Nafnið á ísbúðinni, Bongó, er eng­in til­vilj­un því einn fræg­asti api Íslands­sög­unn­ar hét því nafni. Sá fékk far með Elly Vil­hjálms til Íslands árið 1958 og dvaldi stærsta hluta ævi sinn­ar í blóma­skála Michel­sens í Hvera­gerði.

„Það var alls ekki á dagskrá að fara að opna ísbúð, en þegar maðurinn minn kom heim einn daginn síðasta vetur með þessa hugmynd um ísbúð í Hveragerði þá sagði ég bara “já”! Ég hef það samt frekar fyrir reglu að segja alltaf nei fyrst þegar hann kemur með einhverjar nýjar hugmyndir,“segir Rut og hlær.

fbl 4-bongois.jpg

Brúnu leðurbekkirnir setja svip sinn á rýmið og koma vel út og frönsku stólarnir passa vel við. Bekkirnir eru frá GÁ bólstrun. Litirnir á veggjnum mynda ákveðinn hlýleika og eru frá Sérefni. Takið eftir frumskógar veggfóðrinu þar sem gylltir apar fá að taka þátt í gleðinni./Ljósmynd Katarzyna Kozanczuk.

Frönsk kaffihúsastemning með notalega upplifun í forgrunni

Kristinn segir að viðbrögðin hafi í raun vakið undrun hjá honum. „Já, ég varð eiginlega bara hissa að fá svona góðar undirtektir hjá Rut. Ég vissi reyndar að hana langaði einhvern tímann að fá að hanna ísbúð, en svo þykir henni ís svo góður að það hefur líka örugglega haft sitt að segja. Þarna fengi hún gott tækifæri til að smakka alls konar ís! Þegar á reyndi þá var Rut hins vegar ómögulegur smakkari, því hún vildi alltaf smakka betur sömu tvær tegundirnar,“segir Kristinn og glottir út í eitt. „Ég elska ís og af því að ég vissi að við myndum vinna með Kjörís sem er minn uppáhalds ís þá var þetta ekki spurning. Ég vissi strax hvaða andrúmsloft ég vildi skapa því ég hafði svo oft hannað ísbúð í huganum. Við hjónin höfðum líka ósjaldan talað um af hverju ísbúðir mættu ekki vera meira kósý og hlýlegri. Ég hafði þegar í huga einhvers konar franska kaffihúsastemningu. Oftast þegar fólk fer að fá sér ís á Íslandi þá fer það með ísinn beint út í bíl og borðar hann þar, fyrir utan þessa nokkru daga á ári þegar veður leyfir. Okkur langaði til að skapa lítinn heim þar sem ís-elskendur gætu sest niður og notið þess að borða góðan ís í fallegu umhverfi. Við vildum að þetta yrði notaleg upplifun fyrir viðskiptavinina og þeir gætu farið í smá ferðalag með okkur,“segir Rut dreymin á svip.

FBL 8-bongois.jpg

Apinn spilar stórt hlutverk í Bongó og kemur víða við eins og sjá má./Ljósmynd Katarzyna Kozanczuk.

Apinn Bongó fyrirmyndin af nafninu

Það kom mjög fljótt upp í hugmyndavinnunni að ísbúðin myndi heita Bongó. „Við vildum vinna með nostalgíu tenginguna við ísrúntinn í Eden á árum áður og þegar það rifjaðist upp að Bongó væri nafnið á apanum sem Ellý Vilhjálms kom með til landsins 1958 þá kom ekkert annað til greina. Við viljum trúa því að Bongó sé sáttur við nafngiftina á ísbúðinni og að andi hans svífi hér yfir ísnum. Núna eftir að við opnuðum ísbúðina sagði verslunarstjórinn okkar svo frá því að langafi hennar hefði einmitt verið sá sem keyrði Bongó fyrir Ellý frá Reykjavík til Hveragerðis þar sem honum var komið fyrir í gróðurskála Michelsen,“segir Kristinn.

FBL 3-bongois.jpg

Afgreiðsluborðið er mikið prýði í ísbúðinni hefur vekur eftirtekt. Grænn litur er ríkjandi í ísbúðinni á móti ljósum marmaranum í afgreiðsluborðinu og brasslitum ljósum. Marmarinn er frá Fígaró./Ljósmynd Katarzyna Kozanczuk.

Apinn hafði áhrif á hönnunina

Rut segir að apinn hafi haft áhrif á hönnunina. „Eftir að apinn Bongó kom inn í dæmið þá bættist annað tvist inn í hönnunina. Ég valdi eins konar frumskógar veggfóður á heilan vegg og gylltir apar fengu að taka þátt í gleðinni. Grænn litur er ríkjandi í ísbúðinni á móti ljósum marmaranum í afgreiðsluborðinu og brasslitum ljósum. Við fluttum svo inn franska kaffihúsastóla og marmara kaffiborð sem spila vel á móti brúnum leðurbekkum,“segir Rut sem naut sín við hönnunina í alla staði.

FBL 10-bongois.jpg

Fjölmargar tegundir af kúluís er að finna í ísborðinu og litagleðin er í fyrirrúmi./Ljósmynd Katarzyna Kozanczuk.

Harðir sjeikar af ýmsum þekktum drykkjum

Kjörís er þeirra aðalsamstarfsaðili. .„Allur ísinn hjá okkur kemur frá Kjörís en við erum búnir að vera í góðu samstarfi við þá um þróun á ýmsum nýjum bragðtegundum og svo höfum við einnig fengið þau til að draga fram gamlar uppskriftir að tegundum eins og núggat og romm & rúsínu. Bragðtegundirnar tvær sem Rut vildi alltaf smakka aftur og aftur eru Pistasía og Kókosís með hindberjum og það má alveg mæla með þeim. Þá erum við líklega fyrsta ísbúðin á landinu með vínveitingaleyfi og á matseðlinum hjá okkur eru svokallaðir "harðir sjeikar" sem eru áfengar sjeik útgáfur af ýmsum þekktum drykkjum eins og White Russian, Irish coffee, Pina Colada og fleiri tegundum,“segir Kristinn og er afar ánægður með útkomuna á sjeikunum sem hafa allir hitt í mark.

Ísbúðin Bongó er hluti af Gróðurhúsinu sem er nýr áfangastaður í Hveragerði með hóteli, mathöll, bar, verslunum, kaffihúsi og fleiru. „Við erum mjög þakklát fyrir að hafa fengið tækifæri til taka þátt í þessu metnaðarfulla verkefni. Það er skemmtileg upplifun að koma á þennan fallega áfangastað og fá detta inn í annan heim um stund,“segja þau hjónin Rut og Kristinn.

FBL14-bongois.jpg

FBL 9-bongois.jpg

FBL 13-bongois.jpg

Ragnhildur Ragnarsdóttir sem er grafískur hönnuður sá um alla grafíska hönnun, meðal annars lógóið á ísbúðinni og á öllum umbúðunum. Ísboxin koma skemmtilega út og minna líka á gamla tímann./Ljósmynd Katarzyna Kozanczuk.

FBL 12-bongois.jpg

11-bongis.jpg

fBL 5-bongois.jpg

Lýsingin er bæði hlýleg og rómantísk og minnir á stemninguna á franska kaffihúsamenningu. Lýsingin kemur frá Lumex./Ljósmynd Katarzyna Kozanczuk.

12c-bongois.jpg