„Við erum bókstaflega að lýsa eftir áhugaverðum geymslum eða í rauninni hvernig geymslum sem er,“ segir leikkonan Laufey Haraldsdóttir hress í bragði. Tilefnið er sýningin Á vísum stað sem hópurinn stefnir á að sýna í Borgarleikhúsinu í desember

„Við viljum fá að heyra hvað það er sem fólk geymir og af hverju. Við viljum ekki bara fá að sjá dótið, við viljum líka heyra í fólki,“ segir Laufey og áréttar að um raunverulega rannsóknarvinnu sé að ræða.

Sögur í geymslum

„Geymslur eru náttúrlega staðurinn þar sem fólk kemur hlutum fyrir á vísum stað, en við viljum líka komast að því af hverju fólk geymir það sem það geymir og svo ætlum við að koma hlutunum fyrir á vísum stað, eins og safngripum. Gera hlutina sem og fólkinu svolítið hátt undir höfði,“ útskýrir hún.

Laufey segir fólk upplifa geymslur á mjög mismunandi hátt. „Þegar maður nefnir geymslur við fólk, þá upplifum við það að þar eru alltaf einhverjar sögur. Sumir segja manni strax að það séu þrjú dánarbú í geymslunni og að það sé mjög kvíðavaldandi. Aðrir verða bókstaflega spenntir að segja okkur frá því hvað þeir eru búnir að skipuleggja geymsluna sína vel.

Þannig að það eru heitar tilfinningar sem fylgja geymslum.“

Háaloft geta verið góðar geymslur.
Fréttablaðið/Aðsend

Geymslurnar móta sýninguna

Laufey segir að sýningin sjálf sé því á algjöru frumstigi. „Það er enn dálítið í þetta og núna erum við búin að heimsækja nokkrar geymslur. Svolítið mikið hjá fólki á svipuðum aldri og við, þess vegna erum við að lýsa eftir nýjum geymslum vegna þess að okkur vantar svolítið fólk á öðrum aldursbilum,“ útskýrir hún.„Þannig að sýningin mótast bara út frá því sem við sjáum,“ segir hún.

„En við erum auðvitað með nokkrar hugmyndir sem okkur langar til að gera. Við erum til dæmis með tónskáld með okkur, hana Eygló Höskuldsdóttur Wiborg, og hún er rosalega spennt að skapa hljóðheim út frá því sem að við finnum í geymslum.“

„Við fengum til dæmis lánaðar nokkrar gamlar kassettur um daginn … og núna vantar okkur bara eitthvað til að spila þær í,“ segir Laufey hlæjandi. „En við erum mjög spenntar að heyra hvað er á þessum kassettum!“

Geymslur lýsa sálinni

Þannig að þið viljið komast í alvöru geymslur?„Já, sko, en okkur finnst líka eitthvað fallegt við það að þær eru allar mismunandi. Það var ein sem sagði bókstaflega við okkur að henni fyndist geymslan svolítið endurspegla sál sína,“ útskýrir Laufey og heldur áfram: „Þetta fer alveg inn í einhvern kjarna hjá fólki. Geymslurnar þeirra.“

Laufey segir aðspurð að hópurinn stefni ekki á að komast í neinn ákveðinn fjölda geymslna fyrir sýningu. „Við erum meira að fylgja flæðinu og einhvern tímann í byrjun nóvember þurfum við líklegast að hætta, þótt þetta sé ógeðslega gaman og það er alltaf eitthvað spennandi.“

Hún segir magnaða fjársjóði hafa komið í ljós. „Ein sýndi okkur bolla sem Páll Óskar átti. Hann var á flottum stað í geymslunni. Og við erum búin að sjá safn af gömlum filmum, kvikmyndafilmum,“ segir Laufey. Hún segir bolla Páls Óskars hafa sést um leið og gengið var inn í viðkomandi geymslu.

„Þetta var mjög skipulögð geymsla og allt annað í kössum. Svo blasti þarna við bollinn hans Páls Óskars.“Laufey segir margar spurningar koma upp um geymslur. „Og maður getur spáð, hvenær er geymsla geymsla? Eru söfn geymslur? og geymslur jafnvel söfn? Og við viljum má út mörkin þar á milli.“

Laufey veitti því sérstaka eftirtekt að bolli Páls Óskars fær viðhafnarstað í geymslunni.
Fréttablaðið/Aðsend