Kvikmyndir

Sound of Metal

★★★1/2

Leikstjórn: Darius Marder

Aðalhlutverk: Riz Ahmed, Olivia Cooke, Paul Raci

Sound of Metal var frumsýnd á Alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Toronto 2019 en rataði loks inn á streymisveituna Amazon Prime fyrr á þessu ári. Myndin var tilnefnd til sex verðlauna á Óskarverðlaunahátíðinni sem haldin var í síðasta mánuði og landaði tveimur: fyrir besta hljóðið og bestu klippinguna.

Myndin fjallar um Ruben (Riz Ahmed), trommara í metalhljómsveit sem er skipuð honum sjálfum og kærustunni hans, Lou (Olivia Cooke), sem syngur og spilar á gítar. Þau ferðast um landið í gömlum húsbíl sem er allt í senn farartæki, heimili og hljóðver.

Heimur Ruben snýst á hvolf þegar læknar tjá honum að hann muni á endanum missa heyrnina og ætti því að forðast hávaða. Ruben er fyrrverandi heróínfíkill sem sneri sér alfarið að tónlistinni til þess að geta sigrast á fíkninni og óttast því mjög að þessi nýi veruleiki muni verða honum að falli. Hann er því staðráðinn í að gera hvað sem það kostar til að fá heyrnina aftur.


Ruben er kynntur fyrir Joe, sem stýrir athvarfi fyrir heyrnarlausa. Joe reynir að telja Ruben hughvarf, og sýna honum fram á að heyrnarleysi sé ekki eitthvað sem þarf að laga heldur finna leið til að lifa með og aðlagast. Annars muni hann aldrei öðlast innri frið.

Sound of Metal er lágstemmd mynd sem færir þemun um sjálfsmyndarkreppu og persónulegan vöxt í einstakan búning. Riz Ahmed sýnir snilldartakta sem hinn þjakaði Ruben.

Örvinglunin skín bersýnilega úr hverjum andlitsdrætti hans þannig að maður skynjar vel ringulreiðina innra með honum og á ekki í neinum vandræðum með að trúa því að hann sé heyrnarlaus. Riz lærði enda táknmál sérstaklega fyrir hlutverkið.

Sound of Metal reiðir sig mikið til á hljóð og andstæðu þess, þögnina, en átök þeirra eru snilldarlega útfærð og svo skýr að áhorfandinn skynjar hvert umhverfishljóð greinilega. Að sama skapi verður þrúgandi þögnin ærandi. Myndin hlaut því Óskarinn svo sannarlega verðskuldað fyrir besta hljóð, enda er það svo frábærlega útfært að það lyftir þessu lágstemmda drama á hærra plan.


Niður­staða: Nánast á­þreifan­legar and­stæður gargandi há­vaða og þrúgandi þagnar skapa magnaðan hljóð­heim sem lyftir annars lág­stemmdu drama um þunga­rokkara sem missir heyrnina upp á hærra plan.