Rúnar Freyr Gíslason verkefnastjóri hjá RÚV segir miðasöluna fyrir Söngvakeppni Sjónvarpsins sem hófst á hádegi í dag hafa farið gríðarlega vel af stað, raunar svo vel að hann hefur ekki séð annað eins.
„Miðasalan fór ótrúlega vel af stað. Þetta eru bestu viðtökur sem ég hef séð og ég er búinn að vera í þessu í nokkur ár,“ segir Rúnar í samtali við Fréttablaðið.
„Það er nánast uppselt á úrslitakvöldið, núna klukkutíma eftir opnun miðasölu, en enn eru einhverjir miðar eftir á fyrri og seinni undanúrslitin og á generalprufuna.“
Greint var frá því í gær að norsku úlfarnir í Subwoolfer yrðu meðal atriða sem fram koma á Söngvakeppninni í ár. Ákveðin hefð hefur skapast fyrir því undanfarin ár að fá erlendar Eurovision stórstjörnur á keppina en Tusse mætti í fyrra og Alexander Rybak, Mans Zelmerlov og Loreen hafa einnig látið sjá sig áður.
Rúnar segir Subwoolfer hafa verið fyrsta val RÚV. „Íslenskir áhorfendur gáfu laginu 10 stig í Eurovisionkeppninni í fyrra og íslenska dómnefndin gaf þeim 8 stig. Við gáfum okkur þessvegna að það væri mikill áhugi á að fá þá til okkar. Og mér sýnist á viðbrögðunum að það hafi verið rétt metið. Úlfarnir voru strax spenntir að koma til Íslands og hlakka mikið til að koma.“