Athafnarmaðurinn og fyrrum knattspyrnukappinn Rúrik Gíslason er margt til listanna lagt þar sem hann kom meðal annars nýverið fram sem syngjandi górilla í þýsku raunveruleikaþáttunum, Masked singer.

Rúrik greindi frá þessu á Instagram í gær og segist þakklátur fyrir öll þau verkefni sem hann hefur fengið í reynslubankann.

„Undanfarnar vikur hef ég komið fram sem górilla í sjónvarpsþættinum Masked singer. Ég er þakklátur fyrir alla þá hluti sem ég get sett í reynslubankann. Það hefur svo sannarlega líka hvatt mig til að búa til meiri tónlist og syngja. Ég hafði mjög gaman af öllu ferðalaginu og ég vona að ykkur líkaði það einnig,“ skrifar Rúrik.

Í þáttunum klæða keppendur sig upp í búninga með grímu til þess að dómarar og áhorfendur þekki þá ekki og geta sig til um hvern er að ræða út frá rödd og líkamsburðum.

Dómnefndin grunaði að Rúrik væri á bakvið grímuna meðal annars vegna íslenska hreimsins, sem varð til þess að hann datt úr keppninni.

Rúrik er ekki eingöngu fær á fótboltavellinum heldur vann hann danskeppnina, Let's Dance í Þýskalandi í fyrra eins og mörgum er kunnugt.