Fyrir tæpum hálfum mánuði sagði Fréttablaðið frá leit Vigfúsar Þormar að tilvonandi móður sem væri tilbúin til þess að leyfa leikstjóranum Rúnari Rúnarssyni að kvikmynda fæðinguna fyrir atriði í næstu bíómynd hans, Echo.

Sjá einnig: Leita að konu sem er til í að ala barn í bíómynd

Vigfús, sem sér um leikaravalið í myndinni, var í miklu kapphlaupi við klukkuna þar sem þrjár konur höfðu þurft að hætta við vegna óvæntra vandamála á meðgöngunni en strax í kjölfar fréttar Fréttablaðsins gáfu tvær konur sig fram og önnur þeirra fæddi á laugardaginn heilbrigðan, lítinn dreng fyrir framan tökuvélina.

„Þær voru  tvær sem höfðu samband við mig bara strax eftir að þær sáu fréttina,“ segir Vigfús í samtali við Fréttablaðið. „Þannig að það var mikil lukka að þessi frétt birtist. Það var smá spenna í þessu vegna þess að hún gekk aðeins framyfir en þetta gekk allt rosalega vel og það kom lítill drengur á laugardaginn.“

Þegar Fréttablaðið rædd við Vigfús fyrr í mánuðinum lagði hann áherslu á að kvikmyndagerðarfólkið vildi ekki taka neina áhættu og væri því að leita „að móður og barni þar sem allt er eins og það á að vera og búist við eðlilegri fæðingu. Þetta verður auðvitað alltaf ákveðið rask en við viljum halda því í algeru lágmarki.“

Og allt gekk það eftir og fæðingin gekk ljómandi að viðstöddum lágmarksfjölda kvikmyndagerðarliðs. „Mér skilst að þetta hafi bara verið Rúnar, hljóðmaður og framleiðandinn,“ segir Vigfús býsna sáttur við að hafa lokið þessu vandasama verkefni á tilsettum tíma.