Knattspyrnumaðurinn Rúrik Gíslason náði þeim áfanga í fyrra að hafa eina milljón fylgjendur á samfélagsmiðlinum Instagram. Rúrik getur þó ekki lengur státað sig af þessu því hann hefur nú misst þónokkra fylgjendur og er kominn undir milljónina; einungis 999 þúsund manns fylgja Rúrik í dag.

Rúrik er þessa stundina staddur í sannkölluðu stjörnubrúðkaupi landsliðsfélaga síns Gylfa Þórs Sigurðssonar og fyrirsætunnar Alexöndru Helgu Ívarsdóttur. Brúðkaupsveislan fer fram við Como-vatn á Ítalíu en Rúrik birti í dag mynd af sér með kærustu sinni, fyrirsætunni Nathaliu Solani, þar sem þau hafa stillt sér upp með vatnið í bakgrunni.

Ekki er vitað hvað hefur valdið þessu tapi Rúriks á fylgjendum í dag. Ástæðan getur þó varla verið birting myndarinnar af parinu á Ítalíu en þau taka sig afar vel út, Rúrik í grænum jakka og Nathalia í hlébarðamynstruðum kjól.

View this post on Instagram

Wedding weekend 🇮🇹

A post shared by Rurik Gislason (@rurikgislason) on

Vinsældir Rúriks á samfélagsmiðlinum jukust hratt þegar íslenska karlalandsliðið í fótbolta keppti á HM í Rússlandi síðasta sumar. Fyrir fyrsta leik liðsins hafði Rúrik einungis um 40 þúsund fylgjendur en stuttu eftir leikinn gegn Argentínu voru þeir orðnir milljón.

Það er víst ekki á færi allra að vekja áhuga milljón manns en eftir því sem Fréttablaðið kemst næst er Hafþór Júlíus Björnsson með flesta fylgjendur allra Íslendinga; 2,4 milljónir. Þá eru þær Katrín Tanja, Sara Sigmundsdóttir og Björk Guðmundsdóttir allar með yfir milljón fylgjendur.