Rúrik Gíslason, fyrrverandi landsliðsmaður í knattspyrnu og sigurvegari í þýska raunveruleikaþættinum Let‘s Dance árið 2021, gaf verðlaunaféð sem hann hlaut í sérstökum jólaþætti núna í desember til barnahjálparsamtakanna SOS Barnaþorpin.

Þetta kemur fram á Instagram síðu samtakanna.

„Okkur barst óvænt og ánægjulegt framlag í vikunni upp á rúmlega eina og hálfa milljón króna, 10 þúsund evrur. Í ljós kom að Rúrik Gíslason hafði látið verðlaunafé sitt fyrir sigur í jólaþætti „Let´s dance" renna til SOS Barnaþorpanna.“

Raunveruleikaþættirnir Let‘s Dance eru byggðir á bresku þáttunum Strictly Come Dancing og vakti íslensk útgáfa þeirra, Allir geta dansað, talsverða athygli á sínum tíma.

Líkt og fyrr segir bar Rúrik sigur úr býtum í þáttunum ásamt dansfélaga sínum, Renata Lusin, en þau dönsuðu meðal annars við lag Davids Bowie, Let‘s Dane. Rúrik kom svo fram í lokaatriðinu í gervi þrumuguðsins Þórs og er óhætt að segja að frammistaða hans hafi vakið athygli.