henni segir hann sögu sína. Af al­gjöru niður­broti árið 2007 og ára­langri glímu hans við eftir­köstin. „Ég er búinn að vera með þessa bók í maganum í mörg ár,“ segir hann. Þetta er í raun af­rakstur meira en ára­tugar af stans­lausri rann­sóknar­vinnu um allt sem snýr að heilsu.

Í skrýtnu á­standi 

„Ég óska öðrum þess að rata rétta leið. Í bókinni lýsi ég minni reynslu. Því sem ég gekk í gegnum, hvaða með­höndlun ég hlaut og hvernig ég leitaði svo sjálfur lausna. Ég hef lært ó­teljandi hluti af fólki um allan heim og nú er kominn tími til að miðla þessu,“ segir Sölvi. 

Árið 2007 var ís­lenskt efna­hags­líf í há­spennu. Sölvi starfaði fyrir frétta­stofu Stöðvar 2 í þættinum Ís­land í dag. Starfi í fjöl­miðlum fylgir oft hraði og álag og hann fór ekki var­hluta af því. Það kom honum þó mjög á ó­vart þegar heilsan brast. Það gerðist mjög skyndi­lega, þó að hann sjái þegar hann lítur til baka ýmis við­vörunar­merki sem honum hefðu átt að vera ljós. 

„Í septem­ber 2007 fer ég í ferð með nokkrum af frétta­stofu Stöðvar 2 á vegum Glitnis til New York þar sem stóð til að opna nýtt úti­bú bankans. Á þessum tíma var út­rásar­geð­veikin í hæstu hæðum. 

Ég var búinn að vera með tann­pínu í fá­eina daga fyrir ferðina en harkaði af mér. Tók parkódín og á­kvað að fara til tann­læknis þegar ég kæmi heim. Ég fór beint úr löngu flugi í að vinna og finn að ég er með ein­hvers konar flensu­ein­kenni, þó að þau væru grun­sam­lega lík­leg til að vera eitt­hvað miklu meira. 

Ég fann til dæmis fyrir miklum svima og stans­lausri ó­raun­veru­leika­til­finningu, sem ég hafði aldrei upp­lifað áður. Þetta var fjögurra daga ferð og ég var alla ferðina í skrýtnu á­standi. 

Ég náði að klára mig í gegnum við­tölin og svona en finn það greini­lega að það er eitt­hvað mikið að. Ég skrifaði það samt bara á það að ég væri kominn með ein­hverja pest,“ segir Sölvi. Hann kom heim á föstu­dags­morgni og fór beint í út­sendingu í Ís­landi í dag seinna um kvöldið.

„Þar sá ég við­mælendur mína tvö­falt. Þá áttaði ég mig á því að ef þetta væri ein­hver pest, þá væri hún greini­lega með al­var­legri birtingar­mynd en eðli­legt gæti talist. Ég næ að klára út­sendinguna. Af­saka mig og segist vera veikur. Fer heim og á­kveð að hvílast um helgina. Ég reyni að hvíla mig. Mæti aftur í vinnuna á mánu­degi og þá heldur þetta bara á­fram,“ segir Sölvi sem á þessum tíma­punkti á­kvað að láta kanna heilsu sína. Hann fór upp á bráða­mót­töku og fór í blóð­prufur og fleira til að leita svara. 

„Það komu í ljós skýr merki þess að ég væri búinn að of­keyra mig. Ég væri í við­varandi streitu­á­standi,“ segir hann. 

„Auð­vitað voru eftir á að hyggja klár­lega merki um streitu áður en heilsan hrundi. Árin á undan gnísti ég tönnum í svefni, nagaði neglurnar í tíma og ó­tíma og gat ekki slakað á. Það gekk mjög vel hjá mér í vinnunni. Ég var orku­mikill en ég hrökk samt reglu­lega upp á næturnar og sótti í sí­fellt meiri spennu. Það er víst oft þannig að áður en þú krassar þá finnst þér þú bara vera að massa þetta,“ segir hann.

Sendur heim með geð­lyf 

Sölvi var sendur heim af bráða­mót­tökunni með tvö geð­lyf. „Þau áttu að taka á þessu á­standi, ég var ekkert mikið að huga að því hvaða lyf þetta voru eða hvernig þau virkuðu. Annað lyfið var við kvíða, hitt við þung­lyndi og var svefn­lyf líka. Ég hafði aldrei tekið svefn­lyf áður, en á­kvað að hlýða lækninum. 

