Söngvarinn Frankie Valli er fæddur í maí 1934 og er því orðinn 83 ára gamall. Hann er þó enn í fullu fjöri. Svo sprækur í raun að Jón Bjarni Steinsson, sem flutti Guns N´Roses til landsins í sumar, ætlar að halda tónleika með þeim gamla í Laugardalshöll í desember.

„Frankie Valli hefur verið í miklu uppáhaldi hjá mér síðan ég var krakki og þegar ég fyrir hálfgerða tilviljun sá að hann var enn í fullu fjöri og að halda tónleika þá gat ég ekki annað farið að athuga málið,“ segir Jón Bjarni í samtali við Fréttablaðið.

Jón Bjarni er einn eigenda barsins Dillon og segir að með tónleikum Valli sé hann í raun að þjófstarta 20 ára afmælisveislu Dillon á næsta ári. „Við ætlum að byrja afmælisveisluna með því að fá Franki Valli & The Four Seasons til að halda tónleika í Laugardalshöllinni.“

Þótt frægðarsól Valli og The Four Seasons hafi risið hæst á sjöunda og áttunda áratug liðinnar aldar hafa vinsælustu lög þeirra lifað góðu lífið og ferðast áreynslulítið á milli kynslóðanna. 

Valli er sem sagt sígildur og flestir kannast enn við lög á borð við Sherry, Big Girls Don't Cry, Walk Like a Man, Working My Way Back To You, Will You Still Love Me Tomorrow, December '63 (Oh What A Night) og auðvitað Grease.

Sprellfjörgur og frábær

Einhverjir gætu haldið að Valli sé löngu horfinn á vit ferðanna en svo er ekki. Hann er enn að troða upp, helst í Las Vegas, og þangað gerði Jón Bjarni út mannskap til þess að athuga hversu mikið líf væri enn í tuskunum.

„Ég sendi mág minn á tónleika með honum í Bandaríkjunum og fékk þau svör að hann hafi verið stórkostlegur. Þannig að ég setti allt í gang og er ofboðslega ánægður með að hafa fengið hann og hljómsveitina hans til þess að halda tónleika á Íslandi.“

Valli stígur á svið í Höllinni 8. desember og aðeins verður selt í sæti þannig að takmarkað magn miða er í boði en sala þeirra hefst á miðvikudaginn í næstu viku, 19. september.