„Já, já. Ég er enn að. Það er ekki skrúfa eftir, eins og ég segi stundum. Það er bara svoleiðis. Maður er búinn að fara alla leiðina frá glerplötu yfir í síma, eins og þar stendur, og búa til tvö símaöpp,“ segir Pétur Jónasson, ljósmyndari á Húsavík og listamaður Norðurþings 2020.

Þegar Pétur var útnefndur listamaður Norðurþings sagði bæjarstjóri Húsavíkur meðal annars að hann hefði „ávallt verið meðal þeirra fremstu í að tileinka sér nýja tækni og framfarir er tengjast ljósmyndun og framköllun. Í gegnum tíðina hefur hann því bæði sinnt faglegum hliðum síns starfs til jafns við þær listrænu með einstakri natni og næmni fyrir minnstu smáatriðum.“

Ljósmyndasýningin sem hann hélt í kjölfarið bar þessum þáttum í faglegu fari hans skýrt vitni enda komst hún býsna nærri því að verða það sem hann kallar hefðbundin sýning á verkum manns sem á að baki langan feril.

„Já, svona nokkuð. Það tókst nú ekki að hafa þetta svona alveg eins og ég ætlaði mér vegna þess að ég er í þessu helvítis krabbastandi,“ segir Pétur sem berst við krabbamein og fékk liðsstyrk frá Sigríði, dóttur sinni, og tengdadótturinni Patra Tawatpol.

Hönnuðurinn Sigurjón Pálsson var hress þegar hann mætti sjálfum sér miklum mun yngri.
Mynd/Aðsend

„Þær sáu um að negla þetta saman og koma þessu upp þannig að þetta varð nú helvíti flott sýning með smart uppsetningu og hún var bara helvíti vel sótt þótt ég segi sjálfur frá,“ segir hann um sýninguna Ljósmyndir Péturs í 60 ár sem lauk nýlega í Safnahúsinu á Húsavík.

Filman kvödd

Filman var vitaskuld mál málanna þegar Pétur byrjaði í ljósmyndun fyrir margt löngu og enn er hún sveipuð nokkrum dýrðarljóma þótt stafrænan hafi nánast gert út af við hana.

Sjálfur hefur Pétur kvatt filmuna með virktum en engum söknuði. „Já, já,“ segir hann ákveðið. „Ég gerði það og núna er ég með nýjasta Canoninn. Fimm, sem er bara rosalega fullkomin og í fælnum sem maður fær úr henni getur þú náð fram öllu því sem er í filmunni og meira til. Ef þú veist hvað þú ert að gera.“

Pétur bætir aðspurður við að hann sakni því filmunnar ekki þar sem skarð hennar hafi verið fyllt. „Já, já, alveg gersamlega með þessu og þar að auki er „auto focusinn“ í þessari vél bara alveg ógeðslega skemmtilegur. Alveg meiriháttar bara. Maður reiknaði ekki með því að lifa þá tíma að þetta væri svona.“

Nýjasta tækni og vísindi

Pétur segir hiklaust mega tala um myndvinnsluna með stafrænu tækjunum sem einhvers konar vísindi. „Þetta er það. Bara svona í alvörunni talað og svona hefur djobbið færst út í að maður er að vinna fælinn stafrænt frá því að vera í blautframkölluninni. Það er svo mikið sem er í filmunni, það verður aldrei af henni skafið,“ segir Pétur með fullri virðingu fyrir filmunni sem hefur þó mátt víkja.

„Núna er ég líka með hágæða ljósmyndapappír til að prenta á og þá fæ ég þetta bara eins og þegar maður gerði þetta í dimmukompunni í gamla daga. Og jafnvel betra.“

Pétur hefur þannig, ólíkt mörgum jafnöldrum í stétt ljósmyndara, stokkið fagnandi á stafrænu hraðlestina og var meira að segja byrjaður að fikta við gerð smáforrits fyrir lófatölvur áður en snjallsímarnir tóku sviðið.

„Stýrikerfið þar hentaði ekki þannig að maður fór að leita í símadótið. Þar voru líka ýmsir veggir en ég fann stýrikerfi sem gat virkað,“ segir Pétur um upphaf þeirrar vinnu sem hefur skilað tveimur smáforritum sem ætlað að er að auðvelda safngestum að hitta á rétta hljóðleiðsögn á ljósmyndasýningum og öðrum listaverkasýningum.

Vankaðar rollur

„Maður var búinn að horfa á þessar hljóðleiðsagnir og oftar en ekki á útlendinga bara eins og vankaðar rollur á vitlausum stöðum að skoða verk með hljóðleiðsögn um allt aðra hluti. Það var svolítið hjákátlegt.“

Pétur segist hafa eytt miklum tíma og fé í að þróa og vinna smáforritin sem hafi þó ekki dugað til þess að þau fengju það sem hann telur verðskuldaðan framgang.

„Ég sótti um hjá Iðnþróunarstofnun þar sem ýmsar hugmyndir, sem voru bara út í loftið, fengu fullt af peningum en þetta var alltof fullkomið til þess að hægt væri að eyða fé í þetta,“ segir Pétur í háðskur.

„Ég var búinn að búa þetta til en framhaldið var eftir og það voru ýmsir sem vildu krukka í þetta og allt það en þá fannst mér alveg eins gott að þetta færi þá bara í mína skúffu frekar en að aðrir færu að nota það sem var búið að gera fyrir ekki neitt.“

Sýningin gaf ágætisyfirlit yfir langan feril ljósmyndarans sem steig út úr myrkraherberginu og fagnaði stafrænu tækninni.
Mynd/Aðsend

Ljósmyndir Péturs í 60 ár

Pétur Jónasson fæddist á Suðureyri við Súgandafjörð árið 1941. Hann fékk snemma áhuga á ljósmyndun og seldi strax á táningsaldri myndir sem hann tók af leikritum sem sett voru upp í fæðingarbæ hans. Árið 1958 hélt hann til náms í höfuðborginni og stofnaði að loknu námi Ljósmyndastofu Péturs á Húsavík árið 1962 og hefur rekið hana síðan.

Sýningunni Ljósmyndir Péturs í 60 ár lauk í september en hún var haldin í tilefni þess að Pétur var útnefndur listamaður Norðurþings árið 2020. Pétur hefur enda myndað margar kynslóðir Húsvíkinga á stofu sinni, í skólum bæjarins, í Húsavíkurkirkju og ekki síst í leikhúsinu auk ótal tilefna annarra.

Pétur hefur því farið í gegnum gríðarlegar breytingar á þessum tæplega 60 árum í faginu. Myndirnar voru framan af svart-hvítar og handlitaðar en hann varð síðan annar tveggja ljósmyndara sem voru fyrstir til að framkalla myndir í lit á Íslandi. Í kjölfarið komu síðan filmuframköllun fyrir almenning, stafræna byltingin sem síðan leiddi til þess að nánast allir ganga með fullkomnar myndavélar snjallsímum sínum.