Ég vaknaði á þriðju­dags­morgni og átti að mæta í vinnuna á venju­legum tíma. Ég man að ég drakk þrjá sterka kaffi­bolla, skvetti aftur og aftur framan í mig köldu vatni, en leið samt enn­þá eins og ég væri ekki vaknaður þremur klukku­tímum síðar. Eins og ég væri ekki alveg í veru­leikanum. Ég tók ekki aftur það lyf. 

En hitt hélt ég á­fram að taka. En það hafði ekkert að segja. Ein­kennin fóru ekkert og versnuðu í raun bara,“ segir hann. 
Ein­kennin sem Sölvi upp­lifði voru mjög sterk. „Ég fékk miklar meltingar­truflanir með reglu­legu milli­bili, en þær voru ekkert venju­legar. Kvala­fullir krampar og sárs­auki, sem oftar en einu sinni enduðu með ferð upp á spítala. 

Ég fékk mikil svima­köst og þjáðist af ó­gleði en verstur var kvíðinn því hann fór að vinda upp á sig. Aðal­lega vegna þess að það gat enginn sagt mér hvað væri að mér. Hvers vegna ég hrein­lega var ekki ég sjálfur lengur. Það leið ekki einn einasti dagur þar sem ég var eins og ég átti að mér að vera,“ segir Sölvi sem sagði vinnufé­lögum sínum lítið. Hann greindi frá því að hann hefði þurft að leita á bráða­mót­töku en sagði ein­göngu fá­einum ást­vinum frá kvíðanum sem hann fann fyrir.

„Þegar leið á veturinn fór að taka meira á að fela þetta stans­laust. Ég var í vinnunni allan daginn og í sjón­varpinu flest kvöld og var að bögglast með það að ég væri aldrei í lagi. Ég sagði engum frá því nema þá­verandi kærustu minni og for­eldrum mínum. 

Ég sé það núna hversu galið það er að burðast með skömm yfir því að vera lasinn, en ein­hverra hluta vegna er maður þannig gerður að manni finnst að annað fólk eigi ekki að vita. En það er ein­fald­lega rangt. Fólk vill hjálpa og það gerir manni gott að fá stuðning. Það er al­gjör ó­þarfi að annað fólk geri sömu mis­tök og ég í þessum efnum. Það að burðast með van­líðan eins og eitt­hvert leyndar­mál er al­gjör þvæla og gerir hana bara enn verri.“ 

Versta tíma­bilið var um níu mánuðir. Í allan þann tíma var ég meira og minna eins og bruna­rúst að reyna að harka af mér dag eftir dag. Það er erfitt að tína til ein­stök til­vik, en það gerðist gríðar­lega oft að ég var bara alls ekki á staðnum. Ég var í kvíða­kasti að reyna að taka við­töl við stjórn­mála­menn og alls konar annað fólk í beinum út­sendingum kvöld eftir kvöld. 

Það gerðist aftur og aftur að ég tók við­töl þar sem hausinn á mér var á full­komnum yfir­snúningi við að vinna úr öðrum hlutum. Ætli ég hafi ekki getað notað svona 10-15 prósent af heilanum á mér í það sem ég átti að vera að gera stærstan hlutan af þessum vetri. 

Ein­hverra hluta vegna fékk ég samt oft hrós fyrir þau við­töl sem ég tók og sjálf­stýringin virðist hafa virkað sæmi­lega. En þegar á­standið var orðið verst var ég líkam­lega og and­lega gjör­sam­lega búinn á því. 

Aftur og aftur kom ég heim og kastaði upp eftir út­sendingar og lá svo bara í sófanum í marga klukku­tíma. Við það bættust svo á­tökin við að fela alla þessa van­líðan daginn út og inn. Oft gerðist það að um leið og ég losnaði út af vinnu­staðnum og var kominn út í bíl þá fór ég að há­gráta. Það bara gaf sig eitt­hvað. 

Langur listi geð­lyfja 

Ég skil ekki enn hvernig ég fór að því að vera í vinnu á meðan á þessu tíma­bili stóð. Ég þurfti að taka mér veikinda­daga annað slagið. En það var fá­rán­legt hversu miklu ég kom í verk á þessum tíma. 

Ég er með lista yfir öll þau lyf sem ég þurfti að taka á þessu tíma­bili og hann er langur. Það voru um 10-12 lyf, sem flokkast undir geð­lyf, sem ég byrjaði á og hætti á þennan vetur. Auka­verkanirnar og frá­hvarfs­ein­kennin af þessum lyfja­kok­teil bættust svo ofan á allt hitt. En lyfin voru eina lausnin sem mér var boðin á þessum tíma,“ segir Sölvi. 

