Rokkhljómsveitin Chernobyl Jazz Club er ekki gömul í árum en þar eru þó engir byrjendur á ferð þar sem meðlimirnir hafa meðal annars látið að sér kveða í hljómsveitunum Black Desert Sun, Bootlegs, Pornopop, Dos Pilas og Blý, svo eitthvað sé nefnt.

Fyrsta lag þeirra, Djazzklúbburinn, kom út í febrúar og Hreiðar trymbill segir það hafa fallið vel í kramið hjá íslenskum rokkhundum og því hefur nú verið fylgt eftir með laginu Ruðvalgur, sem söngkonan Amalía samdi um kvíða sinn og þunglyndi.

Ekkert þunglyndisband

„Ruðvalgur er birtingarmynd kvíða og þunglyndis og fjallar um hvernig þessar yfirþyrmandi tilfinningar geta heltekið fólk með skelfilegum afleiðingum,“ segir Hreiðar og bætir aðspurður við að hljómsveitin sé þó alls ekkert þunglyndisband.

„Nei, nei. Bandið sjálft er það svo sem ekki, en þetta er eitthvað sem Amalía glímir sérstaklega við og hún samdi í rauninni textann bara út frá eigin reynslu.

„Hvernig á maður að útskýra þunglyndi fyrir manneskju sem hefur hvorki þunglyndi né kvíða og hefur aldrei upplifað það?“ spyr Amalía, sem kennir þessa vanmáttarkennd við Ruðvalg.

„Mér finnst hann vera holdgervingur þessarar tilfinningar og vera bara eitthvert skrímsli sem kemur og tekur völdin og þú getur ekkert gert í því. Það er alveg þannig.“

Valgarður í rugli

„Þetta er eiginlega í byrjun fyrstu COVID-bylgjunnar sem ég skrifa þetta. Þegar allt lokaði og það ástand allt var í gangi,“ segir Amalía og bætir við að Ruðvalgur sé samkrull, eða amalgam, bókstafanna í nafninu Valgarður.

„Þetta orð sprettur eiginlega upp úr samtali sem ég átti við bróður minn um stafarugl. Þarna var ég að ganga í gegnum mikið þunglyndi og mikinn kvíða og þurfti að skrifa texta sem ég var bara ekkert að koma út úr mér.

Smá­skífan með Ruð­valgi er á Spoti­fy en þar syngur Amalía um hold­gerving eigin kvíða og þung­lyndis.
Fréttablaðið/Samsett

Vegna þess að orðið ruðvalgur var fast í hausnum á mér. Og til þess að ná kvíðanum svolítið út þá þurfti ég að semja lag um kvíðann og þunglyndið,“ segir Amalía og bætir hlæjandi við að það sé sannarlega kvíðalosandi að starfa með Chernobyl Jazz Club. „Ó, já. Það er líka kvíðalosandi að syngja.“

Hressandi hömluleysi

„Bara algjörlega,“ tekur Hreiðar undir. „Æfingarnar hjá okkur eru hálfgerðir sálfræðitímar. Þar er bara losað um allar hömlur og fólk talar um allt milli himins og jarðar.

Þetta er líkamsrækt. Þetta er sálfræðitími og við förum alltaf héðan út í góðu skapi og það er náttúrlega ákveðin útrás í því að spila rokk og ról,“ segir Hreiðar sem sér ekki eftir því að hafa tekið kjuðana upp aftur eftir næstum tveggja áratuga hlé.

Engar krúsidúllur

„Ég þekkti þau ekkert fyrir og þetta er það gáfulegasta sem ég hef komið mér í,“ segir Hreiðar sem trommaði með Pornopop í kringum aldamótin. „Ég sá auglýst eftir trommuleikara í rokkband á Facebook og hugsaði að það væri núna eða aldrei og sé ekki eftir því. Þetta er alveg frábær hópur fólks sem að smellpassar saman þegar kemur að því að semja og spila rokk og ról.

Við erum að æfa stíft og stefnum á að fara í stúdíó um miðjan apríl og taka upp allavegana fimm lög og gefa út plötu í vor eða byrjun sumars,“ segir Hreiðar og bætir við að tónlist þeirra hafi verið lýst sem auðmeltu verkamannarokki „þar sem er gengið beint til verks án þess að vera með of miklar krúsidúllur.“

En hvað er málið með nafnið. Var verið að horfa á Chernobyl þegar það varð til?

„Nei, en Elli bassaleikari fór til Chernobyl, en Gummi gítarleikari kom aftur á móti með nafnið. Honum fannst eins og við gætum verið húsband djassklúbbsins í Chernobyl. Ég held að hann hafi aldrei átt von á að það yrði neitt úr þessu og þetta væri bandið sem enginn kemur að sjá eða hlusta á,“ segir Hreiðar og hlær.