Tónlistarþróunarmiðstöðin hóf starfsemi árið 2003 og hefur því verið hluti af menningarlífinu úti á Granda í 17 ár. Þar æfir fjölbreyttur hópur tónlistarmanna og starfsfólk miðstöðvarinnar hjálpar til við að búa til góðar aðstæður til sköpunar og gera sveitum kleift að koma sér á framfæri.

„Hugmyndin á bak við Tónlistarþróunarmiðstöðina er frekar einföld, hún er bara sú að fá rými sem fólk getur svo komið inn í og skapað. Þetta snýst ekki um að slá í gegn, heldur að stunda tónlist sem áhugamál, eða kannski jaðaríþrótt, ef svo má segja,“ segir Daniel Pollock, talsmaður Tónlistarþróunarmiðstöðvarinnar. „Þannig er hugmyndafræðin. Þetta er svona „DIY“, fólk gerir allt sjálft, en við aðstoðum með tæki og tól og reddum hlutum fyrir fólk sem vill koma hingað að skapa, svona eins og að redda boltum eða skóm fyrir íþróttafólk.“

Fjölþjóðlegt og fjölbreytt

„Hér eru 15 fullpökkuð rými þar sem um 40 hljómsveitir æfa og tónleikasalur þar sem hægt er að halda tónleika og stakar æfingar til að undirbúa sig fyrir tónleika og annað slíkt,“ segir Daniel. „Fólk er ekki mikið að spila opinberlega núna, en það er samt nóg að gera við að undirbúa sig fyrir það þegar allt verður opnað og tónlistarmenn komast út að spila.

Það er nóg af böndum hér að æfa, skapa og taka upp og þetta er fjölþjóðlegur hópur. Þetta er svolítið eins og litlar Sameinuðu þjóðir,“ segir Daniel léttur. „Fólk sýnir mikla virðingu fyrir hvert öðru og hér hittist fólk og spjallar um ýmiss konar menningarstarfsemi.

Það getur hver sem er komið og hér æfir fólk sem er allt frá 12-14 ára aldri og upp í sjötugt,“ segir Daniel. „Sumir koma líka bara saman hér fyrst og fremst til að hittast og spila þá aðeins á hljóðfæri saman í leiðinni. Þetta fólk er ekkert að koma fram, heldur bara að spila saman sér til gamans.

Svo er mikið af trommuleikurum hér. Það eru nokkrir trommuleikarar á lausu hérna. Það er annað en í minni tíð, þá vantaði alltaf trommara því enginn var nógu góður,“ segir Daniel kíminn.

Tónleikahald í haust

„Í haust ætlum við að byrja með „showcase“ tónleika, en þá verða tónleikar haldnir í tónleikasalnum okkar 1-2 sinnum í mánuði á laugardögum og þar verða 3-4 sveitir að spila hverju sinni,“ segir Daniel. „Þarna verður öll flóran í boði, ekki bara einhver ein tónlistarstefnu hverju sinni.

Hugmyndin er sú að styðja við lifandi tónlist og gefa tónlistarmönnunum sem æfa hér tækifæri til að sýna sig og fá reynslu á sviði. Svo geta þau farið að spila á öðrum tónleikastöðum eftir það. Þetta gæti hresst senuna við og búið til meiri áhuga á starfseminni hér og við viljum endilega vera sýnilegri,“ segir Daniel. „Þó að við getum ekki troðfyllt staðinn ættum við samt að geta tekið á móti 100-200 manns í einu.

Við viljum líka hvetja allar hljómsveitir sem hafa áhuga á að setja upp tónleika til að gera það í samstarfi við okkur. Við gætum haldið tónleika hér alla daga þess vegna og viljum endilega hjálpa hljómsveitum að setja þá upp,“ segir Daniel að lokum.