Kvíðinn hélt á­fram að vinda upp á sig og Sölvi segir sjálfs­myndina hafa beðið hnekki. „Þegar það fór að vora var ég svo kominn með mikinn heilsu­kvíða líka og í­myndaði mér það versta. Ég lét leita af allan grun um krabba­mein, hjarta­vanda­mál og alls konar. 

Fram að þessu tíma­bili var ég með á­kveðna hug­mynd um hver ég væri og hvernig mér ætti að líða. En frá því að þetta veikinda­tíma­bil hófst var það æ sjaldnar sem mér fannst ég vera í lagi. Það var kannski að jafnaði hálf­tími til klukku­tími á dag þar sem ég var bæri­legur.

Kvíðinn yfir því að vita ekki hvað í ó­sköpunum væri að mér bjó svo til fé­lags­fælni. Ég gat ekki farið í verslunar­mið­stöð í heilt ár. Gat ekki farið út í búð nema á kvöldin eða jafn­vel að nætur­lagi. Það er kannski eitt­hvað kómískt við það að vera fjöl­miðla­maður og geta ekki verið innan um fólk. En svona var þetta. 

En það sem var erfiðast var síma­fælnin. Ég fékk í langan tíma svima og haus­verk í hvert einasta skipti sem ég talaði í síma. Þegar ég var upp á mitt versta þurfti ég alltaf að fara af­síðis eftir að hafa tekið nokkurra mínútna sím­töl. Því þau reyndu svo mikið á. 

Ég var því alltaf að fara á klósettið, það var eini staðurinn sem ég gat farið á til að ná áttum. Þar stóð ég því bara, lokaði að mér og reyndi að ná áttum eftir að hafa tekið þriggja mínútna sím­tal. Þetta hljómar fá­rán­lega og ég get hlegið að þessu núna, en á þessum tíma­punkti gat ég ein­hvern veginn ekki bara sagt: Heyrðu, ég er bara sárlasinn.“ 

Rekinn eftir fimm ára starf 

For­eldrar Sölva gáfu honum ferð með sér til Japans í jóla­gjöf. Á þeim tíma­punkti treysti hann sér ekki í ferðina. Hann hélt að hann myndi hrein­lega ekki lifa flugið af. 

„Ég var orðinn eins og mjög illa haldinn sjúk­lingur og trúði því að ég myndi varla lifa það af að fara í svona langt flug. En það var gæfa að ég fór því í ferðinni fann ég loks von og trú á nýjan leik.

Ég var á göngu í gömlu höfuð­borginni Kyoto og fann allt í einu fyrir mér. Fann fyrir vel­líðan. Það voru engar á­hyggjur. Það var eins og veturinn væri gleymdur. Þetta á­stand varði meira og minna út ferðina og dugði til þess að ég fékk trúna á það að mér gæti batnað. 

Ég gæti orðið sjálfum mér líkur aftur. Allar þessar pillur, allar þessar læknis­heim­sóknir en svo fann ég loks ein­hverja lausn þegar ég var bara í léttum göngu­túr í fal­legri borg,“ segir Sölvi og brosir. 

Þetta sumar fór ég í gott frí. Ég átti inni sex eða sjö vikur í sumar­frí og fékk ofan á það veikinda­frí. Ég nýtti fríið vel. Fór til út­landa og upp í sveit og hvíldi mig og náði vopnum mínum aftur og fór að trúa því að þetta yrði bara allt í lagi,“ segir Sölvi frá. 

Að fríinu loknu snýr Sölvi aftur til vinnu á frétta­stofu Stöðvar 2. 

„Þegar ég byrja aftur að vinna byrjuðu ein­kennin að hluta til aftur. Ég er því farinn að átta mig á því að á­stand mitt tengist á­lagi. Ég er farinn að greina stóru myndina. Kannski ekki alveg en veit að ég er að glíma við sí­þreytu eða kulnun eða hvað sem fólk vill kalla það þegar það er of­keyrt af streitu. 

Ég áttaði mig á því að senni­lega gæti ég ekki aftur gert hlutina eins og áður. Ég yrði að hlífa mér meira og gera hlutina öðru­vísi.“ 

Haustið 2008 var eins og allir þekkja við­burða­ríkt á Ís­landi og í miðju hruninu urðu breytingar á Ís­landi í dag. 

