Rúrik Gísla­son, fyrr­verandi lands­liðs­maður í fót­bolta, verður á meðal þátt­tak­enda í þýska þættinum Let‘s Dance. Fyrsti þátturinn fer í loftið á RTL-sjón­varps­stöðinni þann 26. febrúar næst­komandi.

Rúrik þarf ekki að kynna sér­stak­lega fyrir lands­mönnum, enda lék hann 53 lands­leiki fyrir Ís­land og var meðal annars í hópnum sem keppti á heims­meistara­mótinu í Rúss­landi árið 2018. Rúrik vakti mikla at­hygli þar eins og frægt er orðið. Hann lagði skóna á hilluna í nóvember síðast­liðnum.

Í við­tali við RTL segir Rúrik að hann hafi á­kveðið að verða opin fyrir nýjum hlutum eftir að hann hætti í fót­bolta. Er þátt­taka hans í þættinum þáttur í því, en þættirnir eru byggðir á bresku þáttunum Strictly Come Dancing og vakti ís­lensk út­gáfa þáttanna, Allir geta dansað, tals­verða at­hygli.

Rúrik lék síðustu ár ferils síns með Sand­hausen í Þýska­landi.

Nokkrir þekktir ein­staklingar munu etja kappi við Rúrik, meðal annars Auma Obama sem er hálf­systir Baracks Obama, fyrr­verandi Banda­ríkja­for­seta. Þá verður Senna Gammour, popp­söng­kona og sjón­varps­stjarna meðal þátt­tak­enda eins og fyrir­sætan Lola Weippert, söng­konan Valentina Pahde og leikarinn Erol Sander.

Rúrik tilkynnti fylgjendum sínum á Instagram tíðindin í kvöld.
Instagram/rurikgislason