Fótboltamaðurinn Rúrik Gíslason játar að erfitt sé að ræða frægðina án þess að hljóma uppfullur af sjálfum sér í einlægu viðtali í hlaðvarpsþætti Sölva Tryggvasonar. „Mér finnst ógeðslega erfitt að tala um þetta, ég sé sjálfan mig alltaf eins og ég sé einhver svaka kall þegar ég er að tala um þetta,“ segir Rúrik um tímabilið eftir heimsmeistaramótið.

Rúrik lýsir því að eftir leik Íslands gegn Argentínu á heimsmeistaramótinu hafi allt breyst. „Ég kem inn í klefa eftir leikinn, og er á lausu þarna, og svona ætlaði eitthvað að tékka hvort það væri ekki einhver að tékka á kallinum” segir Rúrik og hlær. Þá hafði Instagram reikningur hans sprungið og aðdáendur hrönnuðust upp.

Enginn filter bak við skjáinn

,,Þetta var mjög athyglisverður tími í mínu lífi. Mikið af alls konar skilaboðum og bónorðum og hvort ég væri ekki til í að gefa sæðið mitt,“ segir Rúrik og bendir á að fólk sleppi algerlega af sér taumnum á bak við símaskjáinn.

,,Mér finnst rosalega erfitt að tala um þetta án þess að hljóma eins og einhver Deucebag,“ bætir fótboltakappinn við en líkt og alþjóð veit er hann með nærri milljón fylgjenda á Instagram.

Setið fyrir honum á hóteli

Í kjölfar nýfundnar frægðar biðu óvæntar uppákomur. „Við fórum til Miami eftir HM og ég þurfti alls staðar að vera í myndatökum og það var sérstakt að vera kominn út fyrir Ísland og vera kominn í einhverja stjörnugeðveiki,” segir Rúrik, sem lenti síðan í því í Brasilíu að hópur af fólki beið fyrir utan hótelið hans með plaköt og myndir af honum til að árita.

Margt hefur gengið á síðan á HM og ræðir Rúrik um móðurmissinn og félag hans í Þýskalandi sem ætlaði að draga hann fyrir dómstóla vegna samningsbrots eftir að hann fór heim til að vera við hlið móður sinnar í lokabaráttunni. Hægt er að hlusta á viðtalið í heild sinni hér.