Ákvörðun Óskarsverðlaunaakademíunnar um að afhenda verðlaunin fyrir bestu kvikmyndatökuna, klippinguna, stuttmyndina, hárgreiðslu og förðun í auglýsingahléum beinu útsendingarinnar frá verðlaunahátíðinni fer vægast sagt illa í kvikmyndastjörnurnar í Hollywood.

Óskarsverðlaunaleikstjórarnir Guillermo del Toro og Alfonso Cuarón brugðust skjótt við og hafa gagnrýnt ákvörðunina harðlega og nú hafa meðal annarra öskureiður Russell Crowe, Jennifer Tilly og Spike Lee stokkið á reiðivagn samfélagsmiðlanna.

Sjá einnig: Umdeildar breytingar á Óskarnum í ár

Crowe segir þessa ákvörðun lýsa slíkum grundvallar misskilningi að hann nenni ekki að úttala sig um hana. „Þetta er bara of andskoti heimskulegt til þess að eyða orðum á,“ tísti leikarinn.

Leikarinn Seth Rogen bendir á Twitter á að varla sé hægt að fagna árangri í kvikmyndagerð betur en með því að heiðra opinberlega fólkið sem starfi beinlínis við að skapa kvikmyndir en vitaskuld segir sig sjálft að án kvikmyndatökufólks og klippara væri ekkert bíó. Josh Gad tekur undir með Rogen og segist ekki alveg skilja hvers vegna Óskarsverðlaunin virðist hata sjálf sig þetta árið.

Leikkonan Jennifer Tilly kemur sér beint að kjarna málsins: „Kvikmyndataka og klipping eru tveir af mikilvægustu þáttunum sem ráða því hvort kvikmynd verði að veruleika eða ekki. Til hvers er verið að draga ákveðnar greinar í gettó? „Erum við að heiðra afrek í kvikmyndagerð eða bara að glápa á frægðarfólk?“ spyr Tilly og lýkur máli sínu með þessum orðum: „Algert virðingarleysi.“

Spike Lee, sem er tilnefndur til verðlaunanna fyrir leikstjórn BlacKkKlansman, lætur ekki sitt eftir liggja og segir í bréfi til Los Angeles Times að án tökufólks og klippara væri hann á vergangi í óbyggðum kvikmyndagerðarinnar.