Rithöfundurinn Óttar M Norðfjörð missti í síðustu viku öll tök og yfirráð yfir Instagram-reikningi sínum þegar rússneskur hakkari tók hann herskildi, lokaði á Óttar, setti mynd af fáklæddri konu í prófílin í stað myndar af rithöfundinum og er byrjaður að nota nafn Óttars á Instagram til þess að dæla út ruslpósti á þá sem fylgja honum á Instagram.

Óttar biður á Facebook þá sem hafa fylgt honum á Instagram undir notendanafninu @ottarnordfjord um að slíta tafarlaust á þau tengsl um leið og hann biður fólk afsökunar á ónæðinu sem tölvuþrjóturinn hefur valdið því.

„Rússarnir gera þetta víst, safna reikningum, til að geta spammað vini manns með vírusum,“ segir Óttar í samtali við Fréttablaðið og bætir við að einhvern fjárhagslegan ávinning sjái þrjótarnir sér líka í þessu þar sem þeir notu gervireikninga til þess að kynna vörur á vefsíðum. „Eða eitthvað þannig. Ég náði þessu ekki alveg.“

Óttar segist síðustu daga hafa reynt árangurslaust að fá hjálp hjá Instagram. „Ég fæ bara svör frá róbótum sem hafa ekki getað hjálpað mér neitt svo ég ákvað bara að hætta með þennan reikning. Stökkva frá sökkvandi skipi.“

Fyrir utan ónæðið af þessari yfirtöku á persónu hans á Instagram glatar Óttar einhverju af ljósmyndum sem höfðu safnast upp hjá honum á reikningnum. „Ég tapa væntanlega einhverjum myndum en á aðrar enn,“ segir hann og harmar að þurfa að snúa baki við Instagram-reikningnum sem hann hefur notað eins og dagbók síðustu fjögur ár.

Hann segist þó hafa tekið skjáskot af færslum sínum í gegnum reikning konunnar sinnar og ætlar að færa þær yfir á nýjan reikning þar sem hann ætlar að huga betur að öryggismálum.

„Þetta er líka mér að kenna. Ég hefði átt að hafa þetta öruggara en það góða við þetta er að ég er búinn að uppfæra þessa hluti hjá mér alls staðar. Á samfélagsmiðlum, í tölvu, síma og svo framvegis.

Þannig að það kom kannski eitthvað gott úr þessu og ég mæli með að fólk geri slíkt hið sama vegna þess að þessum hakkaramálum á bara eftir að fjölga.“