Nokkur ruglingur varð þegar Facebook síða Eddunnar tilkynnti um dagsetningu verðlaunanna en upprunalega stóð „Eddan 2020 20.02.20“ en aðdáendur verðlaunanna voru ekki lengi að benda á að sú dagsetning hafi verið fyrir fjórum dögum.

„Það fór ekki mikið fyrir henni,“ sagði einn fylgjandi, „SHIT! Ég missti af henni,“ skrifaði annar. Færslan fékk þó ekki að lifa mikið lengur en í um 40 mínútur áður en henni var breytt í rétta dagsetningu.

Færslan með dagsetningunni var uppi í rúmar 40 mínútur.
Mynd/Skjáskot

„Þetta voru bara mistök,“ segir Auður Elísabet Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunnar, í samtali við Fréttablaðið. „Hún verður 20. mars.“

Innsendingar fyrir verðlaunin byrjuðu þann fyrsta janúar og lauk 21. janúar. Tilnefningar til verðlaunanna verða síðan kynntar þann 6. mars.