Ljós­gildran
Guðni Elís­son
Les­stofan
Síðu­fjöldi: 800

Fjórar per­sónur eru frekastar á rýmið á þessum átta hundruð blað­síðum. Annars vegar eru skáldin Jakob, sem jafn­framt er höfundur ljóða­bókarinnar Ljós­gildrunnar, og Her­mann, sem hefur tekið sér höfundar­nafnið H.M.S Her­mann, því hann er til þess búinn að skjóta tundur­skeytum á hvað sem er. Hins vegar eru valda­mennirnir, for­setinn og for­sætis­ráð­herrann, sem heitir Ólafur Helgi Haralds­son. Nafnið vísar bæði til þekkts for­seta og konung­legs sjálfs­skilnings for­sætis­ráð­herrans. Skáldið Jakob er sniðið eftir goð­sögninni um Orfeus og Evri­dísi, og þar með draumnum um að endur­heimta lífið.

Valds­mennirnir eru með þeim ó­sköpum gerðir að þeir vilja alltaf meira. Það er reyndar ekki sér­stakt í þessari sögu því allir leita ein­hvers og öll hugar­ró er víðs fjarri. Mikið er fjallað um hégóma­skap og sjálfs­hyggju, græðgi, svik og hags­muni, kynja­á­tök og fullan fjand­skap kynjanna á köflum, sam­bands­leysi ungra og aldinna og ýmis­legt fleira sem ekki er til fyrir­myndar. Að þessu leyti gengur skáld­sagan í takti við sam­tímann. Þetta eru vin­sælustu um­ræðu­efni fjöl­miðla og sam­fé­lags­miðla sem jafn­framt eru heimild um sam­vitund tímans. Ég minni til stað­festingar á ný­legar fréttir af því hvernig stór­miðillinn „face­book“ hefur ýtt undir efni af þessu tagi til þess að auka sínar vin­sældir.

Í Ljós­gildrunni á­kveða valds­mennirnir að gera skáldin að hirð­skáldum, sér til fram­dráttar. Það er flókin að­gerð að kaupa skáld og verður ekki rakið hér hvernig það gengur. Hins vegar má minna á að milli lífs og dauða er einungis þunnt skæni, rétt eins og milli skáld­skapar og veru­leika. Mörg vitur skáld hafa einnig bent á þunna og brot­hætta skurn milli and­legs heil­brigðis og veik­leika. Höfundur Ljós­gildrunnar hefur sterkan og skýran skilning á hverful­leika mann­legs lífs og vitundar. Frá­sögn hans er að grunni raun­sæis­leg en inn í hana koma samt bæði furðu­verur og bók­mennta­per­sónur sem stíga fyrir­hafnar­laust yfir skil­veggi tíma og rúms, skáld­skapar og veru­leika. Það er mikil í­þrótta­mennska sem þarf til þess að tengja frá­sagnir og til­vísanir í þessari bók.

Eins og áður var nefnt er bókin 800 bls. og því skiljan­legt að ekki verður grein gerð fyrir öllu hér í þessu spjalli enda ekki á­stæða til. Að mínu mati hefði bókin ekki þurft að verða svona löng en það er ekki mikil­vægt. Þetta er hug­mynda­rík skáld­saga og í henni bíður margt gott eftir les­endum sem hugsa, leita og upp­götva. Auka­per­sónur eru nokkuð margar og ég minnist hér að­eins á tvær sem örugg­lega ýta undir til­hneiginguna til að lesa söguna sem lykil­skáld­sögu. Ég hef reyndar alltaf verið and­snúinn slíkum lestri. Það á ekki að „af­skálda“ sögur aftur inn í í­myndaðan veru­leika. Ég nefni samt auka­per­sónuna Gunnar-rauða, sem er ógnandi og virðist „langa að höggva höfuð­in, af heiðurs­mönnunum öllum“ eins og segir í gamalli vísu. Hann fær engu á­orkað. Píratinn Mogens Bogesen nær meiri árangri! Þó að hann sé ef til vill strengja­brúða líka.

Niður­staða: Á­huga­vert og skemmti­legt bók­mennta­verk sem hefði mátt vera styttra. Ef ein­hvers staðar eru að störfum les­hringir sem eru meira en orðin tóm, þá er Ljós­gildran til­valið við­fangs­efni.