Rúrik Gíslason, fyrrverandi landsliðsmaður í fótbolta, verður á meðal þátttakenda í þýska þættinum Let‘s Dance. Fyrsti þátturinn fer í loftið á RTL-sjónvarpsstöðinni þann 26. febrúar næstkomandi.
Rúrik þarf ekki að kynna sérstaklega fyrir landsmönnum, enda lék hann 53 landsleiki fyrir Ísland og var meðal annars í hópnum sem keppti á heimsmeistaramótinu í Rússlandi árið 2018. Rúrik vakti mikla athygli þar eins og frægt er orðið. Hann lagði skóna á hilluna í nóvember síðastliðnum.
Í viðtali við RTL segir Rúrik að hann hafi ákveðið að verða opin fyrir nýjum hlutum eftir að hann hætti í fótbolta. Er þátttaka hans í þættinum þáttur í því, en þættirnir eru byggðir á bresku þáttunum Strictly Come Dancing og vakti íslensk útgáfa þáttanna, Allir geta dansað, talsverða athygli.
Rúrik lék síðustu ár ferils síns með Sandhausen í Þýskalandi.
Nokkrir þekktir einstaklingar munu etja kappi við Rúrik, meðal annars Auma Obama sem er hálfsystir Baracks Obama, fyrrverandi Bandaríkjaforseta. Þá verður Senna Gammour, poppsöngkona og sjónvarpsstjarna meðal þátttakenda eins og fyrirsætan Lola Weippert, söngkonan Valentina Pahde og leikarinn Erol Sander.