,,Við höfðum verið þrjú með þáttinn, ég, Svan­hildur Hólm og Sigur­laug Jónas­dóttir. Ég og Svan­hildur vorum ein um pólitísku við­tölin. En svo hætti Svan­hildur og ég sá eftir það einn um þjóð­mála­hluta þáttarins út árið. Ég man eftir viku þar sem ég var með með Geir Haarde í beinni út­sendingu daginn sem Al­þjóða­gjald­eyris­sjóðurinn kom inn í landið og svo Ólaf Ragnar daginn eftir og Ingi­björgu Sól­rúnu daginn eftir það. 

Þarna var ég kominn aftur í gírinn sem ég var í þegar ég veiktist. Adrena­línið hélt mér gangandi og þetta var fjörugasta tíma­bil sem ég man eftir á mínum fjöl­miðla­ferli.

En svo var ég rekinn. Ég var mjög ó­vænt kallaður inn á skrif­stofu og rekinn eftir fimm ára starf. Sem ég held, þó að ég segi sjálfur frá, að hafi verið ó­sann­gjarnt því ég held að ég hafi skilað veru­lega góðu starfi,“ segir Sölvi og segir upp­sögnina hafa sett strik í reikninginn. 

„Mér hafði verið að miða á­fram. En þarna þarf ég að taka aftur eitt skref til baka áður en ég tek tvö á­fram. Ég fór á Skjá einn og næstu misseri þarna á eftir er ég í hægum bata. Ég er kominn inn í nýjan lífs­stíl en það gengur ekki hratt fyrir sig að um­bylta lífi sínu á þennan hátt og ég er að glíma við alls konar hluti á­fram. 

Mér þóttu þeir samt létt­vægir miðað við það sem ég gekk í gegnum þegar verst lét. Nú var ég kominn með viku­legan þátt og réð betur við á­lagið, gat jafnað það. Ég fór svo úr því að vera með við­tals­þátt í að gera frétta­skýringar­þáttinn Málið, sem var mjög skemmti­legt, en við völdum oft býsna þung mál. 

Það varð á­kveðinn vendi­punktur hjá mér vorið 2013, þegar ég var að gera þætti um barna­níð, vændi og undir­heima á sama tíma. Þátta­gerðin endaði með því að tveir veru­lega hættu­legir menn hótuðu mér líf­láti úr fast­línu­númeri Litla-Hrauns. 

Þorði ekki að sofa í íbúð sinni 

Ég þorði ekki að sofa í í­búðinni minni í heila viku og fann að nú væri komið gott af öllum þessum þyngslum,“ segir Sölvi sem segir þá góðu á­fanga sem hann hafði náð á þessum tíma stefnt í hættu. 

„Ég á­kvað þarna að taka heilsuna miklu fastari tökum og leita eigin lausna, þar sem ég hafði fengið veru­lega lítið úr lang­ferð minni til allra helstu sér­fræði­lækna sem hægt er að nefna. Ég fór að prófa mig á­fram með jóga, hug­leiðslu og köld böð. 

Breytti næringunni minni í grund­vallar­at­riðum og sitt­hvað fleira. Það má segja að þarna hafi ég virki­lega fyrir al­vöru byrjað að kafa dýpra í allt sem snýr að heilsu. Ég fór smám saman úr því að kveljast í kvíða yfir öllum mögu­legum og ó­mögu­legum hlutum yfir í það að ganga upp Esjuna á stutt­buxum í janúar­mánuði,“ segir hann og hlær. 

„Grín­laust, þá breytti öll þessi hreyfing og hug­leiðsla lífi mínu. Líkami og hugur eru ná­tengd fyrir­bæri. 
Við erum komin að á­kveðnum tíma­mótum þegar kemur að þeim lausnum sem eru í boði í okkar annars á­gæta heil­brigðis­kerfi. 

Ég átta mig á því að ég er kominn út á hálan ís, en ein­hver verður að þora að segja hlutina eins og þeir eru. Eftir að hafa sjálfur klárað há­skóla­nám í sál­fræði og gengið til sál­fræðinga og geð­lækna í mörg ár yrði ég fyrstur allra til að segja að lyf geta sannar­lega gert gagn. 

En það að skrifa upp á þau hugsunar­laust án þess að taka á öðrum þáttum er í raun al­gjör­lega galið. Það að taka ein­stak­ling með lífs­stíls­vanda­mál og setja hann á sterk lyf en spyrja hann ekkert út í það hvað hann er að borða, hvernig hann sefur og hvort hann er að hreyfa sig gengur ein­fald­lega ekki upp. 

