Dans

Vorblót Tjarnarbíós og Reykjavík Dansfestival 2021

Tjarnarbíó 3.-6. júní

Hátíðin var opnuð í Tjarnarbíói fimmtudagskvöldið 3. júní með „sýnt og sagt“ formi á dagskránni. Dansarar sýndu og sögðu frá því sem þeir höfðu verið að gera undanfarið ár og áhorfendur máttu spyrja. Andrúmsloftið var afslappað og augljóst að allir voru glaðir að vera aftur saman.

Katrín Gunnarsdóttir byrjaði dagskrána í bláa vinnugallanum sínum með verkinu Dans(a). Verk sem hún frumsýndi á Reykjavík Dansfestival í september 2020 en þá í sal Dansverkstæðisins. Katrín hefur þróað persónulegan stíl í gerð sólóverka. Hún sækir þar mikið í eigin reynsluheim sem dansari og vísar þar ekki síst í vinnu dansarans á leiðinni að endanlegri útkomu. Í Dans(a) færir hún upphitunarrútínu í spariföt og setur á svið.

Aðalheiður Halldórsdóttir, Saga Sigurðardóttir og Halla Þórðardóttir veittu áhorfendum innsýn inn í hugmynd að dulúðlegu dansverki þar sem rödd og kvenleiki léku stórt hlutverk. Verulega spennandi tríó, þær stöllur. Það er yfir þeim orka sem vekur væntingar um að eitthvað spennandi sé í vændum.

Leyninúmer kvöldsins voru Ásgeir Helgi Magnússon, Una Björg Bjarnadóttir, Erna Gunnars og Sigurður Andrean Sigurgeirsson. Þau mættu með krafti á sviðið og tóku K-pop senu. Tónlistin í botni, salurinn á iði, gleðin streymdi um æðarnar. Hreyfingar og tónlistin í hamingjusömum leik, 1234, 1234. Engin sorg eða sút, kaldhæðni eða duldar meiningar, bara kraftur og gleði.

Og svo breyttist dansinn í hógvært ljóð. Melanie Noel steig á svið og flutti ljóð um það sem hún hafði upplifað og séð í verkunum á undan. Andstæðurnar voru hrópandi. Fyrst þessi kynngikraftur og svo hvíslandi ró.

Kvöldið endaði á verki eftir Michael Richardt Petersen sem var ögrandi en líka svæfandi og leiðinlegt. Það situr samt í sálinni og huganum. Það var einhver fegurð í því að neyðast til að horfa á tilgangsleysið og endurtekninguna og þegar nafnið á verkinu var kynnt, Black holy shit, fékk það meiri merkingu.

Tvær Júlíur

Föstudaginn 4. júní var opin æfing hjá Ernu Ómarsdóttur og Höllu Ólafsdóttur á Júlíu-dúettinum. Dansverki innblásnu af ballettinum Rómeó og Júlía við tónlist Prokofiev og þeirra eigin uppsetningu á Romeo und Juliet fyrir Gärtnerplatztheatre 2018. Júlíu-dúettinn er endurvinnsla á sumum þeirra hugmynda sem þar komu upp í nýju samhengi og notkun annarra sem þá þurfti að henda. Nú eru það bara tvær Júlíur sem áhorfendur fá að kynnast en Rómeó er hvergi sjáanlegur. Verkið endar kannski ekki heldur með dauða heldur áframhaldandi lífi með öllu sem því fylgir. Það verður áhugavert að sjá endanlega útkomu þegar þar að kemur.

Engar sýningar eins

Verk Steinunnar Ketilsdóttur, The Practice Performed, sækir í hugmyndir Merce Cunningham um að nota tilviljanakenndar leiðir til að ákvarða uppbyggingu dansverka og spuna sem sýningaraðferðar. Sýningin hefst á því að aðstandendur hennar sátu á sviðinu og drógu miða úr boxi sem sögðu hversu margir dansarar ættu að dansa í einu, hverjir og hversu lengi. Steinunn notar síðan spuna inn í þann ramma sem miðarnir gefa. Cunningham aftengdi líka dansinn við ljós og tónlist þannig að formin mættust ekki fyrr en á sýningardegi. Hjá Steinunni eru það líka ekki aðeins dansararnir sem spinna heldur líka ljósamenn og hljóðhönnuður.

Spunasýningar hafa lítið sést í dansi hér á landi en dansararnir í verkinu kunnu samt greinilega sitt fag. Spuni krefst mikillar hlustunar og færni í honum fæst ekki nema með góðri þjálfun. Danshópurinn hafði þessa færni á takteinum, ekki síst Védís Kjartansdóttir, Lovísa Ósk Gunnarsdóttir og Snædís Lilja Ingadóttir, sem náðu fallegri samvinnu og sköpuðu áhugaverð andartök. Dansverkið The Practice Performed verður sýnt í nokkur skipti í Tjarnarbíói og það er algjörlega þess virði að fara og sjá. Það má jafnvel fara aftur og aftur vegna þess að engar tvær sýningar eru eins.

Viðkvæmt verk

Síðasta sýning hátíðarinnar var Hvítt eftir Ragnheiði Sigurðardóttur Bjarnason. Afar persónuleg sýning þar sem fjölskyldan hennar tók þátt í henni. Systir, foreldrar, afi og ömmur voru mætt upp á svið til að tjá með hreyfingu tengsl, ást og sorg. Hvítt er fallegt verk. Það krefur áhorfandann um hæfileika til að njóta kyrrðar og flæða með hljóðheiminum og því smáa sem gerðist á sviðinu. Hugsanlega hefði hver kafli verksins mátt vera styttri. Verkið er viðkvæmt og varð fyrir smá hnjaski í lokin þegar opnað var út úr salnum áður en það var búið því endirinn og upphafið eru óvenjuleg en áhrifarík.

Það voru þreyttir en sælir áhorfendur sem kvöddust að törninni lokinni enda allir komnir úr æfingu í að mæta á sýningar kvöld eftir kvöld. Aðsókn var góð á allar sýningarnar.

Vorblótið endurspeglaði enn og aftur kraft kvenna og sýndi líka hvernig viðhorf til aldurs dansara er að breytast. Stærsti hópur þeirra sem stigu á svið voru þroskaðar konur og mæður með óendanlegan sviðssjarma og færni og þekkingu á sínu fagi. Lengi lifi dansinn í okkur og við í honum.