Fimmtíu ár verða í vor liðin frá því að Danir afhentu Íslendingum Konungsbók eddukvæða og Flateyjarbók til varðveislu. Þessi tímamót gefa Árnastofnun tilefni til þess að bjóða grunnskólakrökkum á handritaheimkomuhátíð sem verður streymt frá Hörpu að morgni síðasta vetrardags.

„Það er einhver grunnmannlegur sannleikur í þessum sögum öllum og þessum boðskap. Það er allt í þessu,“ segir leikarinn Ólafur Egill Egilsson sem Árnastofnun fékk til þess að leikstýra og skrifa handrit hátíðarinnar sem er hugsuð til þess að „færa börnunum handritin“ með því að kynna fyrir þeim mesta dýrgripinn, Konungsbók eddukvæða.

„Meginstefið í þessari dagskrá er kannski að segja við krakkana: Þetta er ykkar bók. Þetta er ykkar Konungsbók sem við varðveitum en allur heimurinn á hana og það er um að gera að nota hana og njóta hennar,“ segir Ólafur Egill og bætir við að hann hafi skemmt sér konunglega við að setja dagskrána saman ásamt Steineyju Skúladóttur sem einnig er sögumaður.

Stigið inn í Goðheima

Ólafur Egill segir sín fyrstu kynni af Konungsbók hafa verið í gegnum hinar vel þekktu, dönsku teiknimyndasögur um Goðheima. „Fyrir mér var innihald Konungsbókar eddukvæða einhvern veginn alltaf mjög áþreifanlegur og lifandi heimur í krafti þessara teiknimyndasagna. Fullur af skemmtilegum og skrýtnum ævintýrum og ótrúlegum karakterum. Ég var alveg heillaður.“

Þór í brúðarkjól í myndasögunni Hamarsheimt úr Goðheimaflokknum sem opnaði Ólafi Agli ungum leið inn í Konungsbók.

Karl fer í kjól

Í kjölfarið fylgdu síðan hlutverkaspil, kvikmyndir og allt mögulegt annað sem leiddu hann lengra inn í goðheimana. „Það er auðvitað orðið miklu meira um þetta í seinni tíð. Vísindaskáldskapur og fantasíur eru gríðarlega vinsælar í dag og þar eru eddukvæðin auðvitað alger lykill. Útgangspunktur okkar Steineyjar varð dálítið að finna hvar snertiflötur krakka á grunnskólaaldri er við þessar sögur og sagnir.

Þau eru til dæmis ekki að fletta upp í ljósmynduðu útgáfunum af handritunum, eða lesa lærðar ritgerðir en þau kveikja á sögunum sjálfum, söguefninu, persónunum, gríninu og dramatíkinni. Það er það sem við erum svolítið að leggja áherslu á í þessari dagskrá. Að þetta er skemmtilegur og heillandi heimur.“

Ólafur Egill segir þau hafa gert sér góðan mat úr dægurmenningunni með því að safna saman efni úr bíómyndum, tölvuleikjum og ýmsu öðru sem klippt var saman í ansi magnaða stiklu.

Marvel-hetjurnar Loki og Þór eru þekktustu fulltrúar Konungsbókar í kvikmyndaheiminum.

„Svo leikum við Þrymskviðu, sem er ein af skemmtilegustu og aðgengilegustu sögunum og er náttúrlega bara frábær eins og þær allar. Ég meina, það er alltaf gaman að góðum kynusla og að þrumuguðinn Þór skelli sér í kjól til að endurheimta hamarinn sinn er bæði klassískt minni og síungt,“ segir Ólafur Egill og veltir upp spurningum um hvaða lærdóm megi draga af þessu neyðarúrræði Þórs sem alla jafna er karlmennskan holdi klædd.

„Jú, maður þarf auðvitað að vera opinn fyrir því að prófa nýja hluti. Skella sér jafnvel í kjól. Það getur verið lausn á málunum. Að víkja frá stöðluðum hugmyndum um kyn og kyngervi. Svo á maður líka að passa upp á hamarinn sinn og svo er náttúrlega óboðlegt að ætla að skipta á manneskju, eða gyðju, ástargyðjunni Freyju, og hamri. Hámark hlutgervingarinnar. Þetta er allt, held ég, boðskapur sem á enn við og krakkarnir eiga auðvelt með að tengja við.

Nýtt samhengi

Sjálfum finnst mér þessi sagnaheimur svo óendanlega skemmtilegur og ég vona bara að það komist til skila. Í dagskránni fara Steiney og meðleikarar hennar á flug og leika sér með þennan síkvika sagnaarf sem býður upp á endalausa túlkunarmöguleika,“ segir Ólafur Egill sem nálgaðist sagnaarfinn af ákveðinni virðingu.

„Okkur þykir vænt um þessar bækur. Þær eru mikilvægar og dýrmætar en að virða þær þýðir ekki að þær séu svo háhelgar og heilagar að það sé ekki hægt að taka þær aðeins í sundur og setja í nýtt samhengi og endurtúlka þær eins og við gerum.“

RÚV og ruv.is streyma dagskránni sem hefst klukkan tíu á miðvikudagsmorgun.