Rottukór er nýtt verk eftir Gunnhildi Hauksdóttur, sem sjá má á Kjarvalsstöðum til 18. október. Sýningin er hluti af Haustlaukum II, sem er samsýning á vegum Listasafns Reykjavíkur, þar sem átta listamenn sýna list sína í almannarými.

Verk Gunnhildar, sem er úr silíkoni, bambus og akrýl, samanstendur af tíu rottum á bambusprikum og hljóðverki sem hljómar í porti Kjarvalsstaða 24 tíma á sólarhring út sýningartímann, því rottur fara auðvitað mest á stjá á nóttunni. Rotturnar gefa frá sér hljóð sem Gunnhildur vann sérstaklega úr fyrir sýninguna og flutt eru af kvennakórnum Hrynjandi. Tónverkið tekur fimmtán mínútur í spilun og er síendurtekið.

Tilvera í myrkri

Gunnhildur hefur rannsakað félagslíf rotta og fengið aðgang að rannsóknum vísindamanna. „Ég hef aðgang að efni frá tilraunastofu í Kanada sem vinnur við að kortleggja tungumál rotta, sem er mjög flókið og á pari við höfrunga. Ástæða þess að þær hafa þróað með sér svona flókið tungumál í hljóðum er sú að tilvera þeirra er að mestu í myrkri, svo þær sjá ekki líkamstjáningu og merkjamál hver hjá annarri. Þær eru til dæmis með sextán hljóð til að tjá hamingju, sem tengjast samkvæmisleikjum þeirra. Vinkvennasambönd eru jafn mikilvæg fyrir rottur og fjölskyldutengsl og þær gefa hver annarri einstaklingsnöfn.“

Á tilraunastofunni í Kanada taka rannsakendur upp hljóð sem rottur gefa frá sér og kortleggja þau út frá hegðun þeirra. Gunnhildur hefur kynnt sér þessi hljóð. „Þau eru á svo hárri tíðni að við heyrum þau ekki og þau skila sér í ómmyndum. Ég teikna hvert hljóð upp og skipti teikningunni í fjóra hluta, tvo opna sérhljóða og tvo lokaða og útset það með kór sem túlkar rottuhljóðin yfir í mannsrödd.“

Margir hræðast rottur en Gunnhildur dáist að þeim.
Fréttablaðið/Anton Brink

Innsetning um apa

Í list sinni hefur Gunnhildur unnið mikið með dýr: hesta, hunda, rottur og apa. „Það eru þrjú ár síðan ég fór að kynna mér rottur. Þetta er í fyrsta sinn sem ég vinn verk með rottum og ég mun vinna meira með þær.“

Margir hræðast rottur en Gunnhildur segist dást að þeim. „Núna veit ég svo mikið um þær og þeirra félagslegu dýnamík og ást þeirra hverrar á annarri og ég kann mjög vel að meta kvenleika þeirra.“

Undanfarið hefur Gunnhildur rannsakað líf apa og gert verk sem tengist þeim, Mennskuróf. Það verk er stórt og flókið og samanstendur af risastórri innsetningu og dans- og hljóðverki eftir Gunnhildi. „Í því verki er ég á slóðum þar sem mennsku sleppir og hið dýrslega tekur við og velti upp hugleiðingum um þessar skilgreiningar sem eru á sífelldri hreyfingu eftir því sem rannsóknum á dýrum vindur fram.“

Mennskuróf hefur verið sýnt víða en ekki á Íslandi, en Gunnhildur stefnir að því að bæta úr því. Þess má geta að á Safnasafninu á Svalbarðsströnd er til sýnis verk Gunnhildar, Voðir, sem er tónverk, unnið upp úr vefnaði Jóhönnu Jóhannsdóttur. Einnig er verk eftir hana á yfirstandandi sýningu, Fjarska og nánd, í Ljósmyndasafni Reykjavíkur.