RÚV stað­festi í gær þátt­töku í Euro­vision söngva­keppninni sem haldin verður í Rotter­dam í Hollandi í maí á næsta ári og þá hefur verið opnað fyrir laga­höfunda til þátt­töku í Söngva­keppninni. Þetta er meðal þess sem kemur fram í til­kynningu frá RÚV.

Söngva­keppnin verður haldin í febrúar 2020 og þá kemur í ljós hverjir fylgja á eftir Hatara sem full­trúi Ís­lands. Öllum gefst kostur á að senda inn lög, sem sér­stök val­nefnd, skipuð full­trúum FTT, FÍH og RÚV gefur um­sögn um. Einnig verður leitað til reyndra og vin­sælla laga­höfunda um að semja nokkur laganna.

RÚV og fram­kvæmda­stjórn keppninnar hvetja alla laga- og texta­höfunda landsins til að senda inn lög og halda þannig á­fram að móta tón­listar­sögu Ís­lands. Allar tón­listar­tegundir eru vel­komnar, að því er segir í til­kynningunni. Um­sóknar­frestur rennur út á mið­nætti þann 17. októ­ber næst­komandi og í janúar verður svo til­kynnt hvaða lög taka þátt.

Líkt og í fyrra verður breski dans­höfundurinn Lee Proud list­rænn stjórnandi og dans­höfundur keppninnar. Þá verður Kristjana Stefáns­dóttir söng­kona söng-og radd­þjálfari kepp­enda.

Undan­keppnirnar tvær verða haldnar í Há­skóla­bíói 8. og 15. febrúar og úr­slitin í Laugar­dals­höll 29. febrúar 2020. Á síðustu árum hafa er­lendar stór­stjörnur úr Euro­vision heiminum troðið upp í Höllinni á úr­slita­kvöldinu, Eleni Foureira, Alexander Rybak, Lor­een, Robin Bengts­son, Måns Zel­mer­löw og fleiri. Á því verður engin breyting í næstu keppni, að því er segir í til­kynningunni.