Iceland Airwaves fagnar 23 ára afmæli á árinu. Fjöldi sveita hefur í gegnum árin stigið á stokk á hátíðinni hverrar viðburðir hafa verið haldnir í tónleikarýmum af fjölbreyttum toga. Robyn, TV on the Radio, Hot Chip, Sinéad O’Connor, Beach house og Fatboy Slim eru dæmi um heimsfræga listamenn sem hafa sótt hátíðina heim. Þá hafa flest af stærstu nöfnum íslenskrar tónlistarsenu leikið á hátíðinni og má þar nefna Björk, Sigur Rós, GusGus og Ólaf Arnalds sem fáein dæmi.

Að sögn Önnu Ásthildar Thorsteinsson, markaðsstjóra hátíðarinnar, fer Airwaves fram á sex stöðum í ár. „Við erum að halda okkur við þessi venue sem hafa verið kjarninn að hátíðinni lengi. Það er Gamla bíó, Húrra, Gaukurinn, Fríkirkjan og Iðnó. Þau hafa hentað rosalega vel undir þessa hátíð hingað til, og munu gera áfram,“ segir Anna Ásthildur.

Hún segir jafnframt að í ljósi þess að hátíðin hafi legið í dvala sé óvenju mikill spenningur í fólki. Síðustu tvö árin hafi hátíðin verið í dvala.

Stærstu nöfnin á hátíðinni í ár eru enska rafpoppsveitin Metronomy, poppstjarnan Arlo Parks og norska rafdúóið Röykstopp sem er með DJ-sett á hátíðinni. Þá er TikTok-stjarnan Yot Club sem sló í gegn á miðlinum með laginu YKWIM? Þá er hollenska bandið Altın Gün einnig meðal listamanna á hátíðinni.

Anna Ásthildur Thorsteinsson, markaðsstjóri Airwaves, hlakkar mikið til að sjá enska rafbandið Metronomy á sviði.
Fréttablaðið/Anton Brink

Þungavigtarfólk á leiðinni

Aðspurð um stærð hátíðarinnar á alþjóðlegan skala tónlistarhátíða svarar Anna Ásthildur: „Hún er rosa stór. Við erum búin að fá mikið af fyrirspurnum frá blaðamönnum og bransafólki sem vill koma á hátíðina,“ segir hún.

„Svo er þungavigtarfólk úr bransanum að koma að skoða íslensk bönd. Stærstu nöfnin í bransanum verða þarna á hátíðinni,“ segir hún.

Anna Ásthildur segist ekki vilja gefa upp hver nöfnin eru að svo stöddu. „Við erum búin að staðfesta nokkra en ekki búin að fá formlegt leyfi til að tilkynna þau,“ segir hún. „Og svo er heill her af blaðamönnum að koma frá stærstu miðlum í heiminum, það eru 150 blaðamenn og bransafólk að koma að kynna sér og fjalla um íslenska tónlist.“

Metronomy sækir hátíðina heim í ár.
Fréttablaðið/Getty

Degi styttri þetta árið

Markaðsstjórinn segir hátíðina örlítið minni en árið 2019, þar sem hún er degi styttri í ár. „En á sama tíma eru rosalega margir sem hafa ekki komið lengi sem ætla að koma í ár.“

Aðspurð hvort hún eigi sér eitthvert eftirlætisband á hátíðinni þetta árið svarar Anna Ásthildur: „Ég hlustaði mikið á Metronomy, ég var svona indie-kid. Ég er sjúklega spennt að sjá þau. Ég verð þarna fremst.“