Rúrik Gíslason, fyrrverandi landsliðsmaður í knattspyrnu, sigraði í úrslitaþætti Let‘s Dance í Þýskalandi í kvöld.

Þættirnir eru byggðir á bresku þáttunum Strictly Come Dancing og vakti íslensk útgáfa þeirra, Allir geta dansað, talsverða athygli ekki alls fyrir löngu.

Úrslitaþátturinn fór fram í kvöld og dönsuðu Rúrik og dansfélagi hans, Renata Lusin, meðal annars við lag Davids Bowie, Let‘s Dane. Rúrik kom svo fram í lokaatriðinu í gervi þrumuguðsins Þórs og er óhætt að segja að frammistaða hans hafi vakið athygli. Dansaði hann þar meðal annars við lag Led Zeppelin, Immigration Song, sem margir Íslendingar þekkja.

Í frétt á vef RTL, sem sýndi þættina í þýsku sjónvarpi í vetur, er Rúrik hrósað mjög og raunar sagt að hann hafi brætt Þjóðverja með frammistöðu sinni.

Rúrik hefur slegið rækilega í gegn í þáttunum og ljóst að hann er ekki síðri dansari en hann var á knattspyrnuvellinum. Hér má sjá Rúrik og Renötu dansa í lokaatriðinu sem tryggði þeim sigurinn.