Ef lífs­stíllinn er í steik er hausinn líka í steik. Það er nokkuð sjálf­gefið. Ég leyfi mér að efast stór­lega um að þeir sem skrifa upp á lyfin myndu gera það með sama hætti ef þeir hefðu prófað að taka þau sjálfir,“ segir Sölvi á­kveðinn og bætir við að auð­vitað sé það heil­mikið átak að breyta hlutunum. 

„Það eru engar skyndi­lausnir til, enda gefur það manni líka miklu meira að þurfa að hafa fyrir hlutunum. Reynslan hefur kennt mér að raun­veru­leg þægindi koma þegar maður hefur haft hug­rekki til að stíga aftur og aftur inn í ó­þægindi. Ég gat það, þú getur það líka,“ segir hann. 

„Allir geta það. Þegar maður er svona mikið veikur, þá vill hluti af manni fara auð­veldu leiðina. Það er svo auð­velt að taka bara lyf og leiða hjá sér rót vandans. En það er mikil­vægt að sýna hug­rekki og fara út fyrir kassann. 

Ég er vel menntaður og á­gæt­lega gefinn en ég var gæinn sem vissi rosa­lega mikið um allt en reyndi fátt og gerði lítið. Það er gjör­breytt. Nú geri ég hluti og lifi lífinu. Ég er farinn að gera hlutina sem ég talaði um í mörg ár. Mig dreymdi um að prófa að búa í Kali­forníu, ég gerði það. Ég vildi ganga Jakobs­veginn, ég sló til vorið 2017 og gerði það. Þar kviknaði í al­vöru sú löngun að miðla reynslu minni og skrifa þessa bók. 

Ég á­kvað að skilja snjall­símann eftir heima og eftir að verstu frá­hvörfin voru af­staðin streymdu til mín hug­myndir. Á þessari göngu varð hug­myndin að bókinni í raun til. Ég fann þá að heilsan hefur verið mitt helsta á­huga­mál í ára­tug. Ég hef prófað svo margt, ég hef lesið mér marg­falt meira til en á allri minni há­skóla­göngu. Það væri fá­rán­legt að þegja. Eins og ég gerði þegar ég var að glíma við þetta allt saman. Ég er í bókinni að deila öllu sem ég hef lært. 

Með margar greiningar 

Ég fór úr því að vera greindur með fjöl­marga kvilla í að vera bara nokkuð góður,“ segir hann og brosir. „Ég var greindur með kvíða­röskun á háu stigi. Hún var það al­var­leg að ég hefði verið gjald­gengur á stofnun þegar verst lét. Ég var greindur með at­hyglis­brest, ég var greindur með eitt­hvert svima­heil­kenni, af helsta sér­fræðingi landsins í þeim efnum. Ég var greindur með tvær eða þrjár krónískar meltingar­truflanir, fóta­ó­eirð, sí­þreytu, kulnun og margt fleira. Í raun og veru hafði ég fyrir ára­tug full­gilda á­stæðu til þess að gefast bara upp. En síðan þá hef ég gert fimm­tán heilar þátta­seríur í sjón­varpi, ferðast til meira en 30 nýrra landa, skrifað fjórar bækur, gert kvik­mynd og milljón aðra hluti. 

Það er svo mikil­vægt að sam­sama sig ekki greiningum. Ég er alls ekki að gera lítið úr því á­lagi sem fylgir því að glíma við sjúk­dóma. En það er hættu­legt að verða greiningin. 

Aldrei verið í betra formi 

Auð­vitað á ég slæma daga eins og allir. En þeim fækkar stöðugt og ég sé enga á­stæðu til annars en að hlutirnir geti bara orðið enn betri. Ég varð fer­tugur í desember og finnst ég léttari á allan hátt en þegar ég var tví­tugur. 

Ég hef eigin­lega aldrei verið í betra formi. And­lega jafnt og líkam­lega. En það kostar vinnu. Ég hef í ára­raðir stundað hug­leiðslu og líkams­rækt og breytingar, þær verða ekki á einum degi. En það er þess virði að hefja ferða­lagið. Með þessari bók er ég að deila öllu því sem ég hef lært á minni veg­ferð og ef ég get hjálpað ein­hverjum verð ég glaður.“ 

Sölvi Tryggva­son er í for­síðu­við­tali í Helgar­blaði Frétta­blaðsins sem verður dreift á morgun. Á morgun verður einnig birt stutt brot úr nýrri bók Sölva, Á eigin skinni.