Rykfrakkinn var einstaklega áberandi á tískupöllunum þar sem vor- og sumartískan var sýnd og heldur flíkin áfram að vera eitt af klæðilegustu tískutrendunum sem eru í gangi. Rykfrakkinn hefur líka komið sér vel í gráa sumrinu á Íslandi, nógu sumarlegur sem sumarflík en líka nógu hlýr til að nota með góðri peysu innanundir á kaldari sumardögum.

Flippaðir frakkar

Á tískupöllunum fyrr á árinu, þar sem haust- og vetrartískan var kynnt, var rykfrakkinn einnig áberandi, á nokkuð öðruvísi máta en við eigum að venjast. Sérstaklega var gaman að sjá hönnuði leika sér með frakkaformið, rugla aðeins í því og snúa því rækilega á haus. Rykfrakkinn fékk til dæmis að vera kjóll með korseletti hjá Dior, sem sýndi einnig þónokkrar aðrar framandi útgáfur af rykfrakkanum til viðbótar. Aðrir hönnuðir nýttu sér útklippitrendið sem hefur vakið eftirtekt upp á síðkastið og klipptu út göt í rykfrakkann sem kom einstaklega skemmtilega út. Allt í allt voru rykfrakkar tískupallanna fjölbreyttir í sniði, efnisvali og litavali, bæði sem yfirhafnir og sem aðalflíkin.

Það þarf því ekki að einskorða sig við einn drapplitaðan rykfrakka í fataskápnum. Hví ekki að skella sér á rykfrakkakjól?

Á tískuvikunni í París í mars mátti sjá þennan gæjalega rykfrakka með útklipptum hliðum frá tískuhúsi Coperni.
Getty
Þessi sérstaki rykfrakki kemur úr smiðju Y/Project og á eftir að vera einstaklega flottur í haust
Getty
Rykfrakkinn var upphaflega hannaður í fyrri heimsstyrjöldinni af breska hernum til notkunar í skotgröfunum. Þessi rykfrakki frá Jil Sander á tískuvikunni í París í janúar minnir um margt á fatnað liðsforingja í heimsstyrjöld framtíðarinnar.
Getty
Dior var með puttann á púlsinum í vetur fyrir rykfrakkaæðið í haust og sýndi nokkrar skemmtilegar útfærslur
Getty